Sparnaður og skert kjör í stað stórfelldra uppsagna starfsmanna
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, kynnti á blaðamannafundi í dag helstu þætti þeirra aðgerða, sem gripið verður til og undirbúnar hafa verið síðustu vikurnar til að mæta kröfum um hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni sem svokölluð Kragasjúkrahús veita, þ.e hagræðingu í rekstri St. Jósefsspítala og heilbrigðisstofnananna á Suðurlandi og á Suðurnesjum.
Útgangspunktur heilbrigðisráðherra var í fyrsta lagi, að sjá svo til að stofnanirnar sem í hlut eiga haldi sig innan ramma fjárlaga ársins, en ljóst var að allar áætlanir bentu til umfangsmikils hallareksturs. Í öðru lagi lagði ráðherra áherslu á að aðlaga starfsemi stofnananna og meginstarfsemi Landspítalans til lengri tíma.
Útfærslan var falin stefnumótunarsviði heilbrigðisráðuneytisins og forstjórum viðkomandi stofnana, auk fagfólksins var það eindregin ósk heilbrigðisráðherra að sveitarstjórnarmenn og hollvina- eða almannasamtök áhugamanna, sem létu sig varða framtíð heilbrigðisstofnananna á viðkomandi stöðum, yrðu virkir þátttakendur í útfærslunni.
Niðurstaða rekstrarlegar yfirferðar felst í nýjum og endurskoðuðum rekstraráætlunum stofnananna, sem allar eiga það sammerkt að tryggja að stofnanirnar halda sig innan fjárheimilda ársins í stað þess að stefna í umtalsverðan halla.
Niðurskurður áætlana St. Jósefsspítala/Sólvangs nemur 9,5% af fjárlögum ársins, samdrátturinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verður 5,2%, og hann verður 5,6% á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Niðurskurðurinn kemur beint og óbeint fram í heildarlaunum starfsmanna, eða kjörum, enda byggist hann á:
- samdrætti í yfirvinnu (fastri og tímamældri) og vaktagreiðslum
- uppsögn eða samdrætti í verktakagreiðslum til lækna, og hækkun aðstöðugjalds þeirra
- breyttu verklagi við mönnun aukavakta
- færri stjórnunarstöðum
- samdrætti í akstursgreiðslum
- samdrætti í rannsóknarkostnaði og hagræðingu í almennum innkaupum
- niðurskurði í námsleyfis- og ferðakostnaði
Í starfi nefndanna kom fram ríkur vilji til að aðlaga starfsemi Kragasjúkrahúsanna að starfsemi stofnananna og meginstarfsemi Landspítalans til lengri tíma litið. Sú vinna heldur áfram og hefur heilbrigðisráðherra óskað eftir að nefndirnar, sem gerðu tillögur um reksturinn sitji áfram, og að áfram verði náið samráð haft við sveitarstjórnarmenn og fulltrúa hollvina- og almannasamtaka áhugamanna á viðkomandi stöðum þannig að fulltrúar heimamanna geti haft áhrif á framtíð viðkomandi stofnana.
Heilbrigðisráðherra, forstjórar heilbrigðisstofnana og fulltrúar hollvinasamtaka kynna niðurstöður um ráðdeild og sparnað
Nokkrar staðreyndir um útgjöld í heilbrigðisþjónustunni
Almennt
- Áætlaður launakostnaður stofnana sem undir heilbrigðisráðuneytið heyra var um 65 milljarðar króna árið 2008
- Launakostnaður er 75 til 80% af rekstrarútgjöldum stofnana sem veita heilb
- rigðisþjónustu
- Árið 2008 bættist að jafnaði 50% ofan á greidd dagvinnulaun, s.s. fyrir yfirvinnu og vaktir, þ.e. 300 þús. kr. dagvinnulaun enda að jafnaði sem 450 þús. kr. heildarlaun
- Í apríl 2008 voru um 14% starfsmanna í stofnunum HBR með 500 þús kr. eða meira í mánaðarlaun. Hópurinn tók til sín um þriðjung heildarlaunagreiðslna
- Áætlaður kostnaður við yfirvinnu hjá ríkisstofnunum sem undir heilbrigðisráðuneytið heyra var áætlaður um 8,2 milljarðar króna á árinu 2008
Læknar
- Læknar taka til sín rúmlega 25% af heildarlaunagreiðslum heilbrigðisráðuneytisins og telja tæplega 12% af heildarfjölda stöðugilda
- Að meðaltali eru heildarlaun lækna (á heilbrigðisstofnunum öðrum en LSH) tæplega þrefalt hærri en dagvinnulaun án álags. (Dagvinna 100, heildarlaun 274)
- Ofan á dagvinnulaun lækna (á heilbrigðisstofnunum öðrum en LSH) bætast að jafnaði 106% fyrir margs konar vaktir, til dæmis bætast að jafnaði 80% við dagvinnulaunin fyrir svokallaða gæsluvakt 1
- Ofan á dagvinnulaun lækna (á heilbrigðisstofnunum öðrum en LSH) bætast að jafnaði 28% fyrir álag og yfirvinnu og 16% fyrir svokölluð gjaldskrárverk (verk utan dagvinnutíma)
Hjúkrunarfræðingar
- Hjúkrunarfræðingar taka til sín tæplega 25% af heildarlaunagreiðslum heilbrigðisráðuneytisins 2008 en eru tæplega 23% af heildarfjölda stöðugilda
- Heildarlaun hjúkrunarfræðinga voru að jafnaði um 50% hærri en dagvinnulaun þeirra árið 2008
- Af þessu er yfirvinnan að meðaltali 32%
Sjúkraliðar
- Sjúkraliðar tóku til sín rúmlega 10% af heildarlaunagreiðslum heilbrigðisráðuneytisins 2008 en eru rúmlega 12% af heildarfjölda stöðugilda.
- Heildarlaun sjúkraliða voru að jafnaði um 52% hærri en dagvinnulaun þeirra árið 2008
- Af þessu er yfirvinnan að meðaltali 29%
Rosemarie Þorleifsdóttir, fulltrúi Samtaka sunnlenskra kvenna, Magnús Skúlason, forstjóri HSU, og Árni Sverrisson, St. Jósefsspítala/Sólvangi
Eyjólfur Eysteinsson, Gunnhildur Sigurðardóttir, fyrrverandi hjúkrunarforstjóri, Elís Reynarsson, fjármálastjóri HSS
Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri LSH, Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, og Eyjólfur Eysteinsson, fulltrúi hollvinasamtaka HSS