Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. apríl 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 58/2014.

  1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 5. febrúar 2014, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 26. júní til 19. desember 2011 sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin næmi 88.746 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 13.312 kr. eða samtals 102.058 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. maí 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 9. mars 2011 og fékk greiddar bætur til 30. apríl 2012.

Kærandi fékk greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins 20. júní til 19. desember 2011. Hann skilaði ekki inn tekjuáætlun vegna lífeyrisgreiðslnanna sem varð til þess að ekki var tekið tillit til þeirra við útreikning atvinnuleysisbóta til kæranda þannig að hann fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á framangreindu tímabili. Af þessum sökum kom til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. september 2011, var honum gerð grein fyrir því að við samkeyrslu stofnunarinnar og ríkisskattstjóra hafi virst sem hann hafi haft tekjur í júní 2011 að fjárhæð 8.775 kr. án þess að gera grein fyrir þeim á sama tíma og hann hafi þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Í greiðsluseðli sem sendur var kæranda frá Vinnumálastofnun 1. febrúar 2012 kemur fram að skuld hans við Greiðslustofu á bótatímabilinu næmi 146.216 kr. og að ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að endurgreiða með 15% álagi. Fella skuli niður álagið verði sýnt fram á að bótaþega verði ekki kennt um annmarka þá er leitt hafi til skuldamyndunar. Innheimtubréfið var síðan sent kæranda 5. febrúar 2014, en þar kemur fram að skuld kæranda nemi 88.746 kr. og að viðbættu 15% álagi 13.312 kr. næmi skuldin 102.058 kr. Kærandi óskaði endurupptöku málsins en var synjað um það með bréfi dags. 6. mars 2014 með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi krefst þess í kæru að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði ógilt. Hann krefst þess að fá rétt til þess að andmæla ákvörðuninni með því að honum séu veittar umbeðnar upplýsingar um forsendur, þ.e. hverju hann þurfi að andmæla og að erindi hans frá 12. febrúar 2014 verði svarað efnislega eða rökstutt hvers vegna það sé ekki gert. Það erindi kæranda hafi verið viðbrögð við innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2014, þar sem honum hafi verið gefinn 14 daga frestur til að svara. Svar hans við því hafi verið ósk um upplýsingar og forsendur jafnframt því sem hann hafi reynt að leggja til svör við því sem hann hafi orðið að geta sér til um án þess að geta séð hvernig það hafi leitt til innheimtunnar. Í innheimtubréfinu, dags. 5. febrúar 2014, komi fram að hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum tímabilið 20. júní 2011 til 19. desember 2011 og að sú staða hafi skapað umrædda skuld. Kærandi spyr hvers vegna hann hafi ekki átt rétt á þessu tímabili og hvort honum hafi verið tilkynnt um það. Hann spyr einnig hvernig hann eigi að geta varist kröfu ef hann fái ekki að vita hvers vegna hann hafi ekki talist eiga rétt til bóta umrætt tímabil og hvernig skuldin hafi orðið til, þ.e. um hvaða tekjur hafi verið að ræða sem hann hafi ekki gert grein fyrir. Um sé að ræða grundvallar atriði um réttindi borgaranna og málsmeðferð stjórnsýslustofnana og án þess að honum sé svarað þessu sé fráleitt að halda kröfunni um innheimtu til streitu.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. júlí 2014, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem leitt hafi til skuldamyndunar. Kærandi hafi fengið greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga án þess að tekjuáætlun lægi fyrir. Með tilliti til rauntekna kæranda úr launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra fyrir tímabilið 20. júní til 19. desember 2011 hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hafi þar af leiðandi verið skertar afturvirkt. Meginregluna um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé að finna í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta.

Skerðing vegna tekna sé svo framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda.

Í máli þessu hafi verið staðið að skerðingu með framangreindum hætti. Kæranda beri því að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt þessu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 22. ágúst 2014. Athugasemdir bárust frá kæranda 28. ágúst 2014. Þar kemur fram að svar Vinnumálastofnunar svari vart efni kvörtunar hans, sem sé að kjarna til um að honum hafi aldrei verið gerð grein fyrir því á hvaða forsendum skuld hefði talist myndast. Því hafi aldrei verið svarað þó að hann spyrði né það tilgreint í bréfum, gögnum eða erindum frá Vinnumálastofnun. Né hafi hann verið spurður um annað varðandi tekjur ársins 2011 en rúmar 8.000 kr. af orlofsuppbót, sem hann hafi reynst eiga frá fyrra ári. Ekki fyrr en nú hafi verið tilgreint tilefni eða ástæða fyrir reiknaðri eða meintri skuld kæranda og því aldrei verið unnt að svara eða bregðast við með beinum hætti. Enn séu engar upplýsingar sem hann kunni að lesa úr sem geri honum kleift að sannprófa útreikninga.

Hvergi hafi fyrr verið minnst á Tryggingastofnun og tekjur þaðan vegna ársins 2011 þótt hann hafi ítrekað óskað þess að hann fengi að vita hvernig skuldin hafi átt að myndast þetta tilgreinda tímabil sem innheimtubréfið, dags. 5. febrúar 2014, greini frá.

Úrskurðarnefndin aflaði frekari gagna hjá Vinnumálastofnun varðandi útreikning skuldar kæranda og voru honum send þau gögn 27. mars 2015 og veittur frestur til 10. apríl 2015 til þess að tjá sig um þau, óskaði hann þess. Kærandi sendi frekari gögn í kjölfarið og lýsti afstöðu sinni. Hann kvaðst hafa upplýst Vinnumálastofnun tímanlega um tekjur sínar árið 2011 og að þær væru einungis frá stofnuninni og örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann hafi enn fremur margóskað leiðsagnar og hjálpar frá bæði Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun til þess að ekki kæmi til víxlhækkana frá þessum stofnunum.

  1. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins 20. júní til 19. desember 2011 að fjárhæð 88.746 kr. auk 15% álags að fjárhæð 13.312 kr. eða samtals að fjárhæð 102.058 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hann fékk á umræddu tímabili greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Tekjuáætlun vegna lífeyrisgreiðslnanna lá ekki fyrir á umræddu tímabili.

Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna. Skerðingin er framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki er dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann á rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nær umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndar skerðingu atvinnuleitanda. Tekjur kæranda voru framkvæmdar með framangreindum hætti og ber honum því að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða umrædda skuld að fjárhæð 88.746 kr. að viðbættu 15% álagi 13.312 kr. eða samtals 102.058 kr.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 5. febrúar 2014, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni skuld að fjárhæð 88.746 kr. að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 13.312 kr. eða samtals 102.058 kr., er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta