Hoppa yfir valmynd
29. október 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 181/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 181/2019

Þriðjudaginn 29. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir. Með bréfi, dags. 2. október 2019, óskaði B lögmaður, f.h. A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 181/2019 þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. febrúar 2019 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi tvisvar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2018, annars vegar með umsókn, dags. X 2018, og hins vegar með umsókn, dags. X 2018. Báðum umsóknum var synjað með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 13. og 30. ágúst 2018, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun með umsókn, dags. X 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 28. febrúar 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. maí 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 21. ágúst 2019. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

II.  Sjónarmið kæranda

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 181/2019.

Í beiðni um endurupptöku segir meðal annars að forsendur úrskurðarins séu á þá leið að engin starfsendurhæfing hafi verið reynd í tilviki kæranda og að ekki verði ráðið af gögnum málsins að veikindi hans séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda verið synjað og það hafi verið mat úrskurðarnefndarinnar að rétt væri að láta reyna á starfsendurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kæmi.

Kærandi telji að forsendur úrskurðarins séu ekki réttar. Samkvæmt göngudeildarnótu, sem fylgi beiðni, hafi kærandi látið reyna á starfsendurhæfingu hjá C sem hafi synjað honum um endurhæfingu þann X 2019. Af einhverjum orsökum hafi göngudeildarnótan ekki verið meðal gagna umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur og þá hafi ekki verið litið til þessa gagns við meðferð málsins hjá kærunefndinni.

Í framangreindri göngudeildarnótu komi fram að kærandi geti ekki nýtt sér endurhæfingu á C aðallega “vegna [...]“.

Með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé þess óskað að úrskurðarnefndin endurupptaki málið þar sem ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr.  stjórnsýslulaga. Einnig sé ljóst að atvik málsins hafi breyst frá kærðri ákvörðun þann 28. febrúar 2019 en göngudeildarnóta C sé dagsett X 2019 og því ljóst að kærandi hafi reynt að komast í endurhæfingu. Þá séu sérstaklega ítrekuð þau rök sem komi fram í mati D, læknis hjá VIRK, dags. X 2018, að starfsendurhæfing kæranda sé óraunhæf með eftirfarandi rökstuðningi:

Kærandi telur sig ekki færan til starfsendurhæfingar og hefur stundað töluverða endurhæfingu á eigin vegum án árangurs við einkennum sem engin greining hefur fengist við en hann vill amk annað álit gignarlæknis og telst starfsendurhæfing óraunhæf“.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að starfsendurhæfing sé með öllu óraunhæf í tilviki kæranda. Þá hafi hann einnig reynt endurhæfingu á eigin vegum en án árangurs, auk þess sem honum hafi verið synjað í X 2019 um endurhæfingu sem ekki hafi verið tekið tillit til við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni. Af þeim sökum sé farið fram á endurupptöku á úrskurðinum með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. ágúst 2019. Með úrskurðinum var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur staðfest. Af beiðni um endurupptöku má ráða að þess sé óskað að fallist verði á að fram fari mat á örorku kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að eftir að kærð ákvörðun hafi verið tekin hafi C synjað kæranda um endurhæfingu þann X 2019. Í göngudeildarnótu segir meðal annars:

„Að mati undirritaðrar getur [kærandi] ekki nýtt sér þverfaglega endurhæfingu hér á C vegna […] og skorts á motivation og innsæi. Prógramið hér byggir að miklu leiti á fræðslu og hópmeðferð [...]. Beiðni er því úreld og óskað er eftir nýrri beiðni ef indicatio er fyrir þverfaglegri endurhæfingu í því formi sem C bíður upp á.“

Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Engar nýjar sjúkdómsgreiningar koma fram í framangreindri göngudeildarnótu. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að göngudeildarnótan er dagsett X mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun var tekin.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 319/2018 synjað.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að telji hann að þau læknisfræðilegu gögn, sem liggja fyrir í málinu, gefi ekki rétta mynd af möguleikum hans til endurhæfingar þá geti hann sótt um örorkulífeyri á ný hjá Tryggingastofnun með framlagningu nýrrar umsóknar og ítarlegri læknisfræðilegra gagna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 181/2019 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta