Mál nr. 8/1996
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 8/1996
Beiðni borgarlögmannsins í Reykjavík um endurupptöku máls nr. 11/1994
A
gegn
Skólaskrifstofu Reykjavíkur og skólamálaráði Reykjavíkur
Á fundi kærunefndar jafnréttismála, þriðjudaginn 15. október 1996, var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
MÁLAVEXTIR
Með bréfi dags. 28. júní 1996 fór borgarlögmaðurinn í Reykjavík þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún tæki til skoðunar á ný mál kærunefndar jafnréttismála nr. 11/1994; A gegn Skólaskrifstofu Reykjavíkur og skólamálaráði Reykjavíkur. Rök fyrir beiðninni voru þau að eftir að kærunefnd jafnréttismála skilaði áliti sínu hafi komi fram nýjar og mikilvægar upplýsingar í málinu sem hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu kærunefndar hefðu þær legið fyrir við meðferð málsins.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um endurupptöku máls. Þar segir:
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
-
ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim, sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema aðfengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mœli með því.
Með bréfi dags. 27. ágúst 1996 óskaði kærunefnd eftir afstöðu A til beiðninnar. Svarbréf lögmanns hennar er dags. 30. ágúst 1996. Í því kemur fram sú afstaða A að hún telji ekki ástæðu til endurupptöku málsins.
NIÐURSTAÐA
Kærunefnd jafnréttismála telur að 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við þar sem nefndin er einungis álitsgefandi stjórnsýslunefnd og þá ekki heldur þau tímamörk sem greind eru í 2. mgr. 24. gr. - þ.e. „frá því að ... aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum ...“
Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 11/1994 var send aðilum málsins þann 12. maí 1995. Beiðni borgarlögmanns um endurupptöku málsins er dagsett 28. júní 1996 eða rúmu ári eftir að aðilum var tilkynnt niðurstaða málsins.
Með vísan til athugasemda í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga ber að skýra 2. mgr. 24. gr. með þeim hætti að skilyrðið um samþykki frá öðrum aðilum málsins taki jafnt til endurupptökubeiðna sem berast eftir að þrír mánuðir eru liðnir og þeirra beiðna sem berast eftir að eitt ár er liðið frá því að aðilum var tilkynnt um ákvörðun.
Þar sem ekki liggur fyrir samþykki A til endurupptöku málsins telur kærunefnd þegar af þeirri ástæðu að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku máls séu ekki fyrir hendi. Beiðni um endurupptöku málsins er því hafnað.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon