Mál nr. 187/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 8. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 187/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. maí 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 13. maí 2011 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysisbóta vegna umsóknar hennar, dags. 4. apríl 2011. Umsókn kæranda var samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá B. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá 4. apríl 2011 skv. 1. mgr. 54. gr., sbr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi hóf tímabundið starf hjá C 2. maí 2011 og var því skráð af atvinnuleysisbótum 29. apríl 2011. Kærandi lauk störfum hjá C 25. október 2011 og sótti aftur um atvinnuleysisbætur 26. október 2011. Umsókn kæranda var samþykkt en kærandi var sett á biðtíma þar sem Vinnumálastofnun telur að biðtími vegna fyrri umsóknar hafi ekki verið liðinn. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 30. desember 2011. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.
Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 7. nóvember 2008 og var umsókn hennar samþykkt en bótaréttur felldur niður í tvo mánuði með vísan til starfsloka hennar hjá C. Kærandi sat þann biðtíma af sér. Hún var afskráð hjá Vinnumálastofnun 31. ágúst 2009, en sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 4. apríl 2011. Sökum starfsloka kæranda hjá B. var kæranda gert að sæta þriggja mánaða biðtíma á grundvelli skv. 1. mgr. 54. gr., sbr. 1. mgr. 56. gr., laga um atvinnuleysistryggingar og var sú ákvörðun tilkynnt með bréfi, dags. 17. maí 2011. Kærandi fékk því ekki greiddar atvinnuleysisbætur á greiðslutímabilunum 20. mars til 19. apríl 2011 og 20. apríl til 19. maí 2011. Kærandi var afskráð að eigin beiðni 29. apríl 2011, en þá höfðu liðið 0,92 mánuðir af þriggja mánaða biðtíma hennar.
Kærandi starfaði tímabundið hjá C frá 2. maí til 25. október 2011. Hún sótti aftur um atvinnuleysisbætur 26. október 2011 og hélt þá biðtíminn áfram að líða. Samkvæmt samskiptaskrá kæranda við Vinnumálastofnun átti kærandi inni tólf daga ótekið orlof og var hún skráð í orlof hjá stofnuninni á tímabilinu frá 26. október til 10. nóvember 2011. Sá tími sem kærandi var í orlofi kemur ekki til frádráttar biðtímanum skv. 2. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar kemur fram að hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði laganna á biðtímanum.
Í kæru, dags. 30. desember 2011, kemur meðal annars fram að kærandi unir því ekki að fara aftur á biðtíma og bendir á að hún hafi verið að vinna hjá C lengur en í tvo mánuði. Þá sé hún búin að bíða lengur en í þrjá mánuði, þ.e. einn mánuð vegna apríl 2011, annan vegna tímabilsins frá 26. október til 26. nóvember og þriðja vegna tímabilsins frá 26. nóvember til 26. desember 2011.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 12. apríl 2012, segir að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 56. gr., laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem nú sé um að ræða viðurlagaákvörðun í annað skiptið á sama bótatímabili komi hin seinni viðurlagaákvörðun til ítrekunar hinni fyrri, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun bendir á að þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur á ný 26. október 2011 hafi biðtíminn haldið áfram að líða samkvæmt viðurlagaákvörðun sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. maí 2011, enda hafi kærandi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 5. mgr. 56. gr. og 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á greiðslutímanum 20. október til 19. nóvember 2011 hafi liðið 0,27 mánuður af biðtímanum og hafi greiðslurnar jafnframt verið skertar sökum orlofs á því tímabili. Á greiðslutímabilinu 20. nóvember til 19. desember 2011 hafi liðið einn mánuður af biðtímanum. Á greiðslutímabilinu 20. desember til 19. janúar 2012 hafi liðið 0,81 mánuður af biðtímanum. Þá hafi samtals þrír mánuðir verið liðnir af biðtíma kæranda.
Það er niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda skulu fyrst hefjast þegar hún hafi verið skráð hjá stofnuninni án bóta í þrjá mánuði.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. apríl 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. maí 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða óskaði frekari gagna hjá Vinnumálastofnun og voru þau lögð fram með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. nóvember 2012. Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar til Vinnumálastofnunar, dags. 5. desember 2012, var enn óskað ítarlegri upplýsinga og barst svar við þeirri beiðni með tölvupósti 20. desember 2012.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar á biðtíma kæranda í kjölfar umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur 26. október 2011. Útreikningurinn byggir á ákvörðun stofnunarinnar frá 13. maí 2011, en með þeirri ákvörðun var bótaréttur kæranda felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 1. mgr. 56. gr., laga um atvinnuleysistryggingar.
Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:
Í 1. mgr. 56. laga um atvinnuleysistryggingar segir:
Bótaréttur kæranda var felldur niður öðru sinni 13. maí 2011, eins og rakið hefur verið, og hafði það því ítrekunaráhrif skv. 1. mgr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en kærandi hafði sætt niðurfellingu bótaréttar áður á sama bótatímabili. Kærandi var í tímabundnu starfi frá 2. maí til 25. október 2011. Áður en hún hóf það starf höfðu liðið 0,92 mánuðir af þriggja mánaða biðtíma hennar. Biðtíminn hélt áfram að líða þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 26. október 2011 enda hafði kærandi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils skv. 5. mgr. 56. gr. og 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í janúar 2012 hafði kærandi setið af sér þriggja mánaða biðtímann sem ákvarðaður hafði verið 13. maí 2011 og hafði þá verið tekið tillit til tólf daga orlofs kæranda sem kom til skerðingar á tímabilinu.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning biðtíma A eftir að hún sótti um atvinnuleysisbætur 26. október 2011 er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúríksdóttir
Helgi Áss Grétarsson