Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sjónarhóll – ráðgjafarmiðstöð

Góðir gestir, heiðruðu gestgjafar.

Það er mér sérstök ánægja að vera hér með ykkur í dag og fagna því að Sjónarhóll, ráðgjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir, er tekinn til starfa. Að vísu má kannski segja að það geti tæpast verið nema einn gestgjafi á Sjónarhóli, en nánar að því síðar.

Það hefur tekist ótrúlega vel að koma þessari miðstöð á laggirnar. Fáir hefðu trúað því fyrir rúmu ári að við ættum eftir að standa hér í þessum glæsilegu húsakynnum og fagna þeim áfanga sem nú er náð. Hér er ljóslifandi sönnun þess hversu miklu við Íslendingar getum áorkað ef við tökum höndum saman.

Hér hafa fjölmargir komið að. Stjórnvöld og fyrirtæki hafa gerst bakhjarlar og tryggja rekstur starfseminnar næstu þrjú ár. En hæst ber stórkostlegt framlag þjóðarinnar í landssöfnuninni sem fram fór fyrir réttu ári. Það má því segja að allir Íslendingar hafi lagst á eitt við að gera drauminn að veruleika.

Stofnun Sjónarhóls byggir á skoðun þeirra sem helgað hafa þörfum sérstakra barna krafta sína, um að knýjandi þörf væri á ráðgjafarþjónustu fyrir foreldra og fjölskyldur þessara barna. Með Sjónarhóli er lagt lóð á þær vogarskálar. Einnig mun hann styrkja samstarf þeirra sem veita eiga sérstökum börnum ýmisskonar þjónustu og stuðla að miðlun upplýsinga  og þekkingar frá foreldri til foreldris.

Auk þessa mun ráðgjafarmiðstöðin skipuleggja námskeið og starf stuðningshópa fyrir foreldra, börn, unglinga og uppkomin börn.    

Öflugt samstarf er nauðsynlegt til að tryggja að þjónustuúrræði, hvort sem þau eru starfrækt á vegum ríkis, sveitarfélaga eða hagsmunasamtaka, séu nýtt með samræmdum hætti, þannig að foreldrar og aðstandendur sérstakra barna eigi auðveldara með að fóta sig í krefjandi hlutverki.

Með þessi leiðarljós hafa ADHD-samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra  og Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum, sameinað krafta sína á Sjónarhóli.

Góðir gestir.

Það sést víða af Sjónarhóli og leiðin að honum er greið. Það vill þannig til að eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég tók við starfi félagsmálaráðherra í fyrravor, var að segja nokkur orð við hóp fólks sem var samankominn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal, einmitt til að kynna þá hugsjón sem á því brann, þ.e. að koma á fót sameiginlegri þjónustumiðstöð sérstakra barna.

Ég dáðist að því fólki þá og ekki síður nú. Það að við erum hér við þessar aðstæður, er sönnun þess að vilji er víst allt sem þarf. Með viljann að vopni og þá gæfu að hafa í ykkar röðum einstakt hugsjónafólk, sem lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna, hefur þessi magnaði árangur náðst. 

Ég minntist á það áðan að í mínum huga væri aðeins einn húsráðandi á Sjónarhóli. Húsráðandi sem ég kynntist sem krakki og á enn í mér hvert bein, Lína nokkur langsokkur. Hvort sem hún ræður hér raunverulega ríkjum eður ei finnst mér við hæfi að rifja upp orð hennar úr einni bóka Astrid Lindgren, sérstaklega ef eitthvert ykkar ætti eftir að rekast á hana hér með apann sinn og hestinn.

Lína spurði gírugan herramann sem vildi hafa af henni Sjónarhól hvort hann vissi að hvaða leyti hesturinn hennar og apinn Níels væru ólíkir. Nei það vissi hann ekki.

„Það liggur heldur ekki í augum uppi“ sagði Lína. „En ég skal gefa þér dálitla vísbendingu. Ef þú sæir þá báða standa undir tré og síðan klifraði annar þeirra upp í það, þá væri það ekki hesturinn.“ Megið þið njóta Sjónarhóls um ókomin ár eins og við höfum notið Línu.

Það er von mín og trú að það starf sem hér mun fara fram reynist foreldrum og fjölskyldum sérstakra barna farsæll stuðningur og hvatning á vegferð sinni til aukinna lífsgæða. Ég óska okkur öllum innilega hamingju.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta