Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 20. nóvember

Heil og sæl.

Við heilsum héðan af Rauðarárstígnum í skammdeginu á þessum ágæta föstudegi og færum ykkur það helsta sem drifið hefur á daga utanríkisþjónustunnar í vikunni. Vikan hófst af krafti en á mánudag ávarpaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tvo ráðherrafundi um mannréttindamiðuð málefni.

Á ráðherrafundi um trú- og lífskoðunarfrelsi lagði ráðherra í ávarpi sínu áherslu á að trúfrelsi og tjáningarfrelsi væru grundvallarmannréttindi sem standa þyrfti vörð um og að hafna bæri ofbeldi sem framið væri í nafni trúarbragða. Benti hann á að kristnu fólki væri síst hlíft við ofsóknum á grundvelli lífsskoðana sinna, líkt og nýlegar árásir í Evrópu bæru vott um. Ljóst væri að sum stjórnvöld skákuðu í skjóli COVID-19 til að skerða réttindi borgara sinna, en mikilvægt væri að trúfrelsi, líkt og önnur mannréttindi, væri virt þrátt fyrir neyðarviðbrögð vegna heimsfaraldursins

Fjarfundur Fjölmiðlafrelsisbandalagsins (e. Media Freedom Coalition) fór fram sama dag og í ávarpi sínu á þeim vettvangi lagði Guðlaugur Þór áherslu á öryggi fjölmiðlafólks og lýsti áhyggjum sínum af árásum á það um allan heim, sem og tilraunum til að kæfa lýðræðislega umræðu með öðrum hætti. Nefndi hann sérstaklega áhrif heimsfaraldursins á þetta málefni. 

Í þessu samhengi er vert að minnast á frétt okkar frá því á miðvikudag þar sem sagt var frá því að Ísland hefði gerst aðili að alþjóðaverkefni Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, um frjálsa fjölmiðlun í þróunarlöndum, (e. International Programme for the Development of Communication). Samningur um fjögurra ára framlag Íslands til verkefnisins var undirritaður í París á miðvikudag og mun framlag þessa árs nýtast í stuðning við fjölmiðlauppbyggingu í Afríku sem viðbragð við kórónuveirufaraldrinum.

„Stuðningur Íslands við þetta mikilvæga verkefni um frjálsa fjölmiðlun í þróunarlöndum kemur á tíma þegar fjölmiðlar víða um heim eiga undir högg að sækja. Framlagið samræmist vel áherslum Íslands á sviði mannréttinda og er liður í viðbrögðum Íslands við kórónuveirufaraldrinum í þróunarríkjum,"sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra Íslands í París, undirritaði samninginn ásamt Jean-Yves Le Saux, framkvæmdastjóra skrifstofu stefnumótunar hjá UNESCO.

Í ár eru raunar 75 ár liðin frá því að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) var komið á fót, en fyrirrennari stofnunarinnar starfaði frá árinu 1922 á vettvangi Þjóðabandalagsins. Ísland gerðist aðili að stofnuninni þann 8. júní 1964 og árið 1966 ákvað ríkisstjórnin að stofna íslenska UNESCO-nefnd. Sendiráð Íslands í París gegnir hlutverki fastanefndar gagnvart stofnuninni og sinnir daglegu starfi fyrir Íslands hönd innan UNESCO. Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra Íslands í París, leiðir m.a. vinnu vinahóps um jafnréttismál í samstarfi við fastafulltrúa Óman.

 Á miðvikudag fór einnig fram EES-ráðsfundur og þar var kórónuveirufaraldurinn efstur á baugi. Í almennum umræðum um alþjóðamál bar málefni Hvíta-Rússlands hæst. Á fundinum lagði ráðherra áherslu á að samstarf ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu hafi haft mikla þýðingu í kórónuveirufaraldrinum. Það hafi m.a. náð til aðgangs að hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk, aðgangs að lyfjum og að bóluefni í nánustu framtíð sem og samvinnu hvað varðar för yfir landamæri. Sá grundvöllur sem EES-samningurinn skapar fyrir því samstarfi hafi reynst mjög heilladrjúgur.

Guðlaugur Þór benti einnig á að áframhaldandi náin samskipti aðila við Bretland eftir útgöngu þess úr ESB væru afar mikilvæg fyrir framtíð innri markaðar svæðisins. „Bretland er stærsta einstaka viðskiptaríki Íslands í Evrópu og næststærst á heimsvísu á eftir Bandaríkjunum. Þýðing þess að lokið verið sem fyrst við gerð fríverslunarsamninga við Bretland verður ekki ofmetin, hvorki fyrir EFTA-ríkin í EES né Evrópusambandið,“ sagði Guðlaugur Þór.

Það hefur kólnað hressilega á Íslandi á síðustu dögum sem er kannski við hæfi því þriggja daga haustfundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins fór fram í vikunni og lauk í gær. Fundarefnin voru í samræmi við formennskuáherslur Íslands í ráðinu en til umræðu var einnig ráðherrafundur Norðurskautsráðsins sem halda á í maí 2021. Þar taka Rússar við formennskukeflinu af Íslendingum. Annars hefur nóg verið á dagskrá á vettvangi norðurslóða á undanförnu er hér er farið yfir það helsta.

Fjölmargar sendiskrifstofur okkar vöktu athygli á degi íslenskrar tungu sem ár hvert er haldinn hátíðlegur þann 16. nóvember á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Færslan hjá sendiherra Íslands í Þýskalandi, Maríu Erlu Marelsdóttur, er til mikillar fyrirmyndar, en þar las hún upp sitt uppáhaldsljóð eftir Jónas, Móðurást, sem sjá má hér að neðan.




Frá Þýskalandi bárust svo einnig þær góðu fréttir að Ísland mun frá og með miðnætti á sunnudag verða tekið af rauðum lista smitsjúkdómastofnunar Robert Koch sem hefur það í för með sér að þeir sem koma til Þýskalands frá Íslandi þurfa ekki að fara í sóttkví þar í landi. Eflaust kætir það marga Íslendinga í Þýskalandi sem ætluðu að koma til Íslands yfir jólin. Rétt er þó að árétta að sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands verður fram haldið í óbreyttri mynd þar til 1. febrúar á næsta ári.

Annars hefur verið stíf dagskrá í Berlín í vikunni. Síðastliðið föstudagskvöld stóð sendiráðið í samstarfi við ÚTÓN Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar fyrir viðburði í Berlín, Reykjavík og víðar – í netheimum - þar sem þýskum tónlistargúrúum og blaðamönnum gafst færi á að ræða við þau Sigtrygg Baldursson og Bryndísi Jónatansdóttur hjá ÚTÓN um íslensku tónlistarsenuna, velgengni íslenskrar tónlistar erlendis og tækifæri á Íslandi t.d. til að taka upp tónlist. Tónlistarblaðamaðurinn og þáttastjórnandinn Nabil Atassi stýrði umræðum, en viðburðurinn var upptaktur að streymi frá Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni. 

Þá fundaði María Erla á dögunum með Dr. Antje Boetius forstjóra Alfred-Wegener stofnuninni í Bremerhaven. Þau ræddu m.a. áherslur Íslands í formennsku hjá Norðurskautsráðinu, þekkingarmiðlun og alþjóðlegt samstarf um loftslagsmál.  Dr. Boetius fræddi sendiherra jafnframt um MOSAiC,  stærsta rannsóknarleiðangur sögunnar á norðurskautssvæðinu með þátttöku sautján þjóða og um þrjátíu stofnana víðs vegar um heiminn. Antje er vel kunnug á Íslandi og var m.a. sérstakur gestur forseta Þýskalands í opinberri heimsókn í fyrrasumar. 

Nýskipaður sendiherra Íslands í London, Sturla Sigurjónsson, sendi frá sér skemmtilega baráttukveðju til íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem atti kappi við Englendinga. 

 

Today is Ambassador Sturla Sigurjónsson's first day at the Embassy! 👏 We warmly welcome Sturla and are looking forward to continued excellent relations between 🇮🇸 and 🇬🇧

Posted by Embassy of Iceland in London on Monday, 16 November 2020

Því miður dugði kveðjan ekki til þar sem Ísland tapaði 4:0 gegn sterkum heimamönnum en hana má sjá hér.

Í Brussel tók Kristján Andri Stefánsson sendiherra í Brussel þátt í óformlegum fjarfundi ráðherra dóms- og innanríkismála í ráðherraráði ESB í fjarveru dómsmálaráðherra. Á fundinum ræddu ráðherrar sameiginlega yfirlýsingu um aðgerðir gegn aukinni hryðjuverkaógn innan álfunnar í kjölfar nýafstaðinna árása í Frakklandi og Austurríki. Þá ræddu ráðherrar einnig nýja stefnu ESB í útlendingamálum en vonir standa til þess að ráðherrar nái pólitískri samstöðu um helstu lykilatriði stefnunnar á næsta fundi þeirra í desember nk. Samstarsríkjum á Schengen-svæðinu var boðið að sitja fundinn og tók Kristján Andri Stefánsson sendiherra í Brussel þátt í fundinum í fjarveru dómsmálaráðherra.

Pétur Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Kanada, flutti svo áhugavert sagnfræðilegt erindi, sem var hluti af kynningarherferðinni Taste of Iceland sem Iceland Naturally stendur fyrir þessa dagana.

Ísland hefur leitt starf mannréttindaráðsins að bættri skilvirkni og starfsháttum og náði að minnka fundahöld um næstum 13 prósent án mikilla áhrifa á efnislegt starf ráðsins. Í Genf kynnti Harald Aspelund, fastafulltrui Íslands, áhrif aðgerða byggða á tillögum Íslands og Rúanda á sérstökum matsfundi. Fjöldi ríkja tók þátt og einnig fulltrúar frjálsra félagasamtaka. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan hafi verið mjög jákvæð og heldur Ísland áfram að starfa með forseta ráðsins að þessum málum. Þar er talið mikilvægt m.a. til að gera ráðið aðgengilegra smærri ríkjum og til að auka getu þess til að takast á við mannréttindabrot um allan heim.

Formennska Íslands í hópi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hjá ÖSE í nóvember gengur vel, þrátt fyrir erfiðar aðstæður vegna COVID-19 og miklar annir fyrir ráðherrafund ÖSE í desember. Guðni Bragason fastafulltrúi hefur stjórnað átta fundum í hópi fastafulltrúa og hermálafulltrúa, og fleiri eru framundan. Á þessum vettvangi hefur m. a. verið rætt um afstöðu bandalagsríkja til viðkvæmra málefna, eins og ófriðarins og friðarferlisins í Nagorno-Karabakh, mannréttindabrotanna í Hvíta-Rússlandi, auk öryggismála, sem reglulega eru til umfjöllunar hjá ÖSE, s. s. traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu (CSBMs), samninginn um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu (CFE), samninginn um opna lofthelgi (OST), Vínarskjalið, umræður um traustvekjandi aðgerðir (SD) og textavinnu að formlegu ávarpi bandalagsríkja á fundinum, svo eitthvað sé nefnt.

Í Heimsljósi í vikunni kom fram að menntaverkefni Íslendinga í samstarfi við héraðsstjórnina í Kalangala héraði í Úganda hefði lokið formlega á dögunum með því að héraðsstjórninni voru afhentar nýbyggingar, annars vegar heimavist fyrir stúlkur á eyjunni Kachanga og hins vegar skólabygging með fjórum kennslustofum á eyjunni Kibanga. Þar með lýkur fimmtán ára sögu Íslands í samstarfi við héraðsstjórnina í þessu eyjasamfélagi úti á Viktoríuvatni þar sem 64 af 83 eyjum eru í byggð. Skólar eru á níu eyjum og stuðningur Íslands í menntamálum breytti verulega gæðum grunnskólanna. Þeir voru í upphafi verkefnisins meðal þeirra lökustu í landinu en á verkefnatímabilinu tókst að koma þeim í hóp efstu tuttugu héraðanna, þar sem þeir hafa verið frá árinu 2016. Þá hafa nemendur í héraðinu verið í hópi þeirra allra bestu þegar kemur að leikni í lestri og stærðfræði.

Í Moskvu ávarpaði sendiherra Íslands, Árni Þór Sigurðsson, vefráðstefnu sem fór fram undir yfirskriftinni „Samvinna á norðurslóðum“, sem borgaryfirvöld í Murmansk og utanríkisráðuneyti Rússlands stóðu fyrir. Í ávarpinu ræddi Árni Þór meðal annars um formennskuáherslur Íslands í Norðurskautsráðinu og ítrekaði mikilvægi þess að norðurslóðir verði áfram vettvangur friðar, stöðugleika og uppbyggilegrar samvinnu. 

Við endum þessa yfirferð svo á skemmtilegu innslagi Friðriks Jónssonar, fastafulltrúa Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins. Friðrik kom kollegum sínum hressilega á óvart í fundarhléi þar sem flutningur hljómsveitar hans, Friðrik og félagar, á slagaranum Don't Try to Fool Me var spilaður.



Við leyfum Friðriki og félögum að eiga lokaorðin að þessu sinni og óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta