Íslenskur talgreinir í loftið
„Þetta skref hér í dag er mikilvægur liður í máltækniáætluninni sem hefur það að markmiði að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá hvað allir sem koma að þessu eru stórhuga en það er einmitt það sem við þurfum á að halda núna,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Hlutverk okkar er að hlúa að íslenskunni og nýta til þess kraftinn og hugvitið sem vísindamenn okkar hafa. Gott samstarf milli stjórnvalda, grunnskóla, háskóla og atvinnulífs er forsenda þess að við náum árangri og þessi fundur hér í dag fyllir mig bjartsýni.“
Jón Guðnason, dósent við tækni- og verkfræðideild HR og forstöðumaður Gervigreindarseturs HR, útskýrið tilurð tækninnar og sögu verkefnisins og helstu samstarfsaðila. Inga Rún Helgadóttir, sérfræðingur við Mál- og raddtæknistofu HR, fjallaði um talgreiningu á Alþingi og Steinþór Steingrímsson, verkefnastjóri í máltækni við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum lýsti notkunarmöguleikum og tilurð nýrrar risamálheildar, sem er mjög mikilvæg grunnur fyrir alla máltækni, t.d. við gerð talgreina.