Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 68/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. apríl var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 68/2014.

  1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. júlí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 15. júlí 2014 tekið þá ákvörðun að kæranda yrði gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta í samræmi við 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þar sem hún hafði ekki tilkynnt stofnuninni um dvöl sína erlendis. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. júlí 2014. Kærandi óskar þess, í ljósi aðstæðna sinna, að ákvörðun um tveggja mánaða niðurfellingu bóta verði endurskoðuð og biðtími felldur niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta eigi hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 31. maí 2013. Í júní 2014 barst Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði verið erlendis þann mánuð. Með bréfi, dags. 3. júlí 2014, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði upplýsingar um að hún hefði verið stödd erlendis á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Var kæranda gefinn 7 daga frestur til að skila inn skýringum vegna þessa en tekið var fram í bréfinu að samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta að viðkomandi væri staddur hér á landi. Jafnframt var vakin athygli á því að kærandi gæti þurft að sæta viðurlögum samkvæmt 59. gr. og 60. gr. laganna ef hún hefði látið hjá líða að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um för sína áður en hún fór út. Skýringarbréf kæranda barst 9. júlí 2014 þar sem hún kvaðst hafa farið til B í boði fyrrverandi tengdamóður sinnar meðan á sumarfríi B barnsföður hennar stóð í þeim tilgangi að hann gæti eytt tíma með barni sínu. Kvaðst hún ekki geta séð hvernig þetta hefði áhrif á það hvort hún þæði atvinnuleysisbætur eður ei þar sem hún hafi verið nettengd allan tímann og átti engin atvinnuviðtöl bókuð meðan á dvöl hennar stóð. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun eftir farseðlum kæranda til að sjá hvenær hún var stödd erlendis og átti þar af leiðandi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta. Þann 10. júlí 2014 bárust umbeðnir farseðlar og samkvæmt þeim var kærandi erlendis tímabilið 6. til 25. júní 2014.

Í kæru kemur fram að kærandi fari fram á endurskoðun á tveggja mánaða biðtíma sem hún þurfti að sæta. Rökstuðningur hennar sé sá að tilefni dvalarinnar erlendis hafi verið þess eðlis að sonur hennar hafi umgengnisrétt við föður sinn sem sé búsettur erlendis með B ríkisborgararétt. Kærandi líti svo á að sér sem forráðamanni barnsins beri að virða og framfylgja þessum rétti barnsföður síns. Það hafi verið eini tilgangur ferðarinnar. Flugmiði og dvalarkostnaður hafi verið greiddur að öllu leyti af fyrrum tengdafjölskyldu hennar og sé greiðsluseðill þess efnis hjá Vinnumálastofnun. Með tilliti til aðstæðna, þ.e. að hún sé einstæð móðir með engar aðrar tekjur að svo stöddu en þær bætur sem hún þiggi frá Vinnumálastofnun, fari hún fram á endurskoðun á úrskurði Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. ágúst 2014, segir að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum samkvæmt 59. gr. laganna.“

Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða.

Ljóst sé að kærandi hafi verið stödd erlendis tímabilið 6. til 25. júní 2014. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um atvinnuleysisbætur að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í skýringarbréfi til stofnunarinnar segi að kærandi hafi farið til Hollands í þeim tilgangi að leyfa barnsföður sínum, sem hafi verið í sumarfríi á þeim tíma, að eyða tíma með barni þeirra.

Á kynningarfundum Vinnumálastofnunar sé vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysistrygginga. Þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Þá sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi. Samkvæmt því hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 92.846 króna, án álags, fyrir tímabilið 6. til 25. júní 2014 sem verði innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

  1. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, 3. gr. laga nr. 153/2010 og 14. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi. Fyrir liggur að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu frá 6. júní til 25. júní 2014, en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrirfram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrirfram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust en í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér. Ekki verður fallist á að það sem kærandi hefur fært fram sér til málsbóta, þ.e. að tilgangur ferðar hennar hafi verið að virða umgengnisrétt barnsföður síns við barn þeirra. Tilkynning um utanlandsferð getur verið í formi símtals eða tölvupósts til Vinnumálastofnunar. Sú skylda þess sem þiggur atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrirfram um utanlandsferð er fortakslaus.

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. júlí 2014 í máli A um að fella niður bótarétt hennar frá og með 15. júlí 2014 í tvo mánuði er staðfest. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur hjá kæranda vegna sama tímabils er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta