Hoppa yfir valmynd
18. september 1995 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 2/1995

A
gegn
Snæfellsbæ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála sem haldinn var 18. september 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 7. maí 1995 fór A, skrifstofumaður, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála, að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn bæjarstjórnar Snæfellsbæjar á ráðningarsamningi hennar sem bæjarritara Snæfellsbæjar og ráðning B í stöðuna bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991, einkum 2. og 4. lið 6. gr.

Með bréfi dags. 16. maí 1995 var erindið kynnt bæjarstjórn Snæfellsbæjar og jafnframt var óskað eftir:

  1. Afstöðu bæjarstjórnar Snæfellsbæjar til erindisins.

  2. Upplýsingum um ástæður uppsagnarinnar.

  3. Ástæðu þess að A var ekki boðið áframhaldandi starf sem bæjarritari.

  4. Upplýsingum um menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram A hann hafi til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.

  5. Upplýsingum um hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Snæfellsbæ.

Með bréfi dags. 4. júlí 1995 svaraði C hrl. erindi kærunefndar f.h. bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Svar hans var kynnt A sem sendi athugasemdir sínar við það með bréfi dags. 10. ágúst 1995.

Kærandi máls þessa, A, lýsir málavöxtum, svo að í maí 1994 hafi fjögur sveitarfélög á utanverðu Snæfellsnesi formlega sameinast í eitt sveitarfélag, Snæfellsbæ. Hún hafi þá gegnt starfi bæjarritara Ólafsvíkurkaupstaðar, sem var eitt þessara sveitarfélaga og eftir sameininguna hafi starfsheiti hennar orðið bæjarritari Snæfellsbæjar. Með bréfi dags. 31. október 1994 hafi ráðningarsamningi hennar verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara og henni tjáð að ástæður uppsagnarinnar væru skipulagsbreytingar í hinu nýja sveitarfélagi. Hinn 20. nóvember 1994 hafi staða bæjarritara verið auglýst laus til umsóknar og hún sótt um starfið. A fundi bæjarstjórnar 18. janúar 1995 hafi verið samþykkt að hafna öllum umsóknum og auglýsa starfið að nýju. A kveðst ekki hafa sótt um starfið þá þar sem þegar hafi verið búið að hafna henni. Í byrjun apríl hafi B verið ráðinn í starfið. Kærandi telur að engar skipulagsbreytingar hafi verið gerðar í reynd, sama starf og hún hafi gegnt hafi verið auglýst, en karlmaður ráðinn í það. Hann sé rekstrarfræðingur en hafi hvorki reynslu af skrifstofustörfum né sveitarstjórnarmálum. Hún telji sig hæfari til starfsins en sá sem ráðinn var og því finni hún enga aðra skýringu en þá að um mismunun vegna kynferðis hafi verið að ræða.

Í máli kæranda kemur fram að viku áður en uppsagnarfrestur hennar rann út hafi bæjarstjóri boðið henni stöðu þjónustufulltrúa á bæjarritaralaunum. Hún hafi hafnað því boði þar sem öðrum starfsmanni hafi þegar verið boðið starfið og staðan væri lægra metin skv. skipuriti en sú sem hún hafi áður gegnt hjá bænum. Þá kemur fram, að BSRB hafi fjallað um uppsögnina og hafi niðurstaða þess verið að uppsögnin bryti ekki í bága við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Í svari C hrl. kemur fram að óhjákvæmilegt hafi verið að segja upp verulegum fjölda starfsmanna við sameiningu sveitarfélaganna. Tveir starfsmenn hafi gegnt starfi bæjarritara, kærandi og bæjarritari í Neshreppi utan Ennis. Starf bæjarritara í hinu nýja sveitarfélagi yrði óhjákvæmilega umfangsmeira en áður var og því hafi verið ákveðið að segja báðum þessum starfsmönnum upp og auglýsa stöðuna. Með því væri báðum starfsmönnunum gert jafnhátt undir höfði og væri þá jafnframt hægt að kanna hvaða starfskraftar væru í boði. Þá segir í bréfi lögmannsins að ekki séu efni til að bera saman kæranda og þann sem starfið hlaut. Þegar starfið hafi verið auglýst í fyrra skiptið hafi kærandi sótt um en ekki sá sem seinna var ráðinn. Þá hafi verið ákveðið að leita til ráðningarstofu sem auglýsti stöðuna á nýjan leik, mæti umsækjendur og gerði tillögu um við hverja umsækjenda skyldi rætt. Í það skiptið hafi kærandi ekki sótt um stöðuna og þegar af þeirri ástæðu ekki komist í slíkt úrtak. Mat á milli konu og karls í skilningi 8. gr. laga nr. 28/1991 hafi því ekki komið til álita við ráðningu núverandi bæjarritara.

NIÐURSTAÐA

Eitt af meginmarkmiðum jafnréttislaga nr. 28/1991 er að tryggja konum jafnstöðu á við karla á vinnumarkaði. Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. laganna er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn er. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. gr. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir, sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein.

Eins og mál þetta er vaxið verður ekki séð að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin þegar ráðningarsamningi kæranda var sagt upp vegna skipulagsbreytinga í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna.

Þá verður það ekki talið brot á jafnréttislögum að hafna öllum umsækjendum um stöðu eins og átti sér stað þegar staða bæjarritara Snæfellsbæjar var auglýst í fyrra skiptið. Kærandi sótti ekki um stöðuna þegar hún var auglýst í síðara skiptið og var því ekki um neinn samanburð að ræða á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var að. Nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að staðreyna hvort um brot á jafnréttislögum sé að ræða við stöðuveitingu sem þessa er að kærandi sé meðal umsækjenda um starfið þannig að raunverulegur samanburður geti farið fram.

Með vísan til þessa er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf bæjarritara Snæfellsbæjar hafi jafnréttislög nr. 28/1991 ekki verið brotin gagnvart kæranda.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta