Hoppa yfir valmynd
26. maí 2023 Innviðaráðuneytið

Innviðaráðherra opnaði Skipulagsgátt á formlegan hátt

Frá formlegri opnun Skipulagsgáttarinnar - mynd

Skipulagsgátt var opnuð með formlegum hætti í gær þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, opnaði fyrir athugasemdir um umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir nýja Ölfusárbrú í Flóahreppi og klippti þar með á „rafrænan borða“ gáttarinnar. Sigurður Ingi sagði við tilefnið að Skipulagsgáttin markaði nýjan kafla í sögu skipulagsmála á Íslandi. „Nú er kominn fram vettvangur þar sem hægt er að nálgast öll mál sem eru í kynningu á einum stað á aðgengilegan hátt. Opnun skipulagsgáttarinnar er liður í stefnu stjórnvalda að stórefla stafræna þjónustu hins opinbera. Markmið með öflugri stafrænni stjórnsýslu er að einfalda málsmeðferð, bæta þjónustu við almenning og auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna. Þá er gáttin einnig mikilvægur áfangi í að mæta markmiðum stjórnarsáttmálans um að fyrir liggi greinargóðar rauntímaupplýsingar um stöðu skipulags- og byggingarmála á landinu öllu. “

Ráðherra minnti einnig á það hagræði sem Skipulagsgátt mun hafa í för með sér fyrir þá aðila sem koma að skipulagsgerð. „Það er mikilvægt að öll þau sem koma að skipulagsgerð taki þátt í þessari stafrænu vegferð og nýti sér alla möguleika sem þetta nýja verkfæri býður. Enn fremur gefur gáttin tækifæri til að endurhugsa og samþætta ferla og birtingu upplýsinga um skipulagsverkefni og er það í höndum notenda gáttarinnar að nýta þá möguleika sem bjóðast – og koma með tillögur og hugmyndir um nýja virkni.

Með skipulagsgáttinni er komið fram verkfæri til að styðja við þetta hlutverk á enn betri og skilvirkari hátt. Með því að bæta yfirsýn, auðvelda skipulag verkefna og samskipti og koma í veg fyrir tvíverknað og hraða ferlum. Til lengri tíma litið er talið að gáttin geti sparað umtalsverða fjármuni með vinnuhagræði hjá stjórnvöldum, sveitarfélögum og einkaaðilum. Ég reikna fastlega með að gáttin verði öðrum innblástur með tilliti til framsetningar efnis og áherslu á aðgengi notenda.“

Skipulagsgátt er landfræðileg gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á hönnun, uppsetningu og rekstri Skipulagsgáttar sem hefur verið í smíðum undanfarið ár og hefur nú verið opnuð með formlegum hætti. Við opnunina kom fram í mál Ólafs Árnasonar, setts forstjóra Skipulagsstofnunar, að með Skipulagsgáttinni sé tekið stórt skref í stafrænni þjónustu á sviði skipulagsmála, umhverfismats og framkvæmdaleyfisveitinga og ávinningurinn sé margþættur. Með Skipulagsgátt verður þessir ferlar aðgengilegri og skiljanlegri fyrir almenning og hagsmunaaðila. Öll mál sem eru í kynningu á landinu hverju sinni, frá upphafi hvers ferils til enda, eru nú aðgengileg einum stað. Einnig er auðveldara er að koma sjónarmiðum á framfæri í gegnum Skipulagsgátt og með áskriftar og vöktunarmöguleikum er jafnframt auðveldara að hafa yfirsýn yfir þau mál sem eru í gangi hverju sinni - eftir málaflokkum eða svæðum sem hentar þörfum hvers og eins. Að síðustu hefur einnig verið lögð áherslu á að Skipulagsgátt verði til að auka hagræði við utanumhald mála hjá sveitarfélögunum og við munum halda áfram að vinna að því verkefni í samvinnu við sveitarfélögin í landinu.

Skipulagsgátt hefur verið opin með óformlegum hætti frá 1. maí. Frá 1. júní næstkomandi munu öll mál sem varða skipulagsáætlanir, umhverfismat og útgáfu framkvæmdaleyfa verða birt þar. Skipulagsstofnun hefur haldið kynningarfundi, vinnustofur og námskeið fyrir skipulagsfulltrúa og aðra áhugasama aðila um Skipulagsgátt á undanförnum vikum ásamt því að gefa út leiðbeiningar um notkun gáttarinnar, fyrir bæði fagfólk og almenning. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta