Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 48/2002

Þriðjudaginn, 29. apríl 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri.

Þann 10. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 2. júlí 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 19. júní 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég starfaði á síðasti ári sem flugmaður hjá B, þar til kom til uppsagna vegna niðurskurðar i október 2001. Á tímabilinu október 2001 til janúar 2002 vann ég hjá D.

Ég starfaði síðan sem flugmaður hjá E frá janúar til apríl 2002. Að kröfu E var þessi vinna unnin sem verktakavinna og launin borguð frá umboðsskrifstofu í F-landi. Öll laun voru gefin upp skv. gögnum frá tollstjóra. Staðgreiðsla, lífeyrissjóður og tryggingagjald voru borguð hér á Íslandi en ekki í F-landi. Þetta var niðurstaða Ríkisskattstjóra þar sem undirritaður hefur lögheimili á Íslandi, var í vinnu fyrir íslenskt fyrirtæki og hefur allar sínar skyldur og réttindi á Íslandi.

Flugmannsstarf hjá E, sem er íslenskt fyrirtæki, krefst þess að flugmaðurinn sé með íslenskt atvinnuleyfi. Hjá E er einungis flogið á flugvélum skráðum á Íslandi sem krefst þess að flugmenn séu með íslenskt flugskírteini (eða evrópskt flugskírteini samþykktu af Flugmálastjórn). Jafnframt telst íslenskt loftfar vera íslenskt yfirráðasvæði.

Þess má geta að flugmenn G, H og B stunda allir vinnu sína í leiguverkefnum utan EES svæðisins um lengri og styttri tíma og er ljóst að þessi þáttur flugsins á einungis eftir að aukast í framtíðinni. Flugmenn þessara félaga hafa ekki fengið synjun á feðraorlofi þrátt fyrir samskonar starf og undirritaður.

Af ofantöldu hlýtur undirritaður að halda rétti sínum á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, þrátt fyrir að vegna eðli starfsins hafi vinnustaðurinn farið út fyrir lofthelgi EES svæðisins.

Með vísan til framangreinds telur undirritaður að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Önnur niðurstaða getur engan veginn samrýmst venjulegum jafnræðis- og sanngirnissjónarmiðum .“

 

Með bréfi, dags. 2. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 15. október 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dags. 22. mars 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 15. apríl 2002 vegna væntanlegrar fæðingar sama dag. Með umsókninni fylgdi m.a. tilkynning um fæðingarorlof undirrituð af honum sjálfum sem sjálfstætt starfandi einstaklingi þar sem vinnuveitandi var tilgreindur sem I og gögn sem sýndu að hann hefði gefið greiðslur frá því fyrirtæki upp til skatts sem reiknað endurgjald hér á landi. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins hefur áður borist mun I vera með höfuðstöðvar á J.

Kæranda var með bréfi dags. 19. júní synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þar sem ekki væri heimilt að taka tillit til greiðslna sem hann fékk frá I og áttu sér stað vegna starfa utan EES-svæðisins.

„Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.“

Kærandi er búsettur hér á landi og honum ber samkvæmt tekju- og eignaskattalögum nr. 75/1981 að gefa tekjur sínar upp til skatt hér á landi hvar sem þeirra er aflað. Störf hans fyrir I voru hins vegar ekki unnin á íslenskum vinnumarkaði þar sem vinnan fór hvorki fram á Íslandi né á vegum íslensks fyrirtækis og samkvæmt staðfestingu frá K, umboðsaðila I í F-landi, fór starfið ekki heldur fram á EES-svæðinu. Ekki er því heimilt að taka tillit til þessara starfa hans við mat á því hvort hann uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. ffl. fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. október 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 11. desember 2002 þar sem hann áréttar kröfur sínar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkur m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóðnum til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. ffl.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Barn kæranda er fætt 27. apríl 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 27. október til fæðingardags barns. Kærandi var á launum hjá B og hjá D í október til og með desember 2001. Frá janúar 2002 til og með mars sama ár greiðir kærandi tryggingagjald vegna greiðslna frá I.

Þegar meta skal hvað skuli telja til samfellds starfs og launa kæranda samkvæmt 1. og 2. mgr. 13. gr. ffl., verður m.a. að líta til 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald (tgl.) Kærandi fær laun frá erlendu félagi, I, vegna starfa sinna sem flugmaður á íslenskri flugvél í eigu E. Vegna þeirra greiðslna reiknar hann sér endurgjald sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og greiðir af því endurgjaldi tryggingagjald með samþykki skattyfirvalda. Með hliðsjón af því skal taka til greina starfstíma hans sem flugmanns hjá E þegar metið er hvort hann uppfylli það skilyrði að hafa verið sex mánuði samfellt á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ekki lá fyrir í gögnum málsins staðfesting á því að kærandi hafi verið á vinnumarkaði í apríl 2002. Nefndin óskaði eftir því við kæranda að upplýst yrði hvaða störfum hann hefði gegnt í apríl 2002. Í framhaldi af því sendi hann launaseðil frá fyrirtæki sínu D samtals L kr. án frekari tilgreiningar vinnuframlags. Segir í meðfylgjandi bréfi dags. 20. mars 2003 að vinna þessi hafi verið vegna verktakavinnu sem unnin hafi verið fyrir M. Einnig var sent inn ljósrit af skilagrein vegna launagreiðslunnar stimpluð móttekin af Tollstjóranum í Reykjavík 28. mars 2003.

Kvað kærandi að vegna misskilnings hafi sú sem sjái um reikningshald fyrir sig vegna vinnu sem verktaka hjá D ekki staðið skil á skattskyldum gjöldum fyrir árið 2002.

Með hliðsjón af framanrituðu verður ekki talið fullsannað að kærandi hafi verið í samfelldu starfi í aprílmánuði 2002 fram að fæðingu barnsins þann 27. apríl. Miðað við fyrirliggjandi gögn uppfyllir hann því ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphaf fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta