Hoppa yfir valmynd
11. júní 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2004

Endurupptaka máls nr. 45/2001

Þriðjudaginn, 11. júní 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. september 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá D, lögfræðingi f.h. A, dags. 31. ágúst 2001. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu í fæðingaorlofi. Þann 28. maí 2002 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í málinu. Niðurstaðan í málinu var á þann veg að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins var staðfest.

Kærandi bar mál sitt undir umboðsmann Alþingis. Álit umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun A (Mál nr. E) barst nefndinni 6. janúar 2004, með bréfi dags. 31. desember 2003. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hafi ekki gætt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig var þeim tilmælum beint til nefndarinnar að hún tæki mál A fyrir að nýju, kæmi ósk um það frá henni. Beiðni um endurupptöku frá A barst með bréfi dags. 1. febrúar 2004. Af hálfu nefndarinnar var fallist á endurupptöku málsins.

  

Í rökstuðningi með kæru sagði m.a.:

„...Umsækjendur voru búsettir í F-landi og G-landi frá árinu 1992, allt þar til 28. júní 2001 er fjölskyldan fluttist búferlum frá F-landi til Íslands. Þann 25. maí sl., rúmum mánuði áður en fjölskyldan flutti heim, eignuðust þau son. Fæðingarstyrkur var greiddur í F-landi frá fæðingardegi drengsins til þess dags er þau fluttu til Íslands, en þar sem A lauk H-námi í janúar 2001 hafði hún ekki áunnið sé nægilegan rétt til greiðslu fæðingardagpeninga. Þær upplýsingar fengjust í F-landi að þau ættu ekki rétt á frekari greiðslum þaðan eftir að þau flyttu lögheimili sitt til Íslands og hafa þau því ekki fengið frekari greiðslur þaðan síðan 28. júní, sbr. fylgiskjöl 1 og 2.

Lögð var inn umsókn um greiðslur í fæðingarorlofi í byrjun ágústmánaðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. ágúst sl., var beiðninni hafnað á þeim forsendum að umsækjandi uppfyllti hvorki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt á íslenskum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingu barns né það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að vera búsett á Íslandi við fæðingu barns, sbr. meðfylgjandi ákvörðun, fylgiskjal 3.

Í 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir „Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.“

Ekki virðist vera fullt samræmi milli lagaákvæðisins og ummæla í greinargerð en í greinargerð segir að gert sé að skilyrði fyrir rétti til fæðingarstyrks að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag barns. Orð lagaákvæðisins má skilja sem svo að þau tilvik geti verið fyrir hendi að skilyrðin eiga ekki fortakslaust við. Er í því sambandi meðal annars rétt að skoða ákvæði 34. gr. laganna um milliríkjasamning þar sem kveðið er á um að við framkvæmd laganna skuli tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. Í greinargerð með 34. gr. segir síðan að með ákvæðinu sé einkum verið að vísa til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) og sérstaklega nefnd reglugerð ráðsins frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, nr. 1408/71/EBE, með síðari breytingum. Ekki fæst séð hvernig það getur samrýmst markmiðum reglugerðarinnar að einstaklingar sem flytja á milli aðildarríkja geti tapað rétti sínum við það eitt og setið uppi réttindalausir.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er þess farið á leit að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. ágúst sl. verði hnekkt. Ef ekki er á það fallist er óskað rökstuddrar synjunar.“

 

Með bréfi, dags. 19. september 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 18. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 27. júlí 2001 og móttekinni 10. ágúst sótti A um fæðingarstyrk og B um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þeirra þann 25. maí en þau höfðu samkvæmt skráningu þjóðskrár Hagstofu Íslands flutt hingað til lands frá F-landi þann 28. júní. A var með bréfi dags. 17. ágúst synjað um greiðslur þar sem hún uppfyllti hvorki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt á vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingu barns né það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að vera búsett á Íslandi við fæðingu barns. Því miður fórst fyrir að senda einnig B bréf um synjun á greiðslum en úr því hefur nú verið bætt.

IV. kafli (7.-15. gr.) laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fjallar um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns en konu er þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í 1. mgr. 13. gr. er síðan kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkað fyrir upphafsdag fæðingarorlofs en taka skuli til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum (þar á meðal F-landi) hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þarf foreldri þannig að hafa uppfyllt skilyrði 13. gr. um samfellt starf á innlendum vinnumarkaði eða samanlagt í öðru EES-ríki og hér á landi í síðasta lagi við fæðingu barns.

Í VI. kafla (18.-23. gr.) laganna er kveðið á um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar og í námi. Í 18. gr. er kveðið á um greiðslur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, þ.e. foreldra sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. um starf á innlendum vinnumarkaði. Í 2. ml. 2. mgr. segir að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði.

Í 12. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er nánar fjallað um lögheimilisskilyrði í 18. gr laganna. Þar segir í 1. og 2. mgr:

„Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnustaðar, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrðið um lögheimili er í samræmi við búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggðar samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. skal foreldri afhenda Tryggingastofnun staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir.“

Samkvæmt ákvæðum þessum stofnast réttur til greiðslu fæðingarstyrks við fæðingu barns og skilyrðið um lögheimili er í samræmi við búsetuskilyrðið sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar, þ.e. að vera búsettur hér á landi þegar réttur til greiðslu stofnast og ef skilyrði er sett um tryggingatímabil hér á landi að uppfylla þau eða að framvísa staðfestri yfirlýsingu (E-104) um tryggingatímabil sem lokið er í öðru EES-ríki á þeim tíma sem upp á vanta. Jafnframt skal tekið fram að undirritaðri er ekki kunnugt um neitt land annað en F-land sem greiðir fæðingarorlof til foreldris sem flytur til landsins eftir fæðingu barns. Þvert á móti er reglan almennt sú að foreldri sem hefur öðlast rétt til greiðslna í fæðingarorlofi í því landi þar sem það var búsett við fæðingu barns fær áfram greiðslur þar flytjist það til annars lands á fæðingarorlofstímanum.

A og B voru búsett í F-landi við fæðingu barns síns og uppfylltu því hvorki skilyrði laganna fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði né greiðslu fæðingarstyrks á þeim tíma. Flutningur þeirra hingað til lands rúmum mánuði síðar varð ekki til þess að þau öðluðust rétt til greiðslna hér á landi...“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. janúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Athugasemdir bárust með bréfi dags. 8. febrúar 2002, þar sem segir m.a:

„Með vísan til greinargerðar Tryggingastofnunar eru hér lögð fram frekari gögn, þ.e. staðfest yfirlit um tryggingartímabil í öðru EES-ríki (E-104) fyrir B. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda allt frá því áður en þau fluttust búferlum til Íslands 28.6.2001, sem og beiðni Tryggingastofnunar (E-107) í október sl., sem síðan hefur verið margítrekuð, hafa ekki enn borist sambærileg gögn fyrir A...

Að öðru leyti er ekki ljóst hvort Tryggingastofnun ríkisins telur að framangreind gögn ráði úrslitum í máli þessu. Því er ítrekuð sú ósk að tekin verði afstaða til þess hvort íslenskir ríkisborgarar þurfi að sæta því að vera með öllu réttindalausir við flutning milli EES-ríkja...“

 

Þar sem úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taldi málið ekki nægilega upplýst, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlofsmál (ffl.), var óskað eftir greinargerð frá alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. bréf dags. 27. mars 2002.

 

Greinargerð alþjóðadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 22. apríl 2002. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi, dags. 27. mars 2002, var óskað eftir grg. í máli nr. 45/2001 hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. Áður hafði verið óskað eftir grg. frá stofnuninni í sama máli og er grg. Tryggingastofnunar dags. 18.01.02. Er litið svo á að óskað sé eftir viðbótargreinargerð um þau atriði málsins er snúa að samningum milli Íslands og F-lands um almannatryggingar.

Kærandi A hefur skv. upplýsingum frá Þjóðskrá Hagstofu Íslands búið erlendis sem hér segir:

F-land 09.04.1992 – 28.10.1997, G-land 28.10.1997 – 15.02.1999, F-land 15.02.1999 - 28.06.2001

Óvígð sambúð er skráð frá 18.10.1997. Lögheimili er skráð hér á landi frá 29.06.2001. Börn kæranda eru fjögur, tvö fædd í F-landi 29.01.1993 og 03.11.1994, eitt fætt í G-landi 25.03.1998 og það yngsta í F-landi 25.05.2001. Kærð er afgreiðsla umsóknar um fæðingarorlofsgreiðslur hjá TR vegna barns fætt 2001.

Fram kemur í umsókn A til TR að óskað sé eftir greiðslum frá 29.06.2002 til 25.11.2002.

Skv. upplýsingum í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 31.08.2001, nutu umsækjendur A og B greiðslna, fæðingarstyrks í F-landi frá fæðingardegi til flutningsdags, og að þau hafi fengið þær upplýsingar að ekki væri réttur til frekari greiðslna eftir brottflutning. Þar sem í málsgögn vantar vottorð frá viðkomandi tryggingastofnun í F-landi um upphæð, tegund og tímabil bóta var haft samband símleiðis við tryggingastofnun. Vegna barns fætt 25.05.2001 hafa foreldrar alls fengið greiddar I kr. fram til 28.06.2001.

Milli Íslands og F-lands gildir rg. (ESB) 1408/71 og 574/72 um almannatryggingar, sbr. 29. gr. EES samningsins og viðauka VI við samninginn, sbr. 1. nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið með síðari breytingum. Reglugerðirnar með síðari breytingum hafa bæði verið birtar í EES viðbætinum og í Stjórnatíðindum ásamt reglugerðum um gildistöku þeirra.

A er íslenskur ríkisborgari og hefur bæði búið og unnið í F-landi. Hún fellur því undir reglurnar og heyrði undir F-lensk almannatryggingalög þ. 25.05.2001 í samræmi við 13. gr. 1. mgr og 13. gr. 2. mgr. a) í rg. (ESB) 1408/71. Kemur fram í umsókn og kæru til úrskurðarnefndar að bótaréttur hafi verið staðfestur í F-landi vegna fæðingarinnar þ. 25.05.2001 og að bætur hafi verið greiddar. Synjun, niðurfellingu eða skerðingu á F-lenskum greiðslum á að kæra til réttra F-lenskra yfirvalda skv. þarlendum reglum.

Einstaklingar heyra aðeins undir löggjöf eins samningsríkis á hverjum tíma, sbr. nánar II. bálk rg. (ESB) 1408/71. í III bálki rg. (ESB) 1408/71 eru sérákvæði um ýmsa bótaflokka og er fjallað um bætur vegna veikinda meðgöngu og fæðingar í 1. kafla. Um framkvæmdaatriði er fjallað í 1. og 2. kafla IV. bálks framkvæmdarg. (ESB) 574/72.

Þessar reglur gilda milli Norðurlandanna um réttindi og greiðslur vegna meðgöngu og fæðingar þegar einstaklingar sem ákvæðin taka til flytja milli landanna. Löndin hafa túlkað reglurnar þannig að greiða skuli bætur til einstaklinga sem flytja milli landanna eftir að hafa öðlast rétt til bótanna, þar til rétturinn er tæmdur (eða viðkomandi telst vinnufær). Sbr. hér t.d. 22. gr. 1. mgr. b)ii) og 2. mgr.

Skv. F-lenskum lögum er unnt að dreifa greiðslum vegna fæðingar á langt tímabil. Í F-lenskum lögum er kveðið á um það að einstaklingur sem hvorki vinnur né býr í F-landi teljist ekki lengur falla undir F-lenska löggjöf, sbr. einnig t.d. 13. gr. 2. mgr. f) í rg. (ESB) 1408/71.

F-lensku bæturnar höfðu verið tilkynntar á sínum tíma, í samræmi við 5. gr. rg. (ESB) 1408/71 sem bætur vegna meðgöngu og fæðingar.

Í máli er endaði fyrir Evrópudómstólnum (COJ) var deilt um það, hvort F-búum hafi verið heimilt að stöðva greiðslur í fæðingarorlofi í svipuðu tilviki og hér um ræðir. Konan sem um ræddi byggði rétt sinn á 22. gr. 1. mgr. b) ii). Dómurinn skilgreindi hins vegar F-lensku bæturnar sem fjölskyldubætur og að þær féllu undir 7. kafla í rg. (ESB) 1408/71. Á þeim grundvelli var síðan talið að ekki væri skylt að greiða þessar bætur eftir að viðkomandi hefði bæði flutt búsetu sína og væri ekki lengur á vinnumarkaði viðkomandi ríkis (S).

Eftir þetta hafa F-búar túlkað og framkvæmd F-lensk lög og reglur með þessum hætti.

Íslenskar greiðslur í fæðingarorlofi teljast hins vegar að óbreyttu áfram falla undir III. bálk, 1. kafla reglugerðarinnar.

Varðandi rétt til greiðslna í fæðingarorlofi frá Tryggingastofnun fer skv. lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og er vísað til greinargerðar TR, dags. 18. janúar 2002, varðandi þau ákvæði.

Áður hefur komið fram, að ákvæði um það hvaða löggjöf skuli gilda eru í II. bálki, 13. – 17. gr. reglugerðarinnar, Einstaklingur heyrir aðeins undir löggjöf eins ríkis á hverjum tíma.

Á grundvelli rg. (ESB) 1408 og 574/72 er ekki hægt að byggja kröfu um rétt til bóta nema viðkomandi hafi áunnið sér rétt til greiðslna með tryggingar- eða vinnutímabilum í viðkomandi landi áður en bótaatburður átti sér stað.

Ekki er skylt skv. ákvæðum rg. (ESB) 1408/71 að greiða bætur í einu ríki til viðbótar greiðslum frá öðru ríki vegna sama bótaatburðar. Hins vegar er skylt að taka tillit til áunninna tímabila frá öðrum samningsríkjum ef viðkomandi nær ekki að fullnægja skilyrðum um áunnin tímabil skv. lögum þess ríkis sem viðkomandi fellur undir, sbr. hér 18. gr. rg. (ESB) 1408/71.

Ef að viðbótartímabila er þörf til þess að einstaklingur fullnægi skilyrðum sem það ríki setur fyrir því að öðlast rétt til bóta, þá skal slíkum tímabilum bætt við þau trygginga- eða búsetutímabil sem hlutaðeigandi hefur lokið í fyrrnefnda ríkinu, að því tilskyldu að þau skarist ekki. Varðandi leiðbeiningar um framkvæmd sjá t.d. 8. gr., 10. gr. b og 15. gr. a og 16. gr. í frkv.rg. (ESB) 574/72.

Varðandi útreikning á fjárhæð bóta, þegar gert er ráð fyrir því í löggjöf að þær skuli reikna út eftir meðaltekjum eða viðmiðunartekjum, þá kemur fram í 23. gr. rg. (ESB) 1408/71 að aðeins skuli hafa hliðsjón af launum, iðgjöldum eða viðmiðunartekjum á þeim tímabilum sem lokið var skv. þeirri löggjöf.

Þar sem að umsækjandi hafði ekki lokið neinum tryggingatímabilum hér á landi er bótaatburður (fæðingin) átti sér stað reynir ekki á þessi ákvæði. Viðkomandi heyrði undir F-lensk lög við fæðinguna, bótaréttur var viðurkenndur og greiðslur áttu sér stað skv. F-lenskum lögum.

Því verður að telja að við flutning til Íslands fari það eftir íslenskum lögum hvort heimilt sé að greiða bætur til viðbótar F-lenskum (eða öðrum erlendum) bótagreiðslum. Slíkt kæmi þá væntanlega aðeins til greina hvað varðar fæðingarstyrk, því krafist er áunninna vinnutímabila undir íslenskri löggjöf sem frumskilyrði þess að bótaréttur ávinnist hér á landi á grundvelli vinnuframlags.

