Betri og réttlátari stuðningur við námsmenn: frumvarp um Menntasjóð námsmanna
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti í gær á Alþingi fyrir frumvarpi um Menntasjóð námsmanna sem mun koma í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningskerfi ríkisins við námsmenn, þar sem lánþegar fá 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns ef þeir ljúka námi innan ákveðins tíma og námsmenn með börn á framfæri beinan stuðning í stað lána áður. Hvoru tveggja verður undanþegið lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skuldastaða námsmanna við námslok verður betri, endurgreiðslutíminn skemmri og námsmenn velja sjálfir við námslok hvort námslán séu verðtryggð eða óverðtryggð. Samhliða falla ábyrgðir ábyrgðarmanna á eldri námslánum falla niður, ef lánin er í skilum og lántaki ekki á vanskilaskrá.
„Menntasjóður námsmanna boðar nýja tíma. Nýja kerfið er sanngjarnara, gagnsærra og réttlátara. Það mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og skuldastaða að námi loknu mun síður ráðast af fjölskylduaðstæðum. Þá er í innbyggður í kerfið hvati til bættrar námsframvindu, sem stuðlar að betri nýtingu fjármuna og aukinni skilvirkni. Þjóðhagslegur ávinningur þess er metinn yfir milljarð kr. á ári,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í núverandi stuðningskerfi við námsmenn er námsstyrk ríkisins misskipt milli lánþega, þar sem stærstur hluti hans fer til námsmanna sem taka hæstu námslánin og fara seint í nám. Þau sem hefja nám ung og taka hóflegri námslán eru líklegri til að greiða þau til baka að fullu og hafa því ekki fengið sama styrk frá ríkinu. Lánþegar hafa í núverandi kerfi litla sem enga yfirsýn yfir hversu háan styrk þau hljóta frá ríkinu.
Frumvarpið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til námsmanna sem taka námslán, með félagslegum stuðningssjóði. Sérstaklega er hugað að hópum sem reynst hefur erfiðara að sækja nám s.s. einstæðum foreldrum, fjölskyldufólki og námsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins.
Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem lengi hefur staðið yfir.
Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þessi:
- Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum, að loknu námi.
- Beinn stuðningur er veittur vegna framfærslu barna lánþega í stað lána, einnig fyrir meðlagsgreiðendur. Ísland verður eitt Norðurlanda sem veitir lánþegum styrki vegna meðlagsgreiðslna.
- Ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum, teknum í tíð eldri laga, falla niður við gildistöku nýrra laga sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Ábyrgðir ábyrgðarmanns falla niður við andlát hans sé lánþegi í skilum við sjóðina.
- Heimild verður til að greiða námslán út mánaðarlega.
- Lánþegi getur valið við námslok hvort hann endurgreiðir námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi.
- Meginreglan verður að námslán skulu greidd með mánaðarlegum afborgunum og að fullu endurgreidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Lánþegi getur valið að endurgreiða námslán með tekjutengdum afborgunum séu námslok hans áður eða á því ári er hann nær 35 ára aldri.
- Námsaðstoð ríkisins (námslán, styrkur vegna framfærslu barna, niðurfelling og ívilnanir) verður undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
- Skýrari heimild til námslána vegna starfs- og viðbótarnáms á framhaldsskólastigi.
- Heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum og starfandi á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun að uppfylltum skilyrðum.
- Gert er ráð fyrir að afborganir námslána ásamt álagi standi að fullu undir lánveitingum sem Menntasjóðurinn veitir.
Fjármögnun nýs stuðningskerfis er tryggð með framlagi úr ríkissjóði og handbæru fé Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Nánari upplýsingar um framvindu málsins má finna á vef Alþingis.