Ný öryggisvottun hjá Tollstjóra tryggi samkeppnishæfni í inn- og útflutningi
Tollstjóri hefur sett á laggirnar öryggisvottunina „viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO vottun). AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtæki er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.
Kerfið var formlega tekið í notkun í dag og var Miklatorg hf. sem rekur verslunina IKEA í Garðabæ fyrsta fyrirtækið til að hljóta AEO vottun hér landi.
Markmiðið með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks inn- og útflutnings og stuðla þannig að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina og greiða fyrir lögmætum viðskiptum þvert á landamæri. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Ávinningurinn felst í hraðari tollafgreiðslu, tímasparnaði, minni tilkostnaði og auknum fyrirsjáanleika í alþjóðlegum vöruflutningum.
Upplýsingar um öryggisvottunina á vef Tollstjóra