Hoppa yfir valmynd
27. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 465/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 465/2022

Fimmtudaginn 27. október 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. september 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. ágúst 2022, um synjun á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. maí 2022, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. júní 2022, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar staðfesti þá synjun á fundi 17. ágúst 2022. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þann 31. ágúst 2022, sem barst með bréfi velferðarráðs, dags. 7. september 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. september 2022. Með bréfi, dags. 22. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 5. október 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. október 2022, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé að leita til úrskurðarnefndar velferðarmála í annað sinn. Á sínum tíma hafi kærandi lagt fram kæru varðandi afgreiðslu og mat starfsmanna Austurmiðstöðvar vegna umsóknar sinnar um félagslegt húsnæði. Úrskurðarnefndin hafi metið sem svo að þar sem áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi ekki lagt mat á kæruna væri henni vísað til nefndarinnar til frekari úrvinnslu og umsagnar. Eftir langa bið hafi kærandi fengið niðurstöðu í hendurnar þann 31. ágúst 2022 þó svo að Reykjavíkurborg hafi afgreitt málið þann 17. ágúst 2022. Hann hafi ekki fengið póst eða tilkynningu um niðurstöðuna en hún hafi verið sú sama og áður.

Kærandi hafi sent tölvupóst og beðið um rökstuðning fyrir ákvörðuninni en hafi fengið sömu svör og áður, eins og þær upplýsingar sem hafi verið fyrir hendi væru hundsaðar. Rökstuðningurinn hafi borist kæranda í tölvupósti frá tilteknum starfsmanni Austurmiðstöðvar með fylgiskjali undirrituðu af lögfræðingi velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Kærandi geti ekki séð að starfsmenn áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi lagt mat sitt á málið.

Breytingar hafi orðið á stöðu kæranda og hann sé nú húsnæðislaus. Varðandi stigagjöf fyrir húsnæðisstöðu finnist kæranda óásættanlegt að vinir og vandamenn hýsi hann mánuðum saman eða að hann þurfi að dvelja á áfangaheimili til að fá fulla stigagjöf. Tekjuviðmið séu hvorki vísitölutengd né í takti við raunveruleikann þar sem húsnæði hækki í verði en ekki tekjuviðmiðið. Áfrýjunarnefndin hundsi þá stöðu að kærandi beri framfærsluskyldu gagnvart dóttur sinni sem búsett sé í B. Hann vilji fá metið eitt stig fyrir þennan lið. Það kosti kæranda um eina milljón að framfæra hana, auk þess sem hann vilji bjóða henni upp á sómasamlegt húsnæði þegar hún komi í árlega heimsókn til hans á Íslandi. Kærandi telji orðalag varðandi mat á tveimur stigum fyrir félagslegan vanda óskiljanlegt.

Kæranda hafi verið synjað um félagslegt húsnæði á þeim forsendum að hann hafi einungis verið metinn með fimm punkta í mati. Til þess að uppfylla réttindi til félagslegs húsnæðis þurfi að meta einstakling með að lágmarki tíu punkta. Kæranda þyki matið ósanngjarnt og að brotið sé gegn grundvallarréttindum barna og foreldra.

Kærandi hafi skorað eitt stig þar sem hann sé með lögheimili í Reykjavík og hafi verið til lengri tíma. Kærandi hafi skorað tvö stig þar sem hann sé metinn 75% öryrki. Í reynd sé kærandi 100% öryrki sem ekki virðist hafa verið litið til við matið, ekki einu sinni í liðnum um félagslegan vanda.

Kærandi hafi ekki skorað stig út frá tekjum sem séu 5.933.011 kr. en það sé meðaltal tekna síðastliðinna þriggja ára út frá gögnum frá Ríkisskattstjóra. Með því að meta það með slíkum hætti sé brotið á réttindum kæranda og dóttur hans sem sé með íslenskt ríkisfang en búi erlendis hjá móður sinni. Kærandi hafi lagalega framfærsluskyldu gagnvart dóttur sinni og hún komi til Íslands árlega í umgengni til kæranda. Jafnframt reyni hann að fara árlega til B og umgangast hana. Í reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segi að fyrir eitt barn á framfæri skuli hækka viðmiðunarmörkin fyrir tekjur um 1.433.000 kr. og jafnframt að hækka skuli tekjumörk um 716.500 kr. fyrir barn í umgengni. Kærandi hafi sýnt fram á í viðtali við fulltrúa velferðarsviðs að hann millifæri 60.000 kr. mánaðarlega á barnsmóður sína sem reglulegan framfærslustuðning, auk þess sem hann greiði af og til annan óreglulegan kostnað eins og tannspangir og önnur óregluleg útgjöld. Ekki sé annað að sjá en að velferðarsvið Reykjavíkurborgar meti alla jafnan hátt til punkta þegar börn eru annars vegar og því veki það furðu kæranda að honum sé ekki metinn réttur til ásættanlegs húsnæðis. Hann fari fram á að þetta verði leiðrétt og að hann fái eitt stig fyrir þennan lið. Það sama eigi við um næsta lið þar sem komið sé inn á börn og umgengni en þar fái kærandi ekki nein stig. Það sé með ólíkindum þar sem honum beri að reyna að umgangast dóttur sína og vera henni góður faðir. Í þessu samhengi megi vísa til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeirra reglna sem gildi á Íslandi um velferð og réttindi barna sem óneitanlega tengist foreldrum. Honum beri að fá fyrir þennan lið eitt stig.

Út frá núverandi húsnæðisstöðu séu honum metin tvö stig þar sem hann missi húsnæði innan þriggja mánaða. Tíminn sé í raun einn og hálfur mánuður.

Næsti liður í matinu fjalli um félagslegan vanda en þar fái hann engin stig. Kæranda þyki furðu sæta að velferðarsvið Reykjavíkurborgar taki ekki tillit til þess að hann sé metinn 100% öryrki og óvinnufær og sé ófær um að ná sér í aukatekjur til framfærslu. Kærandi sé að verða X ára og ekki sé eftirspurn eftir honum á vinnumarkaði eða á leigumarkaði þar sem leigusalar vilji gjarnan fólk í góðri vinnu og með góða innkomu. Leigumarkaðurinn sé sprunginn og ekki sé framboð húsnæðis. Leiguverð sé komið upp í hæstu hæðir og ekki geti einstaklingur leigt sómasamlegt húsnæði með eina innkomu og hvað þá ef hann sé öryrki. Framfærsluskylda kæranda gagnvart barni sínu takmarki útgjöld hans í húsnæði. Að mati kæranda sé hann því með fjölþættan vanda.

Kærandi fari fram á að matið fyrir félagslegt húsnæði verði metið af skynsemi og sanngirni og að honum verði allavega veittir þrír til fjórir punktar. Miðað við yfirferð kæranda reiknist honum til að með réttu ætti hann að vera með 10 til 11 punkta.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gamall karlmaður sem hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði þann 3. maí 2022. Umsókn hans hafi verið synjað þar sem hann uppfylli ekki 1. tölul. e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Með bréfi Austurmiðstöðvar, dags. 8. júní 2022, hafi kæranda verið synjað um félagslegt leiguhúsnæði þar sem skilyrði 1. tölul. e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi ekki verið uppfyllt en þar sé kveðið á um að aðstæður einstaklings/ hjóna/sambúðarfólks verði að vera metnar til tíu stiga eða meira. Umsókn kæranda hafi verið metin til fimm stiga.

Kærandi hafi lagt inn kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 13. júní 2022 vegna málsins en málið hafi verið framsent með bréfi þann 24. júní 2022 til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar þar sem málið hafði ekki hlotið afgreiðslu hjá nefndinni en það sé nauðsynlegur undanfari kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 17. ágúst 2022 og hafi afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti mat starfsmanna þjónustumiðstöðvar á stigagjöf vegna umsóknar um almennt félagslegt leiguhúsnæði, sbr. matsviðmið varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.“

Kærandi hafi nú kært umrædda ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Um félagslegt húsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika.

Í 4. gr. reglnanna komi fram að umsóknir skuli metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum. Við lok mats séu reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skuli umsækjandi vera metinn til að lágmarki tíu stiga þegar um sé að ræða einstakling/hjón/sambúðarfólk, sbr. 1. tölul. e-liðar 4. gr. reglnanna. Umsókn kæranda hafi verið metin á grundvelli framangreinds matsviðmiðs og hafi niðurstaðan verið sú að kærandi hafi verið metinn til fimm stiga. Sumir þættir séu ekki háðir mati, eins og staða umsækjanda og tekjur umsækjanda, en aðrir þættir séu háðir mati, svo sem húsnæðisstaða og félagslegur vandi umsækjanda.

Kærandi fái eitt stig fyrir að hafa átt lögheimili í Reykjavík í meira en 12 mánuði. Kærandi fái tvö stig vegna stöðu sinnar, en kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri og það séu veitt hámarksstig fyrir þennan lið. Kærandi fái ekki stig fyrir stöðu maka þar sem hann eigi ekki maka. Hvað varði stig vegna tekna hafi ekki verið veittar undanþágur frá þeim viðmiðum sem þar séu sett. Tekjur kæranda hafi numið að meðaltali 499.678 kr. á mánuði og séu því yfir matsviðmiðum sem komi fram í reglum um félagslegt leiguhúsnæði. Samkvæmt matsviðmiðunum fái umsækjandi engin stig ef árstekjur séu yfir 5.345.000 kr. Kærandi fái engin stig vegna barna en til þess að fá eitt stig undir framangreindum lið þurfi barn kæranda að vera í reglulegri umgengni hjá honum. Dóttir kæranda búi í B hjá móður sinni og komi hún einu sinni á ári til hans á sumrin og því sé ekki veitt stig fyrir þennan lið.

Þættir varðandi félagslegar aðstæður umsækjanda séu háðir mati. Stig fyrir húsnæðisstöðu umsækjanda séu metin út frá umfangi húsnæðisvanda og séu gefin núll, eitt, tvö eða þrjú stig. Kærandi hafi verið metinn til tveggja stiga sem falli undir matsviðmiðið: „Er með húsnæði/herbergi, skemur en þrír mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi og ekki er möguleiki á framlengingu.“ Stig vegna sérstakra aðstæðna barna og stig vegna félagslegs vanda umsækjenda séu metin út frá umfangi vanda. Fyrir sérstakar aðstæður barna séu gefin núll, eitt og tvö stig. Kærandi hafi ekki verið metinn til stiga og falli undir matsviðmiðið: „Á ekki við.“ Fyrir þætti er varði félagslegan vanda umsækjanda séu gefin núll, tvö, fjögur eða sex stig. Félagslegur vandi kæranda hafi ekki verið metinn til stiga og falli undir matsviðmiðið: „Á ekki við.“ Til þess að hljóta tvö stig fyrir félagslegan vanda þurfi að vera til staðar félagslegur vandi sem hafi hamlað því að sótt hafi verið um þá þjónustu sem sé í boði en það eigi ekki við í tilfelli kæranda.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því talið að staðfesta bæri niðurstöðu þjónustumiðstöðvarinnar um [fimm] stig samkvæmt matsviðmiðum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og þar með synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

Rétt sé að geta þess að með notkun matsblaðsins sé leitast við að gæta jafnræðis meðal umsækjenda. Þeir fái stig á grundvelli atriða sem séu nánar tilgreind í matsblaðinu og stigagjöf taki mið af aðstæðum viðkomandi.

Það hafi því verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að ekki væri ástæða til að breyta fyrirliggjandi stigagjöf Austurmiðstöðvar með vísan til aðstæðna kæranda og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfest synjun starfsmanna Austurmiðstöðvar á grundvelli stigagjafar, sbr. 1. tölul. e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Með vísan til alls framanritaðs verði að telja að framangreind ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn framangreindum reglum um félagslegt leiguhúsnæði né lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt e-lið 4. gr. skulu umsóknir metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal nr. 1 með reglunum. Við lok mats eru reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skal umsækjandi vera metinn að lágmarki til tíu stiga þegar um er að ræða einstakling líkt og á við í tilviki kæranda.

Í þeim þáttum matsins er varða lögheimili og stöðu umsækjanda fékk kærandi hámarksfjölda stiga sem í boði eru, eða samtals þrjú. Kærandi fékk ekkert stig vegna stöðu maka þar sem það á ekki við. Einnig fékk kærandi ekki stig fyrir tekjur á ársgrundvelli þar sem tekjur hans eru yfir hæsta tekjumarkinu. Í þeim lið matsins sem varðar börn fékk kærandi engin stig. Úrskurðarnefndin telur það réttmæta niðurstöðu þar sem barn kæranda er ekki í reglulegri umgengni hjá honum, heldur árlegri. Húsnæðisstaða kæranda var réttilega metin til tveggja stiga sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við. Þá fékk kærandi ekki stig fyrir sérstakar aðstæður barna og félagslegan vanda sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins sem gefa fleiri stig eigi ekki við um aðstæður hans.

Samkvæmt framangreindu var umsókn kæranda metin til fimm stiga og uppfyllti hann því ekki skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. ágúst 2022, um að synja umsókn A um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta