Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um 72 milljarða króna aukning á tekjum ríkissjóðs á árinu 2016 í uppfærðri tekjuáætlun

Tekjur ríkissjóðs á árinu 2016 aukast í heild um tæpa 72 milljarða króna frá fjárlögum ársins samkvæmt uppfærðri tekjuáætlun sem gerð var í tengslum við útgáfu ríkisfjármálaáætlunar (voráætlunar) fyrir árin 2017–2021.

Um helmingur aukningarinnar er vegna stöðugleikaframlaga. Hinn helmingurinn eða 36 milljarðar króna er að mestu til kominn vegna tekna af arði, en hluti aukningarinnar er vegna styrkingar tekjustofna í ljósi batnandi efnahags.

Hér er um að ræða fyrsta endurmat á tekjuáætlun ársins 2016. Endurmatið er byggt á nýjum upplýsingum sem hafa komið til síðan fjárlagaáætlunin var gerð undir lok síðasta árs. Þessar upplýsingar eru einkum nýjustu gögn um álagningu og innheimtu skatta, uppfærð þjóðhagsspá Hagstofu í febrúar, áætlanir um útgreiðslu arðs frá Landsbanka og Íslandsbanka og loks breyttar forsendur um bókhaldslega meðferð stöðugleikaframlaga frá slitabúum. Meðfylgjandi tafla sýnir tekjuáætlun ársins, annars vegar í fjárlögum og hins vegar í voráætlun og hvernig einstakir liðir breytast við endurmatið. Fyrst skal tekið fram að hækkun stöðugleikaframlags er alfarið vegna þeirrar ákvörðunar að tekjufæra framlagið í heild á þessu ári en þannig hliðrast tekjur yfir á árið 2016 sem áður var gert ráð fyrir að myndu bókfærast á næstu árum.

Uppfærð tekjuáætlun ríkissjóðs 2016Fyrir utan stöðugleikaframlagið er stærstur hluti hækkunar tekjuáætlunarinnar vegna arðgreiðslna frá bönkum, en þær aukast um 25,2 milljarða króna frá þeim forsendum um reglubundnar arðgreiðslur sem gengið var út frá í fjárlögum 2016. Áætlaðar skatttekjur eru hækkaðar um 11,3 ma.kr. Þar af eru um 5 ma.kr. fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs sem hefur ekki áhrif á afkomuna. Lækkun trygginga· gjalds um 0,5 prósentustig 1. júlí nk. hefur þau áhrif að tekjur af tryggingagjaldi minnka þótt stofn þeirra hækki. Að öðru leyti standa fyrst og fremst efnahagslegir þættir að baki endurmati skatttekna. Útlit er fyrir að flestir helstu tekjustofnar ríkissjóðs muni skila meiri tekjum en áætlað var í fjárlögum og þeir eru því endurmetnir upp á við.

Afkoma ríkissjóðs myndi að óbreyttu batna sem þessu nemur á árinu 2016. Á þessu stigi hefur hins vegar ekki enn farið fram heildstæð endurskoðun á mögulegum frávikum á útgjaldahliðinni, en þau kunna að verða nokkur miðað við reynslu fyrri ára og munu þá vega á móti þessari tekjuhækkun. Fjárlög ársins voru afgreidd með 6,7 ma. kr. afgangi án stöðugleikaframlaga. Miðað við endurskoðun á tekjuáætluninni myndi afgangurinn verða 42,7 ma.kr. án stöðugleikaframlaga en 417,5 ma.kr. að meðtöldum stöðugleikaframlögum að því gefnu að ekki falli til útgjöld umfram áætlun fjárlaga 2016.

Hér má einnig minna á að í hverjum mánuði er birt tilkynning á vef ráðuneytisins um greiðslu· afkomu ríkissjóðs það sem af er ári. Þar má m.a. sjá greiningu á tekjuþróuninni og frávikum frá áætlun. Greiningin gefur ágæta vísbendingu um hvert endurmat tekjuáætlunarinnar stefnir, einkum hvað varðar tekjur af sköttum. Skattar eru hinar reglulegu tekjur ríkissjóðs sem hann byggir rekstur sinn og varanleg útgjöld á. Endurmatið getur tekið breytingum ýmist til hækkunar eða lækkunar og ræður efnahagsleg þróun þar að jafnaði mestu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta