Tilkynningaskyldur plöntusjúkdómur í tómatarækt
Matvælastofnun hefur verið upplýst um tilkynningaskyldan plöntusjúkdóm sem greinst hefur í tómatarækt hérlendis. Sjúkdómurinn nefnist Potato spindle tuber viroid, spóluhnýðissýking, og er um veirung að ræða. Veirungurinn er hvorki skaðlegur mönnum né dýrum. Veirungurinn leggst á kartöflur og tómata og getur valdið afföllum í ræktun. Þetta er önnur veiran sem greinist í tómatarækt á innan við mánuði en í upphafi mánaðarins greindist Pepino mósaík vírus.
Einkenni sýkingar í tómatarækt geta verið mismunandi og fer alvarleiki eftir sýkingarafbrigði. Í sumum tilfellum eru engin einkenni. Einkenna verður yfirleitt fyrst vart í efri hluta plöntu þar sem lauf verða gulleit með brúnleitum flekkjum á meðan stærri æðar plöntunnar haldast skærgrænar. Vöxtur laufblaða getur einnig verið takmarkaður. Einkenni geta líka birst á ávöxtum en sýktir ávextir geta verið litlir, dökkgrænir, harðir og vöxtur afbrigðilegur. Veirungurinn dreifist gjarnan með snertingu og er besta vörnin fólgin í auknu hreinlæti og sóttvörnum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Matvælastofnun munu láta taka sýni í tómata- og kartöflurækt til að fá mynd af útbreiðslu veirunnar. Þá hefur verið sett reglugerð um aðgerðir til að varna útbreiðslu plöntusjúkdóma. Í henni er kveðið á um skyldur sem gerðar eru til framleiðenda til að hindra útbreiðslu veirunnar. Þá benda ráðuneytið og Matvælastofnun á leiðbeiningar um sóttvarnir og aðrar varúðarráðstafanir gegn smitsjúkdómum í plönturækt og mælast til þess að framleiðendur fylgi þeim. Gætt verði fyllstu varúðar varðandi mögulegt smit og sóttvarnir efldar til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Jafnframt beinir Matvælastofnun því til kartöfluræktenda að gæta að mögulegu krosssmiti frá einstaklingum og aðföngum sem borið gætu smit úr tómatrækt.
Ráðuneytið mun í framhaldinu hefja áætlanagerð til að takmarka eða útrýma sýkingu. Þá verður vinna sett af stað við mótun reglna um sóttvarnir í matarrækt sem taka mið af breyttu landslagi á þessu sviði.
Matvælastofnun beinir því til allra er málið varða að tilkynna stofnuninni strax ef grunur er um smit í tómataræktun.