Lífskjaravísitala UNDP: Lífskjör rýrna í níu af hverjum tíu ríkjum
Ítrekaðar kreppur hamla framförum með þeim afleiðingum að lífskjör rýrna í níu ríkjum af hverjum tíu samkvæmt nýútkominni Lífskjaravísitölu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP: The Human Develpment Index. „Heimurinn hefur farið úr einni kreppu í aðra og hefur fest í hlutverki slökkviliðs og verið ófær um að ráðast að rótum þess vanda sem við er að glíma. Ef ekki er breytt snarlega um stefnu má búast við enn frekari skorti og óréttlæti,“ segir í skýrslunni.
Ísland er í þriðja sæti á lífskjaralistanum líkt og síðast. Sviss og Noregur eru í efstu sætunum.
Lífskjaraskýrsla UNDP nefnist „Óvissir tímar, röskun lífs: Að skapa framtíðina í heimi umbreytinga,“ (“Uncertain Times, Unsettled Lives: Shaping our Future in a Transforming World”). Í henni er því haldið fram að sífellt meiri óvissa valdi röskun á lífi fólks á fordæmalausan hátt.
Samkvæmt frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC, hefur ástandið undanfarin tvö ár haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir milljarða manna um allan heim. Stríðið í Úkraínu fylgdi í kjölfar COVID-19 heimsfaraldurins, sem skullu á heiminum á tíma gríðarlegra félagslegra og efnahagslegra umskipta, hættulegra breytinga á plánetunni og aukinnar sundrungar.
Í fyrsta skipti á þeim 32 árum sem UNDP hefur tekið saman lífskjaravísitöluna (The Human Development Index), hefur lífskjörum almennt hnignað í heiminum tvö ár í röð. Lífskjör hafa minnkað og eru komin aftur á það stig sem þau voru að meðaltali í heiminum 2016. Þetta þýðir að stór hluti þess árangurs, sem náðst hafði í að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, hefur gengið til baka.
„Veröldin er að reyna að staulast á fætur eftir tvær kreppur, hvora a á fætur annarri,“ segir Achim Steiner, forstóri UNDP. „Það sverfur að vegna dýrtíðar og orkukreppu. Þá er freistandi fyrir ráðamenn að grípa til skammtímalausna til að vinna bug á orkukreppunni á borð við niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Hins vegar slær það aðeins á frest óumflýjanlegum langtíma kerfisbundnum breytingum. Við erum sem stendur sem lömuð gagnvart þessum breytingum. Óvissa ríkir í heiminum og við þurfum á endurnýjun hnattrænnar samstöðu að hald til þess að glíma við innbyrðist tengdar, sameiginlegar áskoranir.“
Hann segir að markmið nýrrar greiningar sé að vekja fólk til umhugsunar um það hvernig hægt er brjótast út úr blindgötunni og marka nýja braut úr hnattrænni óvissu. „Við höfum skamman tíma til stefnu til endurræsa kerfi okkar og tryggja framtíð sem byggir á markvissum loftslagsaðgerðum og nýjum tækifærum fyrir alla.“