Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 54/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. apríl 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 54/2014.

  1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. apríl 2014, var kæranda, A, tilkynnt að vegna ótilkynntra tekna frá Tryggingastofnun ríkisins og Gildi lífeyrissjóði væri bótaréttur hans felldur niður frá og með 9. apríl 2014 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 16. maí 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 20. nóvember 2013.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 12. mars 2014, að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóða í desember 2013, samtals að fjárhæð 244.473 kr. Í kjölfarið barst stofnuninni frá kæranda útfyllt eyðublað með tilkynningu um tekjur, yfirlit yfir greiðsluþega frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins.

Málið var tekið fyrir hjá Vinnumálastofnun 9. apríl 2014 og tekin sú ákvörðun að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði endurupptöku málsins 14. apríl 2014 og þann 12. maí 2014 óskaði kærandi eftir rökstuðningi. Á fundi Vinnumálastofnunar 13. maí 2014 var málið tekið fyrir á ný skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var fyrri ákvörðun staðfest. Rökstuðningur var sendur kæranda 22. maí 2014.

Í kæru kæranda kemur fram að fulltrúi hafi aðstoðað hann við að fylla út umsókn um atvinnuleysisbætur og hafi hann ekki orðið var við það hjá fulltrúanum að beðið væri um að fylla út tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Hann hafi síðan farið á starfsleitarfund og þar hafi hann fengið að vita að hann þyrfti að tilkynna allt og í framhaldinu hafi hann hringt til Vinnumálastofnunar og talað þar við karlmann sem hafi sagt að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu þar sem þau myndu sjá um þetta. Kærandi hafi þ.a.l. ekki haft frekari áhyggjur af þessu. Hann hafi síðan brugðið skjótt við þegar hann hafi fengið samkeyrslubréfið, en það hafi verið eins og spark í andlitið að fá bréfið um biðtímann þar sem hann hafi staðið í þeirri meiningu að þetta væri í lagi eftir þau svör sem hann hafi áður fengið. Kærandi óskar endurskoðunar málsins.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. júní 2014, kemur fram að ákvörðun um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á þeim sem fái atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun hvíli rík skylda til þess að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans.

Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 37/2009 segi m.a. að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.

Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tekjur til stofnunarinnar. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum starfsleitarfundum stofnunarinnar.

Atvinnuleitendum beri skylda að tilkynna til Vinnumálastofnunar um þær tekjur sem þeir fái á meðan þeir þiggi atvinnuleysisbætur. Þeirri upplýsingaskyldu hafi kærandi ekki sinnt fyrr en eftir að stofnunin hafi við hefðbundið eftirlit sitt fengið upplýsingar um greiðslur frá lífeyrissjóði kæranda og Tryggingastofnun ríkisins. Á starfsleitarfundum Vinnumálastofnunar komi fram að tilkynna þurfi um allar tekjur til stofnunarinnar. Þá sé einnig fjallað um tilkynningarskyldu atvinnuleitanda á heimasíðu stofnunarinnar og á prentuðum upplýsingabæklingum stofnunarinnar.

Kæranda hafi átt að vera það fullljóst að honum hafi borið skylda til að tilkynna um allar tekjur til Vinnumálastofnunar. Þær upplýsingar sem kærandi segist hafa fengið frá fulltrúa Vinnumálastofnunar eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. Vinnumálastofnun fallist þar að auki ekki á að fulltrúi stofnunarinnar hafi gefið kæranda upplýsingar sem hafi stangast á við lög, verklag, kynningarefni og leiðbeiningar á heimasíðu stofnunarinnar. Þá verði ekki séð af samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun að hann hafi gert tilraun til að tilkynna um tekjur til stofnunarinnar eftir að hann hafi sótt starfsleitarfund.

Fram kemur að það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er haft hafi bein áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Þar sem kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem hvíli á honum beri Vinnumálastofnun að beita viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. júlí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 18. júlí 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

  1. Niðurstaða

Í máli þessi liggur fyrir að kærandi sem þáði greiðslur atvinnuleysisbóta tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um tekjur sem hann hafði frá Tryggingastofnun ríkisins og Gildi lífeyrissjóði fyrr en eftir samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

Þar sem kærandi lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisgreiðslur er það mat úrskurðarnefndarinnar að háttsemi hans falli undir framangreint ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um tilkynningarskyldu á breytingu á högum sem hefur áhrif á rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 9. apríl 2014 þess efnis að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði frá og með 9. apríl 2014 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta