Föstudagspóstur á Þorláksmessu
Heil og sæl.
Við heilsum ykkur á Þorláksmessu og förum yfir allt það helsta sem hefur dregið á daga utanríkisþjónustunnar á þessum síðustu dögum fyrir jól.
Við byrjum á því nýjasta. Í gær átti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fjarfund með utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, í tilefni fimmtíu ára stjórnmálasambands ríkjanna.
Samskipti Íslands og Kína í áranna rás, samstarfsmöguleikar ríkjanna á ýmsum sviðum, loftslagsmál og mikilvægi alþjóðasamstarfs voru helstu umræðuefni.
„Ýmis tækifæri liggja í aukinni samvinnu milli Íslands og Kína, ekki síst á sviði loftslagsaðgerða og endurnýjanlegrar orku,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Samstarf landanna á sviðum jarðvarmanýtingar og kolefnisbindingar getur haft þýðingarmikil áhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar. Aukið tvíhliða- og alþjóðasamstarf getur gegnt lykilþýðingu í þeirri baráttu,“ sagði hún enn fremur í fréttatilkynningu, og bætti því við að mikilvægt væri að skoða hvernig hagnýta megi fríverslunarsamning ríkjanna með sem áhrifaríkustum hætti enda hafi viðskipti Kína og Íslands aukist mikið frá gildistöku hans 2013.
This year Iceland and China celebrate 50 years of diplomatic relations🎉
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) December 23, 2021
On this occasion I had good discussions with FM Wang Yi on the bilateral relationship between 🇮🇸 and 🇨🇳 and opportunities for continued cooperation. May our good relations continue to grow stronger. pic.twitter.com/puewSyyG3m
Í gær birtum við svo frétt þess efnis að Þórdís Kolbrún hefði ásamt Argentina Matavel-Piccin, yfirmanns skrifstofu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) fyrir Vestur- og Mið-Afríku, skrifað undir samstarfssamning um verkefni sem styður stjórnvöld í Síerra Leóne í viðleitni sinni við að útrýma fæðingarfistli í landinu.
Í síðustu viku voru einmitt framlög til þróunarsamvinnu og samstarf við Síerra Leóne rædd á fundi þróunarsamvinnunefndar. Áhersla var á fyrirsjáanlega aukna þörf á mannúðar- og neyðaraðstoð á næstu árum.
Iceland 🇮🇸 and @UNFPASierraleon have signed a landmark agreement for a 5 year project in Sierra Leone that will contribute to national efforts aimed to #EndFistula and improve the lives of the women and girls that suffer from the condition. pic.twitter.com/zPvNBBtohV
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) December 22, 2021
Nóg annað hefur verið á dagskrá ráðherra.
Á þriðjudag gáfu varnarmálaráðherrar Norðurlandanna út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Úkraínu. Þar lýsa þeir yfir áhyggjum af stöðu og þróun mála í Úkraínu, árétta stuðning Norðurlandanna við fullveldi og landamærahelgi landsins, og rétt úkraínsku þjóðarinnar til að ákvarða eigin framtíð án utanaðkomandi afskipta.
Á þriðjudag fór einnig fram fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Belarús, réttarríkið, og málefni Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) voru í brennidepli. Fundurinn var sá síðasti undir formennsku Finnalands og tekur Litháen við formennsku í samstarfi ríkjanna um áramót.
Tvær fréttir hafa verið birtar um úthlutanir úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins á síðustu dögum.
66°Norður og UN Women á Íslandi fengu styrk til að vinna að verkefni til atvinnusköpunar fyrir flóttakonur frá þróunarríkjum í Tyrklandi. Þórdís Kolbrún og Bjarney Harðardóttir hjá 66°Norður skrifuðu undir samning á mánudag um tæplega 30 milljóna króna styrk ráðuneytisins gegn sambærilegu mótframlagi fyrirtækisins.
Þá styður Heimsmarkmiðasjóðurinn við samfélagsverkefni Kerecis í Egyptalandi. 30 milljón króna framlag úr sjóðnum verður nýtt til að styðja við samstarf lækningafyrirtækisins Kerecis og egypska Ahl Masr-sjúkrahússins um að nota íslenskt sáraroð við meðhöndlun alvarlegra brunasára. Þórdís Kolbrún og Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis undirrituðu samninginn á mánudag.
Á mánudag fundaði Þórdís Kolbrún einnig með utanríkisráðherrum Norðurlanda. Samskipti við stórveldin, staðan við landamæri Rússlands og Úkraínu, afvopnunarmál og ástandið í Eþíópíu voru efst á baugi á fundinum sem fór fram með fjarfundarsniði. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi norrænnar samstöðu og áframhaldandi náið samráð Norðurlandanna.
Í síðustu viku fór fram fjarfundur varnarmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) þar sem málefni Úkraínu voru til umfjöllunar.
Í síðustu viku var svo greint frá komu 22 einstaklinga frá Afganistan til landsins. Heildarfjöldi þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa þá tekið á móti er 83. 40 einstaklingar sem fengu boð frá íslenskum stjórnvöldum þáðu boð um skjól í öðru ríki.
Þá sögðum við einnig frá því að sérstakt yfirlit yfir þjóðréttarsamninga frá tímabilinu 2012-2020 væri nú aðgengilegt á vef Stjórnarráðsins.
En þá að sendiskrifstofunum sem margar hverjar hafa verið duglegar við að kynna land og þjóð með íslensku jólasveinunum undanfarnar vikur.
Hér er til dæmis Kjötkrókur, eða Fleischangler:
Í Madríd afhenti Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra gagnvart Spáni með aðsetur í París, Maríu Sebastían de Erice de la Peña, prótókollstjóra spænska utanríkisráðuneytisins, afrit trúnaðarbréfs síns. Spánn er meðal tíu umdæmisríkja sendiráðsins í París, en á Spáni eru auk þess 12 ræðismenn í 11 borgum.
Í Genf kynntu fulltrúar Íslands ásamt fulltrúum fleiri aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þrjú frumkvæði sem ætlað er að stuðla að sjálfbærum milliríkjaviðskiptum, draga úr ríkisstyrkjum til notkunar jarðefnaeldsneytis og koma böndum á viðskipti með plastvarning.
Í Malaví fékk okkar fólk íslenskt súkkulaði!
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, og fyrrum utanríkisráðherra, tók á móti rússneskri viðskiptasendinefnd á vegum fyrirtækisins Zarubezhneft, sem kom til Íslands á dögunum. Viðburðurinn var skipulagður af okkar fólki í sendiráðinu í Moskvu og Orkuklasanum. Markmið sendinefndarinnar var að kynnast jarðhitageiranum á Íslandi og íslenskri sérþekkingu.
Í Stokkhólmi tók Hannes Heimisson sendiherra á móti sænskum frímerkjasöfnurum. Íslensk frímerki eru vinsæl þar í landi!
Í Kína ávarpaði Þórir Ibsen ársfund stoðtækjafyrirtækisins Össurar í Kína, eða Össur China eins og það kallast, á dögunum.
Honoured to address the Annual Meeting of Össur China with Key Clients and to meet again my friends the brave Ambassadors of #ÖssurFamily who live the motto #LifeWithoutLimitations @OssurCorp @MFAIceland pic.twitter.com/DlaXpzLa81
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) December 21, 2021
Þá er rétt að geta þess í lokin að jólin verða hvorki rauð né hvít í ár heldur græn þar sem utanríkisráðuneytið hefur fjölgað grænu skrefunum og fékk í gær viðurkenningu frá Umhverfisstofnun fyrir að ná Grænum skrefum númer þrjú og fjögur.
Við minnum að endingu á Heimsljós, og óskum ykkur um leið gleðilegra jóla og farsæls komandi árs!
Jólakveðjur frá upplýsingadeild.