Hreinlætisaðstaða í Namayingo héraði tekur stakkaskiptum
Efnt var á dögunum til viðburðar í Namayingo héraði í Úganda af hálfu íslenska sendiráðins og héraðsstjórnarinnar þar sem fulltrúar sendiráðsins afhentu héraðinu formlega sextán mannvirki sem öll tengjast bættri hreinlætisaðstöðu. Samkvæmt áætlun um byggðaþróun í héraðinu hefur Ísland lagt áherslu á að koma á kynskiptum salernum og hreinlætisaðstöðu í héraðinu, ekki síst skólum. Mikil ánægja ríkir í héraðinu með stuðning Íslands eins og kom fram í viðburðinum sem var fjölsóttur af almenningi, fulltrúum héraðsstjórnarinnar og starfsfólki og nemendum skóla.
Á undanförnum misserum hefur samstarfið við héraðsyfirvöld í Namayingo einkum beinst að þremur hreppum við strendur Viktoríuvatns. Lögð er áhersla á að veita aðgang að hreinu vatni, bættri salernisaðstöðu og stuðla að góðu hreinlæti. Meðal þeirra mannvirkja sem afhent var ný hreinlætisaðstaða við þrjá grunnskóla og eina fæðingardeild við heilsugæslustöð í Banda-hreppi. Samningurinn við héraðið um byggðaþróun rennur út í lok árs og ráðgert er að framkvæmda úttekt á verkefnu síðar á árinu og ásamt því að hefja undirbúning að framhaldsáfanga.
Buikwe hefur um árabil verið samstarfshérað Íslands og fulltrúar sendiráðsins í Kampala fóru þangað í eftirlitsferð í síðustu viku til að skoða fimm byggingarsvæði. Þar er verið að byggja einn grunnskóla og fjórar sólarknúnar vatnsveitur.