Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2004

Þriðjudaginn, 6. júlí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. janúar 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. sama dag.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 24. október 2003 um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í fyrrgreindri niðurstöðu TR um fæðingarstyrk er stuðst við ákvæði reglugerðar nr. 909/2000, og þá væntanlega ákvæði 2. málsgreinar 14. greinar reglugerðarinnar, þó það sé ekki tilgreint í niðurstöðu TR.

Á það skal bent að í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er ekki að finna ákvæði sem styðja kröfu TR um námsárangur, einungis að námsmaður hafi verið í 75–100% námi.

Óvéfengjanlegt er í þessu tilviki að umsækjandi uppfyllir þær kröfur sbr. þau gögn sem send hafa verið TR.

Er þess því krafist að niðurstaða TR verði tekin til endurskoðunar, þar sem ekki verður séð að reglugerðarákvæði eigi sér lagastoð.“

 

Með bréfi, dags. 28. janúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 11. febrúar 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 22. september 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 21. nóvember 2003. Einnig barst námsferilsyfirlit vegna náms hennar við framhaldsskólann B dags. 10. október 2003 þar sem fram kom að kærandi hefði verið skráð í 17 einingar á haustönn 2002, hefði lokið 11 einingum af þeim, fallið í 3 einingum og skráð sig úr 3 einingum, á vorönn 2003 hefði hún verið skráð í 13 einingar, hefði lokið 6 einingum af þeim og fallið í 7 einingum og að á haustönn 2003 væri hún skráð í 6 einingar. Í staðfestingu frá skólanum dags. sama dag kemur fram að það eru 140 einingar til stúdentsprófs í skólanum og að taka þurfi að meðaltali 17,5 einingar á önn til að ljúka náminu á 8 önnum.

Lífeyristryggingasvið synjaði með bréfi dags. 24. október umsókn um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um fullt náms þar sem nám á vorönn hafi 6 einingar sem nái ekki 75% námi sé miðað við að fullt nám sé 18 einingar. Þess í stað yrði greiddur lægri fæðingarstyrkur foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk.. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er sett það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, að um sé að ræða 75-100% samfellt nám í a.m.k. sex mánuði og í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi lauk 11 einingum á haustönn 2002, 6 einingum á vorönn 2003 og var skráð í 6 einingar á haustönn 2003. Fullt nám í skóla hennar telst vera 17,5 einingar á hverri önn. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 19. gr. ffl. og 14. gr. reglugerðarinnar um fullt nám og á ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.“

    

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. febrúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis, sbr. 7. mgr. 19. gr. ffl. Í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Með setningu reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks hefur ráðherra nýtt sér heimild laganna til setningar reglugerðar um nánari útfærslu á ákvæðum laganna.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðarbreytingar nr. 915/2002 að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi elur barn 2. desember 2003. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 2. desember 2002 fram að fæðingardegi barns.

Við mat á því hvort kærandi hafi verið í fullu námi og eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður verður auk skráningar hennar í nám að líta til námsframvindu og námsárangurs í framhaldsskólanum B á viðmiðunartímabilinu.

Staðfest er með bréfi dags. 10. október 2003 undirritað af áfangastjóra við framhaldsskólann B, að 140 einingar þurfi til stúdentsprófs við skólann og taka þurfi að meðaltali 17,5 einingar á önn til að ljúka námi á átta önnum. Með hliðsjón af því verður að telja að 17,5 einingar teljist 100% nám á önn. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráð í 17 einingar á haustönn 2002. Hún lauk 11 einingum, stóðst ekki 3 eininga áfanga og skráði sig úr 3 einingum. Á vorönn 2003 var hún skráð í 13 einingar, lauk 6 einingum og stóðst ekki 7 einingar. Á haustönn sama ár var hún skráð í 6 einingar.

Á vorönn 2003 var kærandi skráð í um 75% nám, þ.e. 13 einingar. Hún lauk einungis 6 einingum á önninni eða minna en helmingi þeirra eininga sem hún var skráð í en stóðst ekki 7 einingar. Kærandi lauk þannig einungis 35% náms á önninni sem verður eigi talinn viðunandi námsárangur á önn í skilningi 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðarbreytingar nr. 915/2002.

Með hliðsjón af því sem fram kemur um námsframvindu og námsárangur í gögnum málsins og rakið hefur verið verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu fæðingarstyrks er staðfest. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Ósk Ingvarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta