Hoppa yfir valmynd
29. júní 2017 Dómsmálaráðuneytið

Ræddu við ættleiðingaryfirvöld í Tékklandi

Íslenska sendinefndin ásamt fulltrúum miðstjórnvalds Tékklands. - mynd

Fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar og fulltrúi dómsmálaráðuneytisins heimsóttu Tékkland nýverið. Tilgangurinn var fyrst og fremst að að hitta miðstjórnvald Tékklands í ættleiðingarmálum og styrkja böndin við samstarfsaðila.

Íslensk ættleiðing fékk löggildingu ráðuneytisins til að annast milligöngu ættleiðinga frá Tékklandi árið 2004 en alls hafa verið ættleidd 33 börn til Íslands með milligöngu félagsins frá Tékklandi. Fundað var með miðstjórnvaldi Tékklands í ættleiðingarmálum (Office for International Legal Protection of Children) í borginni Brno sem er næst stærsta borg Tékklands en þar eru höfuðstöðvar ættleiðingamálaflokksins.

Miðstjórnvald Tékklands kynnti starfsemi sína og ættleiðingarmálefni í Tékklandi. Fulltrúi vinnu- og félagsmálaráðuneytisins í Tékklandi hélt einnig kynningu fyrir íslensku sendinefndina, en hlutverk ráðuneytisins er m.a. að tryggja vernd barna í Tékklandi.

Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins kynnti starfsemi ráðuneytisins, hlutverk þess á sviði ættleiðinga og helstu aðila sem gegna lykilhlutverki í ættleiðingarmálum á Íslandi. Íslensk ættleiðing kynnti íslenskt samfélag og félagið og starfsemi þess og starf barnaverndarnefnda á Íslandi.  Íslenska sendinefndin fékk jafnframt kynningu á starfi barnaverndarnefndar í Brno og fundaði með dómurum sem starfa fyrir dómstól í Brno og hafa ættleiðingarmál til meðferðar.

Að lokum heimsótti sendinefndin barnaheimili í borginni Most þar sem eru börn frá fæðingu til þriggja ára, en það er eitt stærsta barnaheimili Tékklands. Íslenska sendinefndin fékk þar góðar móttökur og fékk að kynnast betur starfsemi barnaheimilisins ásamt starfsfólki þess. Ferðin var mjög vel heppnuð og lærdómsrík og til þess fallin að styrkja enn fremur samstarf Íslands og Tékklands í ættleiðingarmálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta