Hoppa yfir valmynd
15. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Vegslóði opnaður að Flóðgátt Flóaáveitunnar

Efnt var nýlega til hátíðarsamkomu við flóðgátt Flóaáveitunnar í Flóahreppi í tilefni þess að 85 ár eru frá því vatni var hleypt í áveituna. Opnaður var vegslóði að flóðgáttinni en að vegagerðinni stóðu Flóahreppur og Áveitufélagið með stuðningi frá Vegagerðinni og fleiri aðilum sem vilja auka aðgengi fólks að mannvirkinu.

Ögmundur Jónasson og Guðni Ágústsson eru hér við flóðgáttina á Brúnastaðaflötum.
Ögmundur Jónasson og Guðni Ágústsson eru hér við flóðgáttina á Brúnastaðaflötum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu formlega vegslóðann að Flóðgátt Flóaáveitunnar með því að klippa á borða og flutti ráðherra erindi við það tækifæri. Um 400 manns tóku þátt í hátíðinni við föstudaginn 1. júní til að minnast þess að í ár eru liðin 85 ár frá því að vatni úr Hvítá var hleypt á áveituna en framkvæmdir höfðu byrjað fimm árum fyrr. Fyrirhugað er að setja upplýsingaskilti við Flóðgáttina þar sem hægt verður að fræðast um sögu framkvæmdanna og hefur Menningarráð Suðurlands veitt styrk til þess. Áveitan var á sínum tíma umfangsmesta og dýrasta landbúnaðarframkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. Hún var lengi í undirbúningi en sumarið 1906 kom til landsins danski verkfræðingurinn Carl Thalbitzer á vegum danska Heiðafélagsins og vann að margvíslegum mælingum og athugunum á þeirri hugmynd að veita vatni frá Hvítá og Þjórsá á ræktarland í Flóa og á Skeiðum. Tilgangurinn var að geta aukið grasrækt og þar með stækkað búin og auka framleiðslu þeirra.

Afmælishátíð Flóaáveitunnar var haldin nýverið.

Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, setti hátíðina og stýrði Guðmundur Stefánsson dagskránni. Innanríkisráðherra og vegamálastjóri opnuðu síðan veginn formlega og eftir ræðu ráðherra og ávarp vegamálastjóra flutti Þór Vigfússon ræðu, einnig Kristinn Andersen, formaður Verkfræðingafélags Íslands, og síðan Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, og að lokum Margrét Sigurðardóttir. Kirkjukór Hraungerðisprestakalls söng við athöfnina.

Flóaáveitunnar

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta