Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fagnar alþjóðasamningi um vopnaviðskipti

Fra-fundi-um-althjodasamning-um-vopnavidskipti
Á fundi með fulltrúum Íslandsdeildar Amnesty International og Rauða Kross Íslands í utanríkisráðuneytinu í dag, fagnaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra nýjum alþjóðasamningi um vopnaviðskipti. Samningurinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á þriðjudaginn en þetta er fyrsti samningur sinnar tegundar og stórt skref í baráttunni gegn ólögmætum vopnaviðskiptum. Vonir standa til að með honum verði hægt að stemma stigu við vopnadreifingu, m.a. til átakasvæða, hryðjuverkahópa og skipulagðrar glæpastarfsemi. 

"Samþykkt þessa samnings eru mikil gleðitíðindi og sögulegur áfangi í baráttunni gegn vopnuðum átökum, ofbeldi og mannréttindabrotum," segir utanríkisráðherra. Hann lýsir ánægju með náið samstarf við Amnesty og Rauða Krossinn. "Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðunum og beitti sér með hópi þeirra ríkja sem kölluðu eftir víðtækum samningi sem grundvallast meðal annars á alþjóðlegum mannúðarlögum. Við settum líka baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi á oddinn og ég er stoltur af því að með góðri samvinnu við hin Norðurlöndin öfluðum við stuðnings 100 ríkja við okkar málflutning og tryggðum þannig ákvæði gegn kynbundnu ofbeldi í samninginn" sagði utanríkisráðherra á fundi með fulltrúum Amnesty og RKÍ í dag.  

Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa beitt sér fyrir gerð þessa samnings frá upphafi og hefur unnið markvisst að áherslumálum sínum sem eru víðtækt gildissvið samningsins, gagnsæi í vopnaviðskiptum og þrengd útflutningsskilyrði til að tryggja að vopnum verði ekki beitt í ólögmætum tilgangi. Ólögleg vopnaviðskipti koma fyrst og fremst niður á óbreyttum borgurum, ekki síst konum og börnum, og því var lögð mikil áhersla á að í samningnum yrði tekið fullt tillit til mannréttinda og mannúðarlaga. 

Alls samþykktu 154 ríki samninginn, þrjú voru á móti og 23 sátu hjá. Samningurinn mun liggja frammi til undirritunar frá og með júní nk. en hann öðlast gildi 90 dögum eftir að 50 ríki hafa fullgilt hann. Í samningnum er endurskoðunarákvæði, sem gefur tækifæri til að laga það sem betur má fara, með samþykki ¾ aðildarríkja eftir 6 ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta