Hoppa yfir valmynd
23. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á Þorláksmessu

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur á Þorláksmessu og förum yfir allt það helsta sem hefur dregið á daga utanríkisþjónustunnar á þessum síðustu dögum fyrir jól.

Við byrjum á því nýjasta. Í gær átti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fjarfund með utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, í tilefni fimmtíu ára stjórnmálasambands ríkjanna.

Samskipti Íslands og Kína í áranna rás, samstarfsmöguleikar ríkjanna á ýmsum sviðum, loftslagsmál og mikilvægi alþjóðasamstarfs voru helstu umræðuefni.

„Ýmis tækifæri liggja í aukinni samvinnu milli Íslands og Kína, ekki síst á sviði loftslagsaðgerða og endurnýjanlegrar orku,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Samstarf landanna á sviðum jarðvarmanýtingar og kolefnisbindingar getur haft þýðingarmikil áhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar. Aukið tvíhliða- og alþjóðasamstarf getur gegnt lykilþýðingu í þeirri baráttu,“ sagði hún enn fremur í fréttatilkynningu, og bætti því við að mikilvægt væri að skoða hvernig hagnýta megi fríverslunarsamning ríkjanna með sem áhrifaríkustum hætti enda hafi viðskipti Kína og Íslands aukist mikið frá gildistöku hans 2013.


Í gær birtum við svo frétt þess efnis að Þórdís Kolbrún hefði ásamt Argentina Matavel-Piccin, yfirmanns skrifstofu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) fyrir Vestur- og Mið-Afríku, skrifað undir samstarfssamning um verkefni sem styður stjórnvöld í Síerra Leóne í viðleitni sinni við að útrýma fæðingarfistli í landinu.

Í síðustu viku voru einmitt framlög til þróunarsamvinnu og samstarf við Síerra Leóne rædd á fundi þróunarsamvinnunefndar. Áhersla var á fyrirsjáanlega aukna þörf á mannúðar- og neyðaraðstoð á næstu árum.

Nóg annað hefur verið á dagskrá ráðherra.

Á þriðjudag gáfu varnarmálaráðherrar Norðurlandanna út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Úkraínu. Þar lýsa þeir yfir áhyggjum af stöðu og þróun mála í Úkraínu,  árétta stuðning Norðurlandanna við fullveldi og landamærahelgi landsins, og rétt úkraínsku þjóðarinnar til að ákvarða eigin framtíð án utanaðkomandi afskipta. 

Á þriðjudag fór einnig fram fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Belarús, réttarríkið, og málefni Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) voru í brennidepli. Fundurinn var sá síðasti undir formennsku Finnalands og tekur Litháen við formennsku í samstarfi ríkjanna um áramót. 

Tvær fréttir hafa verið birtar um úthlutanir úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins á síðustu dögum.

66°Norður og UN Women á Íslandi fengu styrk til að vinna að verkefni til atvinnusköpunar fyrir flóttakonur frá þróunarríkjum í Tyrklandi. Þórdís Kolbrún og Bjarney Harðardóttir hjá 66°Norður skrifuðu undir samning á mánudag um tæplega 30 milljóna króna styrk ráðuneytisins gegn sambærilegu mótframlagi fyrirtækisins.

Þá styður Heimsmarkmiðasjóðurinn við samfélagsverkefni Kerecis í Egyptalandi. 30 milljón króna framlag úr sjóðnum verður nýtt til að styðja við samstarf lækningafyrirtækisins Kerecis og egypska Ahl Masr-sjúkrahússins um að nota íslenskt sáraroð við meðhöndlun alvarlegra brunasára. Þórdís Kolbrún og Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis undirrituðu samninginn á mánudag.

Á mánudag fundaði Þórdís Kolbrún einnig með utanríkisráðherrum Norðurlanda. Samskipti við stórveldin, staðan við landamæri Rússlands og Úkraínu, afvopnunarmál og ástandið í Eþíópíu voru efst á baugi á fundinum sem fór fram með fjarfundarsniði. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi norrænnar samstöðu og áframhaldandi náið samráð Norðurlandanna.

Í síðustu viku fór fram fjarfundur varnarmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) þar sem málefni Úkraínu voru til umfjöllunar.

Í síðustu viku var svo greint frá komu 22 einstaklinga frá Afganistan til landsins. Heildarfjöldi þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa þá tekið á móti er 83. 40 einstaklingar sem fengu boð frá íslenskum stjórnvöldum þáðu boð um skjól í öðru ríki.

Þá sögðum við einnig frá því að sérstakt yfirlit yfir þjóðréttarsamninga frá tímabilinu 2012-2020 væri nú aðgengilegt á vef Stjórnarráðsins.

En þá að sendiskrifstofunum sem margar hverjar hafa verið duglegar við að kynna land og þjóð með íslensku jólasveinunum undanfarnar vikur.

Hér er til dæmis Kjötkrókur, eða Fleischangler:


Í Madríd afhenti Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra gagnvart Spáni með aðsetur í París, Maríu Sebastían de Erice de la Peña, prótókollstjóra spænska utanríkisráðuneytisins, afrit trúnaðarbréfs síns. Spánn er meðal tíu umdæmisríkja sendiráðsins í París, en á Spáni eru auk þess 12 ræðismenn í 11 borgum.

Í Genf kynntu fulltrúar Íslands ásamt fulltrúum fleiri aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þrjú frumkvæði sem ætlað er að stuðla að sjálfbærum milliríkjaviðskiptum, draga úr ríkisstyrkjum til notkunar jarðefnaeldsneytis og koma böndum á viðskipti með plastvarning. 

Í Malaví fékk okkar fólk íslenskt súkkulaði!


Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, og fyrrum utanríkisráðherra, tók á móti rússneskri viðskiptasendinefnd á vegum fyrirtækisins Zarubezhneft, sem kom til Íslands á dögunum. Viðburðurinn var skipulagður af okkar fólki í sendiráðinu í Moskvu og Orkuklasanum. Markmið sendinefndarinnar var að kynnast jarðhitageiranum á Íslandi og íslenskri sérþekkingu.

Í Stokkhólmi tók Hannes Heimisson sendiherra á móti sænskum frímerkjasöfnurum. Íslensk frímerki eru vinsæl þar í landi!

Í Kína ávarpaði Þórir Ibsen ársfund stoðtækjafyrirtækisins Össurar í Kína, eða Össur China eins og það kallast, á dögunum.


Þá er rétt að geta þess í lokin að jólin verða hvorki rauð né hvít í ár heldur græn þar sem utanríkisráðuneytið hefur fjölgað grænu skrefunum og fékk í gær viðurkenningu frá Umhverfisstofnun fyrir að ná Grænum skrefum númer þrjú og fjögur.

Við minnum að endingu á Heimsljós, og óskum ykkur um leið gleðilegra jóla og farsæls komandi árs!

Jólakveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta