Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, á UT-deginum 24. janúar 2006
Tæknin og tækifærin
Ráðstefna í tilefni af UT-deginum 24. janúar 2006
Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir,
Í fyrsta skipti er nú efnt til dags upplýsingatækninnar eða UT-dags til þess að vekja athygli á þeim tækifærum sem Íslendingar eiga á sviði upplýsingatækni, upplýsingatækniiðnaðar og fjarskipta. Yfirskrift dagsins er „Tæknin og tækifærin“ og er það að mínu mati vel við hæfi, því hugtakið tækifæri er einmitt eitt af fjórum lykilatriðum í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Þetta hugtak gefur til kynna að fyrir hendi séu margir möguleikar til að ná árangri - en ekkert gerist af sjálfu sér. Við verðum að sýna frumkvæði og grípa þau tækifæri sem tæknin færir okkur.
Það er mikilvægt að átta sig á því að það eru ekki einungis fyrirtækin í landinu sem ættu að grípa þessi tækifæri. Tækifærin snúa ekki síður að almenningi og stjórnsýslunni. Í alþjóðlegum könnunum hefur ítrekað komið í ljós að almenningur á Íslandi er í fremstu röð í heiminum við að nýta sér upplýsingatæknina. Af því getum við verið stolt en það er hægt að ná mun lengra með samspili almennings, opinberra aðila og fyrirtækja í landinu. Einnig má segja að ríkið og sveitarfélögin hafi tekið upplýsingatækninni opnum örmun og náð umtalsverðum árangri á mörgum sviðum. Samt eru þau ekki nema í miðjum hópi Evrópuþjóða þegar skoðað er framboð á rafrænni þjónustu. Það er ekki ásættanlegt og þar er tækifæri til að gera enn betur.
Augljóslega er hægt að bæta til muna rafræna þjónustu við almenning og ná aukinni innri hagræðingu. Að því er nú unnið og það ætti að hvetja ríki og sveitarfélög til frekari dáða að ljóst er að þar sem ríkisstofnanir hafa boðið fram góða þjónustu á vef sínum þá hefur almenningur strax nýtt sér þá þjónustu.
Það er fagnaðarefni að sjá hve góð þátttakan er á þessari ráðstefnu en hún er þungamiðjan í UT-deginum. Ýmislegt hefur verið gert í tilefni dagsins og var meðal annars gefið út umfangsmikið blað um upplýsingatæki sl. föstudag. Einnig hafa verið opnaðir hvorki meira né minna en þrír nýjir vefir: UT-vefurinn sem er vefur sem forsætisráðuneytið hefur sett upp og ber ábyrgð á; vefur um netöryggi sem Póst- og fjarskiptastofnun ber ábyrgð á og vefur um rafræn viðskipti sem Impra hefur sett upp að frumkvæði iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta.
Forsætisráðuneytið vill einnig nota þetta tækifæri til að skýra frá mikilvægu verkefni sem verið er að hleypa af stokkunum. Það er verkefnið Ísland.is sem verður kynnt betur síðar á ráðstefnunni. Það felst í því að koma upp einni þjónustuveitu sem hefur það að markmiði að auðvelda aðgengi að allri opinberri þjónustu. Þar sem það er mögulegt, á notandinn að geta afgreitt sig sjálfur og hann á ekki að þurfa að vita fyrirfram hvaða stofnun veitir þá þjónustu sem hann þarf á að halda. Þetta verkefni fellur afar vel að öðru verkefni sem ég hef ýtt úr vör undir yfirskriftinni Einfaldara Ísland.
Í ákafa okkar að ná sem bestum árangri með tækninni er nauðsynlegt að muna að við erum misjafnlega í stakk búin til að nýta okkur tæknina. Taka verður mið af þörfum ólíkra hópa í allri þjónustu opinberra aðila, líka í rafrænni þjónustu.
Nú nýlega lagði ég fyrir ríkisstjórn skýrslu um aðgengi allra að vefnum. Ákveðið hefur verið að fara að þeim tillögum sem lagðar eru fram í skýrslunni og stefna að því að allir opinberir vefir á Íslandi uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur í aðgengismálum. Þetta verkefni verður nánar kynnt fyrir ríkisstofnunum á næstunni.
Ágætu ráðstefnugestir,
Að UT-deginum standa ráðuneytin öll en að beinum undirbúningi hafa komið forsætisráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, samgönguráðuneyti og fjármálaráðuneyti í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja og Skýrslutæknifélagið. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þessu aðilum, og fyrirtækinu Athygli sem unnið hefur með hópnum, fyrir undirbúning dagsins.
Framtíð okkar er nátengd árangri þjóðfélagsins á sviði upplýsingatækni. Við getum gert betur og það er mikið í húfi að vel takist til.
Ég er fullviss um að þessi dagur á eftir að marka spor sem hafa áhrif á framtíð okkar.