Hoppa yfir valmynd
11. júní 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2004

Þriðjudaginn, 11. júní 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. janúar 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 22. desember 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. október 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks. Ég hef uppfyllt öll skilyrði sem þarf til greiðslu styrksins. Enginn rökstuðningur hefur verið veittur mér fyrir synjuninni. Ég var í fullu námi síðustu tólf mánuði fyrir umsóknina og fékk ekki greiðslur vegna fæðingarinnar í B-landi þar sem ég bjó.

Meðfylgjandi er meðal annars vottorð frá D-skóla sem staðfesti fullt nám mitt við skólann frá 01.02.01 til 30.01.03. Á meðfylgjandi einkunnablaði er meðal annars tekið fram að fullt nám séu 27 mánuðir. Ég lauk námi á þeim tíma.“

   

Með bréfi, dags. 19. janúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 5. febrúar 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Með umsókn dags. 9. október 2002 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í 2 mánuði frá desember 2002 vegna áætlaðrar fæðingar barns 4. nóvember 2002. Með fylgdu vottorð um væntanlegan fæðingardag og staðfesting dags. 11. október 2002 frá D-skólanum, í E-borginni, B-landi um nám hans þar frá 1. febrúar 2001 og væntanleg námslok 30. apríl 2003.

17. október 2002 mun kæranda hafa verið sent bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um námsframvindu hans fyrir skólaárið 2001 - 2002 og staðfestingu á því að hann ætti ekki rétt á greiðslur í fæðingarorlofi í B-landi.

20. maí 2003 barst staðfesting dags.. 2. maí 2003 á því að hann ætti ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B-landi á grundvelli þess að hann uppfylli ekki skilyrði fyrir dagpeningagreiðslum.

13. júní 2003 barst skólavottorð dags. 10. júní 2003 þar sem staðfest var að kærandi hefði verið í fullu námi við frá D-skólann á tímabilinu 1. febrúar 2001 - 30. apríl 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 18. júní 2003 var kæranda tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn varðandi umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna, skólavottorð sem hann hafi sent sé ekki fullnægjandi vottorð um nám hans á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag og að upplýsingar vanti um námsframvindu, þ.e. hvað hann hafi stundað nám í mörgum fögum, haustönn 2001, vorönn 2002 og haustönn 2002, hvað hann hafi lokið mörgum prófum fyrir það tímabil og hvað teljist vera eðlileg námsframvinda samkvæmt skólanum.

30. júní 2003 bárust fleiri upplýsingar um próftöku kæranda í janúar og júní 2002 og janúar og apríl 2003. 23. júlí 2003 bárust síðan kennsluáætlun og prófáætlun.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 31. júlí 2003 synjaði lífeyristryggingasvið kæranda um fæðingarstyrk á grundvelli þess að skv. upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands hafi hann flutt til B-lands í ágúst 1998 og samkvæmt upplýsingum sem fylgdu umsókn hófst nám hans ekki fyrr en í febrúar 2001. Ekki liggi þannig fyrir upplýsingar um að hann hafi flutt lögheimili erlendis vegna náms auk þess sem ef gögn bærust um nám í B-landi 1998-2000/2001 þyrfti einnig upplýsingar um námsframvindu hans síðastliðinn vetur.

18. ágúst barst staðfesting frá F-háskólanum dags. 11. ágúst 2003 um að kærandi hefði verið í eins árs undirbúningsnámi við skólaárið 1998-1999. Námið hefði byrjað um mitt árið 1998 og hann hefði skráð sig úr náminu þann 25. janúar 1999.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 20. ágúst 2003 var synjað að breyta fyrri afgreiðslu á grundvelli viðbótargagna. Samkvæmt framlögðum gögnum uppfylli kærandi ekki skilyrðið um 75% nám í 6 mánuði samfellt fyrir fæðingu barns. Jafnframt liggi ekki fyrir upplýsingar um hvort hann stundaði nám eða vinnu árin 1999 og 2000.

8. október 2003 barst staðfesting frá D-skólanum dags. 4. september 2003 um að kærandi hefði verið í fullu námi, ca. 35 tímum á viku, tímabilið 1. febrúar 2001- 30. apríl 2003 og tölvuútskrift af yfirliti stimpluðu af G-skólanum um einhvers konar starfsnám á tímabilinu 15. ágúst 1999 - 7. janúar 2001.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 20. október 2003 var synjað að breyta fyrri afgreiðslu á grundvelli viðbótargagna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. (lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og síðust 12 mánuði á undan) eða undanþáguákvæði 13. gr. (foreldri sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis).

Skv. 2. mgr. 14. gr. skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í I. kafla A.. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um hverjir skuli tryggðir skv. lögunum. Þar segir í 9. gr. a. að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Skv. 6. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993, fellur sá sem er búsettur í norrænu landi undir löggjöf búsetulandsins ef sérstakar ástæður leiða ekki til annars.

Skv. samningi um Evrópska efnahagssvæðið og a-lið 2.mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 skal einstaklingur sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki heyra undir löggjöf þess ríkis, jafnvel þótt búseta hans sé skráð í öðru aðildarríki.

Í 9. gr. c. atl., sbr. breytingalög nr. 74/2002, er kveðið á um heimild fyrir því að ákveða að einstaklingur sem tryggður er skv. lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a. (um búsetu hér á landi) enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins.

Kærandi flutti til B-lands 17. ágúst 1998 og hóf þá nám sem hann sagði sig úr 25. janúar 1999. Ekki hafa borist upplýsingar um hvort hann var í námi eða við störf á tímabilinu janúar - ágúst 1999, upplýsingar sem borist hafa um tímabilið ágúst 1999 - janúar 2001 eru ekki skýrar um hvort hann var í námi eða starfi og þar sem þessar upplýsingar liggja ekki fyrir nægir skólanám hans á tímabilinu febrúar 2001 - apríl 2003 ekki til þess að heimilt sé að greiða honum fæðingarstyrk námsmanna á grundvelli þess að hann hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. febrúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Í framhaldinu óskaði nefndin frekari gagna frá H-skólanum um nám kæranda. Þann 7. júní 2004 barst staðfesting þess efnis að kærandi var nemandi við skólann frá vorönn 1999 fram til janúar 2001.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Staðfest er að kærandi var í fullu námi við D-skólann tímabilið 1. febrúar 2001 til 30. apríl 2003.

Kærandi flutti lögheimili sitt til B-lands 17. ágúst 1998. Samkvæmt gögnum málsins stundaði hann undirbúningsnám við F-háskólann, skólaárið 1998-1999 en skráði sig úr því námi 25. janúar 1999. Hann hóf síðan nám við H-skólanum í janúar 1999 og stundaði þar nám fram til janúar 2001, samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði.

Kærandi hóf síðan nám við D-skólann frá 1. febrúar 2001 fram að fæðingardegi barns.

Barn kæranda er fætt 14. nóvember 2002. Með hliðsjón af framangreindu er tólf mánaða viðmiðunartímabil því frá 14. nóvember 2001 til fæðingardags barns.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Staðfest er að hann lauk fullu námi við D-skólann á vorönn 2002 og var skráður í fullt nám á haustönn 2002.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns, er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta