Hreyfing og hollt mataræði á dagskrá
Um tvö hundruð manns sóttu málþing um heilbrigða lífshætti og hreyfingu sem haldin var í Reykjavík í gær miðvikudaginn 18. mars 2009. Ráðstefnan var haldin sameiginlega af Lýðheilsustöð, Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni (NICe) og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni undir yfirskriftinni Betri heilsa, hreyfing og hollt mataræði.
Marmiðið með ráðstefnunni var að gefa mönnum kost á að ræða á breiðum grundvelli hvernig Norðurlöndin gætu tryggt betri heilsu og meiri lífsgæði með hreyfingu og hollara mataræði.
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, setti ráðstefnuna og sagði þá meðal annars: „Með því að stuðla að heilbrigðum lífsháttum, hollu mataræði og heilsurækt, einkum meðal barna, erum við að leggja grunninn að betra lífi fyrir komandi kynslóðir“. Ráðherra fagnaði bæði frumkvæði Lýðheilsustöðvar á þessu sviði og því að Norræna nýsköpunarmiðstöðin skyldi taka málið til skoðunar og koma þessum brýnu hagsmunamálum framtíðarinnar á dagskrá.
Það vakti óskipta athygli ráðstefnugestanna tvöhundruð þegar barnkór frá heilsuleikskólanum Urðarbrunni tróð upp með söng og hljóðfæraslætti í upphafi fundarins, og þá var það mál erlendu gestanna að enginn þjóð ætti fyrirlesara sem næði jafn vel til fundarmanna og Magnús Scheving, sem flutti erindi á ráðstefnunni sem gerði mikla lukku. Magnús sagði meðal annars að aldrei hefði verið mikilvægara en einmitt nú að brýna fyrir yfirvöldum að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að gera hollan mat ódýrari. „Á krepputímum hneigjast menn til þess að halla sér að ódýrum, og oft á tíðum óhollum skyndibita. En þannig þyrfti þetta ekki að vera; það ætti að vera í allra þágu að geta nýtt sér aðra og heilsusamlegri kosti“, sagði Magnús Scheving og brýndi fundarmenn til dáða í þessu sambandi.
Fundargestir á málþinginu | Barnakór söng á málþinginu | Barnakórinn |