Hoppa yfir valmynd
14. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fullgilding Íslands á bókun ILO um afnám nauðungarvinnu

Þorsteinn Víglundsson og Guy Ryder - myndVelferðarráðuneytið

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti í dag Guy Ryder, forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) fullgildingu íslenskra stjórnvalda á bókun við samþykkt stofnunarinnar um afnám nauðungarvinnu.

Þorsteinn afhenti Ryder bókunina á fundi þeirra í morgun sem haldinn var í tengslum við 106. þing ILO sem nú stendur yfir í Genf.

Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti á 103. þingi sínu árið 2014 umrædda bókun við alþjóðasamþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 1958. Bókunin hefur um skeið verið til umfjöllunar í samráðsnefnd velferðarráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Samráðsnefndin lauk umfjöllun sinni um málið á liðnu ári og samþykkti fyrir sitt leyti að mæla með því að íslensk stjórnvöld fullgiltu umrædda bókun sem félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti framkvæmdastjóra IlO í dag.

Kjarni bókunarinnar kemur fram í fyrstu þremur greinum hennar. Þar er meðal annars kveðið á um skyldu aðildarríkis að grípa til virkra ráðstafana til að koma í veg fyrir nauðungarvinnu eða skylduvinnu. Einnig ber að veita fórnarlömbum vernd og aðgang að viðeigandi og skilvirkum úrræðum svo sem bótum. Þá skal samkvæmt bókuninni leiða í lög að þeir sem standa fyrir nauðungarvinnu eða skylduvinnu sæti viðurlögum.

Í bókuninni er enn fremur kveðið á um skyldu aðildarríkis til að móta stefnu og áætlun á landsvísu um markvisst afnám nauðungarvinnu eða skylduvinnu í samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks. Stefnan skal felast í kerfisbundnum aðgerðum af hálfu lögbærra stjórnvalda og í samvinnu við samtök atvinnurekenda, launafólks og annarra hópa sem málið varðar eftir því sem það á við.

Gildissvið samþykktarinnar nr. 29 er áréttað í bókuninni en jafnframt tekið fram að ráðstafanir sem grípa skal til skulu einnig fela í sér sérstakar aðgerðir gegn mansali í tengslum við nauðungarvinnu eða skylduvinnu.

Frá fundinum með Guy Ryder

Auk Þorsteins Víglundssonar og Guy Ryder eru á myndinni Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri, Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, Högni Kristjánsson fastafulltrúi Íslands hjá EFTA og Sameinuðu þjóðunum í Genf, Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins, Magnús Norðdahl frá ASÍ, Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmaður ráðherra og Gylfi Kristinsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta