Hoppa yfir valmynd
4. mars 2016 Dómsmálaráðuneytið

Lögregluembætti fá 400 milljóna króna viðbótarframlag

Lögregluembætti landsins fá í ár 400 milljóna króna viðbótarfjárframlag til að styrkja embættin og er með því verið að bregðast við auknum verkefnum lögreglu meðal annars á sviði landamæraeftirlits, öryggis og umferðar. Ákvörðunin er byggð á greiningu á öryggi og þjónustu hjá lögregluembættunum og forgangsröðun verkefna og tengist einnig löggæsluáætlun sem nú er í smíðum.

Við greiningu á stöðunni hjá lögregluembættunum var litið til þriggja þátta:

  • Hvaða þættir í umhverfinu hafa verið að breytast undanfarin ár.
  • Mat á stöðu mælikvarða fyrir öryggi.
  • Mat á stöðu mælikvarða fyrir þjónustu.

Breytt ásýnd - aukin verkefni

Hættustig tengt hryðjuverkum á Íslandi og öðrum stórfelldum árásum er nú talið í meðallagi en var áður lágt. Stóraukinn fjöldi ferðamanna sem kemur til landsins og kemur inn á Schengen-svæðið hefur í för með sér aukið álag á ákveðin lögregluembætti vegna landamæravörslu og vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna á vinsælum ferðamannasvæðunum. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 20 þúsund frá árinu 2007. Lögreglumönnum hefur fækkað úr 712 í 640 frá 2007 sem þýðir að lögreglumenn eru einir á vakt hjá tilteknum embættum á landsbyggðinni. Tímabundnar stórframkvæmdir, t.d. á Norðausturlandi, auka álag á lögreglu. Þrýst er á að lögregla taki markvissar á kynferðisbotum og brotum vegna heimilisofbeldis.

Öryggi

Þar sem hættustig hefur verið aukið og er nú talið í meðallagi er meira álag hjá embættum lögreglu á Suðurnesjum og Austurlandi en einnig hjá greiningardeild og sérsveit ríkislögreglustjóra. Áhættugreining á lögregluembættum sýnir mikla áhættu hjá öllum embættum en gífurlega áhættu hjá lögreglu á Austurlandi og lögreglu á Norðurlandi eystra og þarf sérstaklega að draga úr veikleikum í þeim umdæmum.

Þjónusta

Mælikvarðar sem tengjast rannsóknum mála eru þeir einu sem byggja má á og er niðurstaðan sú að ekkert lögregluembætti nær markmiðum um málsmeðferðartíma. Álag er að aukast í umdæmum lögreglu á Austurlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölgunar ferðamanna og/eða íbúa. Þá þarf að styrkja getu ríkislögreglustjóra til að takast á við afbrot sem tengjast tölvu- og netglæpum.

Forgangur

Verkefni sem njóta þurfa forgangs við úthlutum viðbótarfjár eru viðbúnaður á landamærum hjá lögreglu á Suðurnesjum, lögreglu á Austurlandi svo og hjá alþjóðdeild og greiningardeild ríkislögreglustjóra. Einnig þarf að auka viðbúnað með aukinni þjálfun og bættum búnaði hjá sérsveit. Auka þarf almenna löggæslu á höfuðborgarsvæðinu vegna fjölgunar brota, fjölgunar íbúa og ferðamanna og álags við rannsóknir mála.

Úthlutun eftir embættum

Miðað við ofangreindar forsendur og til að styrkja embættin er það niðurstaða ráðuneytisins að úthlutun viðbótarfjárheimilda verði með eftirfarandi hætti:

  • Ríkislögreglustjóri 85 m.kr. vegna hækkaðs vástigs, álags á landamæri, stuðnings við embættið og umferðaröryggismála.
  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 140 m.kr. vegna fjölgunar íbúa, fjölgunar brota og til að bæta árangur í rannsóknum.
  • Lögreglan á Suðurnesjum 70 m.kr. vegna aukinnar landamæravörslu.
  • Lögreglan á Austurlandi 25 m.kr. vegna aukinnar landamæravörslu.
  • Lögreglan á Norðurlandi eystra 20 m.kr. vegna aukins umfangs við iðnarauppbyggingu og landamæravörslu
  • Lögreglan á Suðurlandi 20 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan á Vestfjörðum 10 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan á Vesturlandi 10 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan í Vestmannaeyjum 10 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan á Norðurlandi vestra 10 m.kr. til að styrkja embættið.

Ráðuneytið mun áfram beita sér fyrir frekari aukningu fjárheimilda á komandi árum til að styrkja löggæslu enn frekar í samræmi við löggæsluáætlun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta