Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 7/1995

A
gegn
Eyrarsveit

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála, föstudaginn 16. ágúst 1996, var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 3. október 1995 fór A þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun sveitarstjóra Eyrarsveitar á umsókn hans um starf baðvarðar við íþróttahús grunnskóla Eyrarsveitar bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá sveitarstjórn Eyrarsveitar um:

  1. Afstöðu sveitarstjórnarinnar til erindisins.
  2. Ástæðu þess að umsókn kæranda var hafnað.
  3. Upplýsingum um hvernig staðið var að ráðningu í umrætt starf.

Greinargerð sveitarstjóra Eyrarsveitar, B, er dags. 12. desember 1995 og barst kærunefnd 10. janúar 1996. Með bréfi dags. 25. janúar 1996 sendi kærandi athugasemdir sínar við greinargerð sveitarstjóra til kærunefndar.

Starf baðvarðar við grunnskóla Eyrarsveitar var auglýst laust til umsóknar í ágúst 1995 og aftur í september sama ár. Í fyrri auglýsingunni var eingöngu óskað eftir starfsmanni við baðvörslu en í hinni síðari var tekið fram að starfið fælist í aðstoð við grunnskólabörn og þrifum á húsnæði. Jafnframt var tekið fram að unnt væri að skipta starfinu í tvö hálfsdagsstörf. Kærandi málsins, A sótti um starfið þegar það var auglýst í fyrra skiptið en umsókn hans var hafnað. Kærunefnd lítur svo á að enda þótt hann hafi ekki sótt um í síðara skiptið hafi umsókn hans enn verið í gildi.

Kærandi lýsir málavöxtum svo að umsækjendur hafi verið tveir, hann og 17 ára karlmaður og hafi hvorugur fengið starfið. Það hafi verið auglýst á ný og í það ráðin 22 ára kona. Hann hafi þó starfað í 2 1/2 ár sem barna- og unglingaþjálfari Ungmennafélags Grundarfjarðar og í tvo vetur við þjálfun barna í íþróttahúsi grunnskólans. Hafi hann því starfað og haft umsjón með rúmlega helming allra nemenda skólans. Engu að síður hafi umsókn hans um starf baðvarðar verið synjað. Sveitarstjóri Eyrarsveitar hafi sagt sér að hann kæmi ekki til greina, annars vegar þar sem baðvörður þyrfti að geta farið inn í búningsklefa bæði stúlkna og drengja og hins vegar þar sem þrif væru hluti starfsins. Ljóst sé að sveitarstjóri telji eðlilegt að kona geti farið inn til óklæddra barna, drengja og stúlkna, en ekki karlmaður. Þá telji hún konu betur fallna til þrifa en karl. Kærandi telur því að synjun sveitarstjóra á umsókn hans hafi byggst einvörðungu á kynferði hans. Tjón hans hafi verið mikið vegna þessarar ákvörðunar þar sem hann hafi verið atvinnulaus og ekki fengið vinnu fyrr en eftir sex vikur.

Í greinargerð sveitarstjóra Eyrarsveitar segir að sveitarstjóri, skólastjóri og húsvörður skólans hafi verið sammála um að hafna umsókn kæranda. Ástæðan hafi verið sú að hann hafi ekki notið þess trausts sem nauðsynlegt væri að vinnuveitandi bæri til starfsmanns. Kæmi þar fyrst til framkoma kæranda þegar hann var þjálfari á vegum UMFG seinni hluta sumars 1995. Hann hafi þá farið í leyfisleysi með börnin inn í íþróttahús Eyrarsveitar þegar eitthvað amaði að veðri og haldið því áfram þótt honum væri bent á að notkun hans á húsinu væri óheimil íþróttahúsið sé sambyggt sundlauginni og ekki í notkun yfir sumartímann. Ekki sé gert ráð fyrir að starfsmenn í sundlaug sinni þeim auknu verkefnum sem fylgi notkun íþróttahússins. Þá hafi starfsmenn sundlaugar kvartað yfir samskiptum við kæranda, m.a. hafi hann ekki hlítt fyrirmælum um umgengni. Telur sveitarstjóri kæranda með þessu hafa sýnt af sér hegðun sem ekki sé æskileg í starfinu. Baðvörður þurfi að vera áreiðanlegur og hafa ábyrgðartilfinningu en þá eiginleika telji hún kæranda skorta.

Í greinargerð sveitarstjóra kemur ennfremur fram að hinum umsækjandanum um starfið, sem var tæplega 17 ára karl, hafi verið boðið starf við baðvörslu. Vegna ungs aldurs hafi ekki þótt rétt að fela honum umsjá yngstu barnanna og því hafi honum einungis verið boðin hálf staða, sem hann ekki þáði. Þegar starfið hafi verið auglýst öðru sinni hafi þrítug kona verið ráðin en hún hafi hætt við og þá verið ráðin 22 ára kona, sem gegni starfinu nú. Sveitarstjóri vísar á bug þeirri staðhæfingu kæranda að þær ástæður hafi verið tilgreindar fyrir synjun á umsókn hans að starfsmaðurinn þyrfti að geta farið inn í búningsklefa beggja kynja og að þrif væru hluti starfsins. Sveitarstjóri upplýsir að tveir af þremur starfsmönnum við baðvörslu og þrif í íþróttahúsi á þessum tíma hafi verið karlar. Lögð hafi verið á það áhersla við kæranda að honum væri hafnað fyrst og fremst vegna þess að honum væri ekki treyst fyrir starfinu. Loks mótmælir sveitarstjóri því að kærandi hafi verið atvinnulaus í sex vikur vegna þess að hann fékk ekki starfið. Á Grundarfirði hafi atvinnuleysi að jafnaði varla mælst og fremur verið skortur á fólki til starfa.

Í svari kæranda við greinargerð sveitarstjóra, dags. 25. janúar 1996 mótmælir hann því að framkoma hans í fyrra starfi hafi verið með þeim hætti að honum væri ekki treystandi til að gegna því starfi sem um var sótt. Um notkun hans á íþróttahúsi grunnskólans hafi hann það að segja að um tíma s.l. sumar hafi verið mjög slæmt veður á Grundarfirði og ekki unnt að hafa börnin á þeim leikvelli sem þeim hafi verið úthlutað. Hafi hann snúið sér til sveitarskrifstofu og óskað eftir aðgangi að íþróttahúsinu, hann hafi fengið þau svör að það væri í lagi í þetta sinn en þess óskað að formaður UMFG semdi um frekari afnot hússins. Hann hafi rætt við formanninn um að ganga frá málinu. Hann hafi á næstu vikum nýtt húsnæðið stöku sinnum í þeirri trú að málið væri frágengið þar til dag nokkurn að honum var meinaður aðgangur að því þar sem hann hefði ekki heimild til notkunar hússins. Hafi hann kvartað við formann knattspyrnudeildar UMFG yfir meðferð málsins og ekki notað húsið eftir það. Þá staðhæfir hann að skipulag íþróttahússins sé með þeim hætti að notkun þess hafi ekki haft í för með sér aukna vinnu fyrir starfsmenn sundlaugar. Þar að auki hafi sundlaugargestir verið örfáir slíka óveðursdaga svo sem sjá megi í dagbók sundlaugarvarðar. Kærandi mótmælir því að umgengni hans um húsið hafi verið ábótavant og vísar um það til þriggja fyrrum baðvarða.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur sveitarstjóri Eyrarsveitar haldið því fram að kæranda skorti þá ábyrgðartilfinningu sem nauðsynleg sé í starfi baðvarðar og bent í því sambandi á notkun hans á íþróttarhúsi grunnskólans sem áður er getið. Kærandi hefur að mati kærunefndar gefið fullnægjandi skýringar á notkun sinni á húsinu. Þá hefur sveitarstjóri bent á að karlkyns umsækjanda hafi verið boðið hálft starf baðvarðar og því til stuðnings lagt fram yfirlýsingu frá honum. Tveir af þremur baðvörðum á þessum tíma hafi verið karlmenn og kynferði kæranda hafi engu um ráðið.

Í auglýsingum um starfið voru ekki gerðar neinar sérstakar hæfniskröfur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja verður að telja öll hæf til að gegna umræddu starfi hvað varðar menntun og starfsferil. Séu kynjahlutföll í sams konar stöfum hjá Eyrarsveit skoðuð kemur í ljós að þegar ráðið var í starfið voru 2 af 3 baðvörðum karlar. Þá liggur fyrir staðfesting á því að karli var boðið starfið. Niðurstaða kærunefndar er því sú að með ráðningu í starf baðvarðar við grunnskóla Eyrarsveitar hafi ekki verið brotið gegn lögum nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gagnvart kæranda.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta