Yfir 3.000 störf og úrræði fyrir atvinnuleitendur
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu velferðarráðherra um verkefnið Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013. Atvinnuleysistryggingasjóður leggur 2,7 milljarða króna til að standa straum af hluta kostnaðar við rúmlega 3000 vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu á næstunni fullnýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta.
Í kjölfar efnahagshrunsins var réttur til atvinnuleysisbóta framlengdur tímabundið úr þremur árum í fjögur. Um áramótin verður hann aftur þrjú ár og er reiknað með að á tímabilinu 1. september 2012 – ársloka 2013 hafi um 3.700 atvinnuleitendur fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir verkefnið sem hér hafi náðst samkomulag um að ráðast í til að tryggja vinnu og virkni atvinnuleitenda enn eitt dæmið um það hvernig ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins geti lyft grettistaki þegar allir eru sammála um verkefnið og tilgang þess: „Frá því að erfiðleikarnir riðu yfir hefur ríkt þjóðarsátt um að berjast með öllum ráðum gegn langtímaatvinnuleysi og neikvæðum afleiðingum þess. Við höfum áorkað miklu saman og þetta eru verkefni sem munu gera samfélagið miklu sterkara og betra þegar upp verður staðið en ella hefði verið.“
Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013
Ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins hafa nú gert með sér samkomulag um átak til að mæta aðstæðum þess fólks sem hefur eða mun á næstunni fullnýta rétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu. Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013 er yfirskrift verkefnisins. Ljóst er að án þessara aðgerða myndi umtalsverður hópur fólks ekki eiga annarra úrkosta en að sækja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, endurhæfingarlífeyri eða örorkubætur. Með átakinu er öll áhersla lögð á að aðstoða fólk til vinnu og virkni á nýjan leik og stuðla að fullri þátttöku þess í atvinnulífinu.
Aðilar samkomulagsins skuldbinda sig til að leggja verkefninu til 2.200 starfstengd vinnumarkaðsúrræði sem skiptist á eftirfarandi hátt:
- Almenni vinnumarkaðurinn leggur til 1.320 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (60%)
- Sveitarfélög leggja til að lágmarki 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (30%)
- Ríkið leggur til 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (10%)
Stærstur hluti þeirra 2,7 milljarða sem lagðar verða til verkefnisins úr Atvinnuleysistryggingasjóði nýtast sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir framantalin störf.
Atvinnutengd endurhæfing fyrir þá sem þurfa
Fengin reynsla sýnir að allt að 25% atvinnuleitenda geta ekki nýtt sér starfstengd vinnumarkaðsúrræði og þurfa á endurhæfingu að halda. Því er miðað við að um 900 manns fái atvinnutengda endurhæfingu, að hluta til fólk með réttindi innan Atvinnuleysistryggingasjóðs en jafnframt um 520 einstaklingar sem hafa fullnýtt rétt sinn og verður þeim tryggður framfærslustyrkur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.