Hoppa yfir valmynd
14. september 2011 Innviðaráðuneytið

Mikilvægt skref að íbúar geti krafist atkvæðagreiðslu

Beint lýðræði og aukin þátttaka íbúa er heiti ráðstefnu á vegum innanríkisráðuneytisins sem nú stendur í Ráðhúsinu í Reykjavík. Upphafserindi ráðstefnunnar flutti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Jón Gnarr borgarstjóri fluttu ávörp við setningu hennar.

Power to the people söng Léttsveit Reykjavíkur undir stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur m.a. við upphaf ráðstefnunnar.
Power to the people söng Léttsveit Reykjavíkur undir stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur m.a. við upphaf ráðstefnunnar.

Innanríkisráðherra gerði frumvarp til sveitarstjórnarlaga að umræðuefni í ræðu sinni. Fagnaði hann því ákvæði frumvarpsins að fimmtungur íbúa sveitarfélags geti krafist almennrar atkvæðagreiðslu um mál. ,,Það er gleðilegt að nú skuli slíkur réttur í fyrsta sinn í þann veginn að verða leiddur í lög á Íslandi. Samkvæmt frumvarpi nýrra sveitarstjórnarlaga nægir að fimmtungur íbúa í sveitarfélagi krefjist almennrar atkvæðagreiðslu, þá skal hún fara fram. Lýðræðisfélagið Aldan hefur vakið athygli á því að ganga hefði mátt lengra í þessari lagasmíð og hef ég skilning á því sjónarmiði – en enginn neitar því þó að þarna er verið að stíga mjög mikilvægt skref í lýðræðisátt. Sambærilegt ákvæði við það sem er að finna í nýjum sveitarstjórnarlögum þarf að komast inn í landslögin og inn í Stjórnarskrá lýðveldisins,” sagði ráðherra meðal annars.

Ögmundur Jónasson innanríksráðherra flytur erindi sitt.









Jón Gnarr borgarstjóri, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, sem stýrði ráðstefnunni, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Þá voru flutt nokkur erindi um þróun íbúalýðræðis og reynslu af því, innlenda sem erlenda. Íslenskir ræðumenn eru Regína Ásvaldsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Gunnar Grímsson og Íris Ellenberger. Þá flutti Svisslendingurinn Bruno Kaufmann erindi um beint fulltrúalýðræði og aukið mikilvægi þess í Sviss. Síðdegis taka umræðuhópar til umræðu spurningar um hvort og hvernig koma megi á beinu og auknu lýðræði.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Ögmundur Jónasson skoða sýningu sem opnuð var um nútímalegt beint lýðræði í Sviss og á Íslandi.Einnig var opnuð spjaldasýning um nútímalegt beint lýðræði í Sviss og á Íslandi, þróun þess og aukna þátttöku íbúa í löndunum. Sýningin er farandsýning og geta sveitarfélög óskað eftir að fá hana til sín næstu vikur.




Efni sett á vefinn og táknmálstúlkun kl. 16.15 til 17

Erindi ræðumanna og glærusýningar með fyrirlestrum þeirra verða sett á vef innanríkisráðuneytis að lokinni ráðstefnu. Þá verður boðið uppá táknmálstúlkun á síðasta hluta ráðstefnunnar milli kl. 16.15 og 17 en þá mun Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands draga saman helstu niðurstöður dagsins og Ögmundur Jónasson flytja lokaorð.











Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta