Umfjöllun Ríkisendurskoðunar um tannlækningar barna
Um 91% barna sem eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum eru nú skráð hjá heimilistannlækni. Ríkisendurskoðun telur góðan árangur hafa náðst hvað þetta varðar og telur ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar til velferðarráðuneytisins frá árinu 2014.
Ríkisendurskoðun birti í dag skýrslu til Alþingis þar sem fylgt er eftir skýrslu stofnunarinnar frá árinu 2014 sem fjallaði um átaksverkefni um tannlækningar fyrir börn tekjulágra forráðamanna. Í þeirri skýrslu var því beint til ráðuneytisins um að láta rannsaka tannheilsu barna og enn fremur að ráðuneytið ætti að beita sér fyrir því að fleiri börn yrðu skráð hjá heimilistannlækni í samræmi við samning um tannlækningar barna frá árinu 2013.
Í skýrslunni sem birt var í dag segir að Ríkisendurskoðun telji mikinn árangur hafa náðst í skráningum barna og ungmenna hjá heimilistannlæknum. Árið 2014 hafi 64% barna sem féllu undir samninginn verið skráð hjá heimilistannlæknum en hlutfallið nú sé komið í 91%. Þá kemur fram að árið 2016 greiddu Sjúkratryggingar Íslands fyrir tannlækningar 46.167 barna, eða 69% barna sem þá áttu rétt á niðurgreiddri tannlæknaþjónustu samkvæmt samningnum frá árinu 2013.
Skráning hjá heimilstannlækni forsenda fyrir gjaldfrjálsri þjónustu
Samningurinn um tannlækningar barna hefur verið innleiddur í áföngum, en lokamarkmiðið er að öll börn að átján ára aldri eigi rétt á gjaldfrjálsri þjónustu í samræmi við hann. Þann 1. janúar síðastliðinn bættust börn á aldrinum fjögurra til fimm ára í hóp þeirra barna sem falla undir samninginn. Á næsta ári bætast yngstu börnin, þriggja ára og yngri, í hópinn og þar með nær samningurinn til allra barna 0 – 17 ára.
Skilyrði fyrir því að barn eigi rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum er að það hafi verið skráð hjá heimilistannlækni sem er með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur sjúkraskrárkerfi heilsugæslunnar frá ársbyrjun 2016 haft aðgang að rauntímaupplýsingum Sjúkratrygginga Íslands um þessar skráningar. Hafi barn ekki skráðan heimilistannlækni hefur skólahjúkrunarfræðingur samband við forráðamenn þess og hvetur þá til að panta tíma hjá tannlækni. Þeim er einnig bent á að tannlæknir geti gengið frá skráningu barns þegar mætt er í tanneftirlit.
Undirbúningur er hafinn að samræmdri skráningu og innköllun gagna um tannheilsu barna og ungmenna hjá Embætti landlæknis. Ríkisendurskoðun segir þetta jákvætt og ætti að auðvelda rannsóknir á tannheilsu þeirra en hvetur ráðuneytið jafnframt til að stuðla að gerð slíkra rannsókna.