Vísað er til greinargerðar lífeyristryggingadeildar TR um það, hvort íslensk lög heimili greiðslu fæðingarstyrks til þeirra er flytja til Íslands með lítið barn og hafa fengið bætur vegna fæðingarinnar skv. erlendri löggjöf, sem eru jafnháar eða lægri en íslenska greiðslur.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

Með bréfi kæranda dags. 1. febrúar 2004 þar sem óskað er eftir endurupptöku segir m.a.:

„Vísað er til álits umboðsmanns Alþingis, dags. 31. desember 2003, í máli nr. E, kvörtun A vegna úrskurðar úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála frá 28. maí 2002. Í álitinu kemur meðal annars fram að úrskurðarnefnd fæðingar-og foreldraorlofsmála hafi við meðferð máls undirritaðrar, sem lauk með úrskurði 28. maí 2002, ekki gætt 10. gr. Stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beinir umboðsmaður þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að hún taki málið fyrir að nýju, óski undirrituð eftir því, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í framangreindu áliti.

Hér með óskar undirrituð eftir því að mál nr. 45/2001 hjá nefndinni verði tekið til efnismeðferðar að nýju. Vísast til þegar framkominna gagna og því lýst yfir að dvöl okkar hjóna erlendis um níu ára skeið tengist framhaldsnámi okkar beggja, annars vegar margra ára K-námi eiginmanns míns, B og undir lok búsetu okkar erlendis þriggja anna námi undirritaðrar í H-fræðum.

Nánari málavextir eru þeir að í apríl 1992 fluttum við hjónin lögheimili okkar til J-borgar í F-landi þar sem eiginmaður minn hóf K-nám við L-stofnun í sama mánuði. Hann lauk K-námi sínu í J-borg í desember 1996, en þá tók við hálfs árs námstími á M-stofnun í N-borg á O-deild, en slík deild er ekki í J-borg, sjá meðfylgjandi staðfestingar á námi B, Í kjölfarið fékk hann tilboð um starf sem P á R-stofnun í G-landi. Fjölskyldan flutti þangað í lok október 1997 en þá gekk undirrituð með þriðja barn okkar hjóna. Því var ljóst að H-nám í N-borg varð að bíða, en ekki var unnt að nema þau fræði í S-borg. Fjölskyldan fluttist aftur til F-lands, N-borgar, þegar fæðingarorlofi lauk í febrúar 1999 og í ágúst sama ár hóf undirrituð H-nám þar. Því lauk með útskrift 18. janúar 2001, sbr. Meðfylgjandi staðfestingu. Þá var undirrituð orðin barnshafandi í fjórða sinn, gengin tæplega 5 mánuði. Þar sem svo skammt var til fæðingar öðlaðist undirrituð ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga í F-landi heldur fékk einungis greiddan fæðingarstyrk eins og áður hefur komið ram í gögnum málsins. Þann 28. júní 2001, um mánuði eftir fæðingu yngsta barnsins 25. maí s.á., flutti fjölskyldan búferlum til Íslands og frá þeim degi fékk undirrituð ekki neinar lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi, hvorki frá F-landi né frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þess er óskað að við endurupptöku málsins muni úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taka mið af framangreindum málavöxtum og gögnum við mat á því hvort ákvæði 13. gr. Reglugerðar nr. 909/2000, um undanþágu frá ákvæði fæðingarorlofslaga nr. 95/2000 um lögheimilisskilyrði, eigi við. Meðfylgjandi gögn sýna að dvöl undirritaðrar og fjölskyldu um níu ára skeið tengdist námi og var námið forsenda þess að flutt var utan og dvalið svo lengi sem raun ber vitni. Því er þess óskað að viðurkennt verði að undirrituð hafi átt rétt á greiðslu fæðingarstyrks á Íslandi allt til 25. nóvember 2001 er barnið varð sex mánaða gamalt, þ.e. frá 28. júní til 25. nóvember 2001.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Mál þetta er endurupptekið að beiðni kæranda sem barst með bréfi, dags. 1. febrúar 2004. Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu í fæðingarorlofi.

Mál þetta hefur m.a. dregist vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Þegar barn kæranda fæddist 25. maí 2001 var hún búsett í F-landi. Réttur kæranda til greiðslna vegna fæðingar barnsins var viðurkenndur í F-landi og hafði hún fengið greiðslu fyrir hluta þess tímabils sem hún átti rétt á. Við það að kærandi flutti frá F-landi til Íslands þann 28. júní 2001 féllu greiðslur til hennar niður skv. þarlendum reglum. Réttur maka kæranda til greiðslna vegna fæðingar barnsins féllu einnig niður við brottflutninginn, en hann hafði starfað á vinnumarkaði í F-landi fram að fæðingu barnsins.

Samkvæmt reglum í II. bálki reglugerðar (ESB) 1408/71 um lagaskil giltu F-lensk lög um rétt kæranda til fæðingarorlofs. Samkvæmt þeim reglum sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er meginreglan sú að einstaklingur falli aðeins undir löggjöf eins aðildarríkis á hverjum tíma. Í III. bálki reglugerðar 1408/71 eru sérákvæði um ýmsa bótaflokka og fjallar 1. kaflinn um veikindi, meðgöngu og fæðingu. Ákvæði reglugerðarinnar kveða ekki á um skyldu aðildarríkis að greiða viðbót við greiðslur annars ríkis vegna sama atburðar. Kemur þá til skoðunar hvernig íslensk löggjöf tekur á slíkum tilvikum.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar og foreldraorlof (ffl.).

Samkvæmt framangreindum skilyrðum um áunninn rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hefur kærandi ekki öðlast slíkan rétt, þar sem hún starfaði ekki hér á landi a.m.k. í einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Þá kemur til skoðunar hvort kærandi eigi rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða sem námsmaður.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ffl. eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns. Í 2. mgr. er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Í 1. mgr. 19. gr. er kveðið á um að foreldrar í fullu námi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns. Í 2. mgr. 19. gr. segir að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Um lögheimilisskilyrði 18. og 19. gr. er nánar fjallað í 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 og um undanþágur frá lögheimilisskilyrði í 13. gr. sömu reglugerðar. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur litið svo á að maki námsmanns sem flutt hefur lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms maka falli undir ákvæði 2. mgr. 18. gr. ffl. um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til F-lands í apríl 1992 vegna K-náms maka. Eftir að maki hafði lokið K-námi sínu þar gegndi hann stöðu P í G-landi og flutti fjölskyldan þangað í október 1997. Verður að líta svo á að með námslokum maka og flutningi fjölskyldunnar til G-lands hafi lokið tímabundinni dvöl erlendis vegna náms maka.

Fjölskyldan flutti aftur til F-lands frá G-landi í febrúar 1999 og hóf kærandi þar síðan H-nám í ágúst sama ár. Því námi lauk hún í janúar 2001 en í framhaldi af því fór hún á atvinnuleysisbætur þar til barnið fæddist.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er það almennt skilyrði fyrir beitingu 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði að tilgangur flutnings hafi verið nám foreldris og að nám sé samfellt meðan dvalið er erlendis. Samkvæmt framanrituðu flutti kærandi lögheimili sitt til F-lands í apríl 1992 vegna K-náms maka sem var lokið áður en fjölskyldan flutti til G-lands í október árið 1997. Hvorki kærandi né maki var við nám á tímabilinu frá október 1997 er fjölskyldan flutti til G-lands þar til kærandi hóf H-nám í ágúst 1999 eftir flutning fjölskyldunnar aftur til F-lands í febrúar 1999. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki litið svo á að kærandi hafi átt rétt til fæðingarstyrks á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði né uppfyllir hún skilyrði um rétt til fæðingarstyrks og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta