Atvinnutorg opnað í Kópavogi
Samstarfssamningur um atvinnutorg fyrir ungt fólk í Kópavogi var undirritaður í dag en markmið atvinnutorga er að auka virkni ungs fólks á aldrinum 16 – 25 ára sem hvorki er í vinnu né skóla. Þetta er fjórða atvinnutorgið sem sett er á fót í þessu skyni. Hin eru í Reykjavík, Reykjanesbæ og í Hafnarfirði.
Guðbjartur hannesson velferðarráðherra, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna. Aðsetur atvinnutorgsins er hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar. Bæjarfélagið fjármagnar launakostnað eins ráðgjafa sem sem starfar hjá torginu en einnig starfa þar atvinnuráðgjafar sem Vinnumálastofnun leggur verkefninu til.
Aðdragandann að stofnun atvinnutorga fyrir ungt fólk má rekja til þess að ríkisstjórnin samþykkti í júní á liðnu ári að verja 100 milljónum króna í vinnumarkaðsaðgerðir fyrir ungt fólk sem ekki er tryggt innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í kjölfarið var settur á laggir vinnuhópur með fulltrúum Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjanesbæjar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins, til að samræma þjónustu Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við þennan hóp.
Áætlað er að rúmlega 400 ungmenni muni að jafnaði njóta þjónustu hjá atvinnutorgum sveitarfélaganna fjögurra. Mikilvægur hluti verkefnisins felst í að hafa uppi á þeim hluta hópsins sem stendur utan kerfisins og þarf því að leita að, en þá er átt við ungmenni sem hvorki eru skráð með fjárhagsaðstoð sveitarfélags né atvinnuleysisbætur og eru ekki í vinnu eða námi.