Nr. 133/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 8. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 133/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU19100068
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 22. október 2019 kærði maður sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 11. september 2019. Kærandi kom til viðtala hjá Útlendingastofnun þann 24. júní og 10. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 22. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 4. nóvember 2019 ásamt fylgigögnum. Þá barst kærunefnd viðbótargreinargerð þann 11. mars 2020 og viðbótarupplýsingar þann 7. apríl s.á. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 27. febrúar sl.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé fæddur og uppalinn í [...] í Pakistan en hafi verið búsettur í [...] áður en hann hafi lagt á flótta. Þar hafi hann starfað fyrir frjáls félagasamtök, [...], sem hafi unnið að því því að bæta réttindi kvenna og barna í landinu, t.a.m. með því að hvetja og styðja konur til þess að koma sér út á vinnumarkaðinn og/eða koma á fót litlum fyrirtækjum. Dag einn er kærandi og samstarfsfélagar hans hafi verið að fara hús úr húsi til að láta konum saumavélar í té hafi þau komið að húsi manns sem hafi tilheyrt Talíbönum. Sá hafi hrakið samstarfsfélaga kæranda út úr húsinu, kallað þær öllum illum nöfnum og sagt að samtökin boði amerískan hugsunarhátt. Þetta sama kvöld hafi svo 12-15 manna hópur Talíbana ráðist að húsnæði samtakanna, hvar kærandi hafi einnig búið, og hafi skotbardagi brotist út. Einn úr hópi Talíbana hafi látist en síðar hafi komið í ljós að þar hafi verið um að ræða yngri bróðir þess sem hafi farið fyrir Talíbönunum. Kæranda hafi tekist að flýja og fela sig í kirkjugarði yfir nótt en hann viti ekki um afdrif fyrrum samstarfsfélaga sinna.
Morguninn eftir hafi kærandi tekið rútu að heimili foreldra sinna í [...] þar sem hann hafi verið í nokkra daga. Faðir kæranda hafi fengið viðvörun frá trúarleiðtoga (Imam), sem hafi tengsl við Talíbana og sjái m.a. um nýliðun í sveitir þeirra, að Talíbanar væru að leita að kæranda og ætluðu sér að drepa hann. Hafi kærandi því neyðst til að leggja á flótta, fyrst innanlands og svo frá landinu. Kærandi telji öruggt að Talíbanar taki hann af lífi, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis, og að hann verði hvergi óhultur, enda hafi Talíbanar tengsl um landið allt. Þá greini hann frá því að systkini hans séu í felum í Pakistan til að forða því að Talíbanar geti rænt þeim, haldið þeim föngum og krafist skipta á þeim og honum sjálfum.
Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og öryggisástand landsins. Kveður kærandi að almennt öryggisástand þar í landi sé afar ótryggt, m.a. vegna árása og ofbeldis af hálfu hryðjuverkahópa. Heimildir beri með sér að yfirvöld, m.a. lögregluyfirvöld, beiti pyndingum gegn borgurum landsins í skjóli refsileysis. Þá er einnig fjallað um ítök og hryðjuverkastarfsemi Talíbana í Pakistan og réttindi kvenna þar í landi. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt. Þá vísar hann til tveggja ákvarðana Útlendingastofnunar frá árinu 2018 þar sem fallist hafi verið á að umsækjendur um alþjóðlega vernd frá [...] ættu á hættu ofsóknir af hálfu Talíbana vegna starfa sinna í tengslum við bólusetningar í heimaríki.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d- lið 3. mgr. 38. gr. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafi meðlimir starfsgreina sem sæta ofsóknum verið taldir tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi. Hópurinn sem um ræðir í tilviki kæranda séu starfsmenn félagasamtaka sem berjist fyrir auknum réttindum kvenna. Stöðu sinnar vegna eigi þeir á hættu að ráðist verði að þeim af hálfu herskárra hópa í Pakistan án þess að refsing komi fyrir. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi flúið heimaríki vegna þess að hann hafi átt á hættu ofsóknir af hálfu Talíbana. Annars vegar vegna starfa hans fyrir frjáls félagasamtök sem Talíbanar telji að boði bandarískan hugsanahátt og hins vegar vegna þess að bróðir leiðtoga þeirra hafi látið lífið í átökum á milli félagasamtakanna og Talíbana. Kærandi hafi fengið áreiðanlegar upplýsingar um að Talíbanar séu enn á eftir honum og ætli sér að taka hann af lífi. Með vísan til framangreinds megi kærandi teljast hafa ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum af hendi Talíbana, verði honum gert að snúa aftur til Pakistan. Kærandi telur ljóst að sá hópur sem hann óttist, þ.e. pakistanskir Talíbanar, falli undir ákvæði a- og c- liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, enda sé um valdamikinn hóp að ræða. Þá telji hann ljóst að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita honum þá vernd sem hann þarfnast.
Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Almennt öryggisástand í Pakistan sé mjög ótryggt og gríðarlegt mannfall sé ár hvert vegna árása af hálfu öryggissveita ríkisins og hryðjuverkasamtaka. Þá beiti yfirvöld borgara sína pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Pakistan og að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki næga vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Því geti kærandi ekki treyst á vernd yfirvalda vegna þeirrar hættu sem honum stafar af Talíbönum. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Fyrir hið fyrsta gerir kærandi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um bætt öryggisástand í Pakistan og mótmælir því harðlega að öryggisástand í Kohat sýslu sé talið stöðugt. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við það að upplýsingar sem koma fram í lögregluskýrslu og þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun séu taldar grafa undan trúverðugleika hans. Kærandi bendir á að hann hafi ekki notið liðsinnis lögfræðings í viðtölunum. Þá hafi hann komið því á framfæri í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun að tiltekin atriði hafi verið skráð rangt í lögregluskýrslu og leiðrétt hluta þess. Hann hafi verið staðfastur í frásögn sinni frá þeim tíma og verði því að túlka allan vafa um trúverðugleika frásagnar hans honum í hag. Í þriðja lagi mótmælir kærandi því að hann hafi gefið misvísandi svör í viðtölum hjá Útlendingastofnun um atvik og atburði í heimaríki, þ. á m. um hlutverk sitt hjá [...], þá atburðarrás sem hafi átt sér stað fyrir árásina á húsnæði samtakanna, hver hafi staðið að baki árásinni, hvenær hún hafi átt sér stað og hversu margir hafi þá verið staddir á starfsstöðinni. Kærandi fái ekki annað séð en að fullt samræmi hafi verið í svörum hans í lögregluskýrslu og viðtölum hjá Útlendingastofnun. Af skýrri frásögn hans megi ráða að hann hafi starfað sem aðstoðarmaður tiltekinnar konu, Talíbanar hafi verið að verki, árásin hafi verið í apríl eða maí 2018 og að þrír starfsmenn hafi verið viðstaddir, þ.e. öryggisvörður, bókhaldari og kærandi sjálfur. Að lokum gerir kærandi athugasemd við staðhæfingu stofnunarinnar að hann hafi vikið sér frá því að gefa greinargóða lýsingu á framangreindri árás. Kæranda þyki sérkennilegt að gefið hafi verið til kynna að hann hafi vísvitandi reynt að koma sér hjá því að svara spurningum stofnunarinnar. Sennilegri skýring væri að annað hvort hann eða túlkurinn hafi misskilið spurningar stofnunarinnar.
Að öllu framangreindu virtu telur kærandi ljóst að meginreglu flóttamannaréttar um að túlka skuli vafa umsækjenda um alþjóðlega vernd í hag hafi ekki verið beitt í máli hans. Hvetur hann því kærunefnd útlendingamála til að fella úr gildi ákvörðun stofnunarinnar og veita honum alþjóðlega vernd hér á landi í samræmi við það sem rakið er að framan.
Þann 11. mars 2020 barst kærunefndinni viðbótargreinargerð kæranda þar sem hann gerir þrautaþrautavarakröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. september 2018. Frá þeim tíma séu liðnir rúmir 18 mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi telji að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki hans. Þá telur kærandi, með vísan til þess að hann hafi framvísað pakistönsku persónuskilríki sínu og að illmögulegt sé fyrir hann að afla vegabréfs eða nýrra kennivottorða, að b-liður skuli ekki standa því í vegi að hann fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi lagt fram pakistanskt persónuskilríki sitt með gildistíma til 31. september 2022. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann er með fullnægjandi hætti. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að hann sé pakistanskur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Country Reports on Terrorism 2017 – Foreign Terrorist Organizations: Tehrik-e Taliban Pakistan (U.S. Department of State, 19. september 2018);
- Country Information Note. Pakistan: Documentation. (UK Home Office, janúar 2020);• Country Policy and Information Note. Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
- Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
- Country Policy and Information Note Pakistan: Christians and Christian converts. Version 3.0. (UK Home Office, september 2018);• EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, október 2019);
- Freedom in the World 2019 – Pakistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
- Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2018 (FATA Research Centre, 15. janúar 2019);
- Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2019 (FATA Research Centre, 13. janúar 2020);
- Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);• Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
- Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
- Pakistan Security Report 2018 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 6. janúar 2019);
- Pakistan Security Report 2019 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 5. janúar 2020);
- State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
- The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 5. febrúar 2020);
- World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020);
- Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/);
- Vefsíða lögreglu í Khyber Pakhtunkhwa (http://kppolice.gov.pk/index.php);
- Vefsíða: Provincial Ombudsman Khyber Pakhtunkhwa (https://www.ombudsmankp.gov.pk/);
- Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).
Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með tæplega 208 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Khyber Pakhtunkhwa sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.
Þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga bera gögnin með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að Tehrik-e- Taliban (TTP) séu regnhlífarsamtök þrettán aðskildra talíbanahópa í Pakistan. Upphafleg markmið TTP, sem hafi verið stofnuð árið 2007, hafi verið að aðstoða afganskar hersveitir talíbana við að hrekja herafla Atlantshafsbandalagsins (NATO) frá Afganistan, koma á fót sjaría lögum í Pakistan og heyja heilagt varnarstríð gegn pakistönskum yfirvöldum (e. defensive jihad). Í því skyni hafi TTP staðið að baki ótal hryðjuverka- og stjórnmálatengdum árásum, þá sérstaklega á ættbálkasvæðum í norðvestur Pakistan, áður þekkt sem FATA svæði (Federal Administered Tribal Areas), og í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Yfirvöld í Pakistan hafi bannað TTP árið 2008, fryst eignir samtakanna og boðið verðlaunafé til höfuðs háttsettra leiðtoga þeirra. Friðarviðræður hafi átt sér stað á milli pakistanskra yfirvalda og TTP í byrjun árs 2014 en flosnað hafi upp úr þeim viðræðum í júní s.á.
Þá kemur í ofangreindum gögnum fram að þann 31. maí 2018 hafi FATA svæðið, þ.m.t. [...], hvar kærandi kveðst hafa starfað og haft búsetu áður en hann hafi lagt á flótta frá heimaríki, orðið hluti af Kohat sýslu (e. fronter region Kohat) í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Hryðjuverkaárásir TTP og annarra vígahópa, þ. á m. svæðisbundinna hópa Talíbana (e. local Taliban), hafi leitt til þess að öryggisástandið í Khyber Pakthunkhwa hafi víða verið ótryggt. Meirihluti árása hafi beinst að hersveitum yfirvalda en almennir borgarar hafi einnig verið skotmörk. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ráðið að það sé fylgst náið með öryggisástandinu í Khyber Pakthunkhwa, þ. á m. taki frjálsu félagasamtökin PAK Institute for Peace Studies (PIPS) og Fata Research Centre (FRC) saman ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um árásir í héraðinu. Skýrslur ofangreindra samtaka frá árunum 2018 og 2019 bera það með sér að öryggisástandið í héraðinu hafi tekið talsverðum framförum. Héraðið sé undir stjórn pakistanskra hersveita sem hafi, með 187 hernaðaraðgerðum á árunum 2011-2015, að mestu tekist að hrekja sveitir TTP til Afganistan þar sem bækistöðvar þeirra séu nú. Samkvæmt ofangreindum skýrslum FRC hafi það leitt til þess að hryðjuverka- og sprengjuárásum í héraðinu hafi fækkað verulega, þ. á m. hafi engar skráðar árásir verið í Kohat sýslu árin 2018 og 2019. Þá hafi mannföllum fækkað verulega, en 34 almennir borgarar í Khyber Pakhtunkhwa hafi látið lífið vegna slíkra árása árið 2019, samanborið við 75 árið áður og 197 árið 2017.
Jafnframt kemur fram að í Khyber Pakhtunkhwa sé starfandi umboðsmaður (e. Provincial Ombudsman Khyber Pakhtunkhwa) sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Samkvæmt viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun og greinargerð hans fyrir kærunefnd er umsókn kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Pakistan, vegna þess að hann óttist að Talíbanar muni taka hann af lífi. Annars vegar vegna starfa hans fyrir frjálsu félagasamtökin [...], sem Talíbanar telji að boði bandarískan hugsanahátt, og hins vegar vegna þess að yngri bróðir leiðtoga Talíbana hafi látið lífið í skotbardaga milli félagasamtakanna og Talíbananna. Skotbardaginn hafi farið fram við húsnæði samtakanna í [...], hvar kærandi hafi einnig búið, og hafi kæranda tekist að flýja. Þá telji kærandi að hann verði hvergi óhultur í heimaríki, enda hafi Talíbanar tengsl um landið allt.
Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 27. febrúar 2020. Var vitnisburður kæranda í meginatriðum sambærilegur þeim sem hann gaf í viðtölum hjá Útlendingastofnun.
Við málsmeðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ljósmynd sem hann kvað að væri af starfsmannaskírteini sínu hjá [...]. Þá lagði kærandi fram tvær teikningar, sem hann hafi teiknað af starfstöð sinni hjá samtökunum, ásamt greinargerð sinni til kærunefndar. Að mati kærunefndar eru ofangreind gögn ekki til þess fallin að leggja grunn að frásögn kæranda. Við rannsókn málsins fann kærunefnd ekki nein gögn eða upplýsingar um umrædd samtök. Óskaði kærunefnd því eftir því í tölvupósti, dags. 20. janúar 2020, að kærandi framvísaði umræddu starfsmannaskírteini og legði fram upplýsingar um [...], t.d. slóð á heimasíðu samtakanna. Í svörum sem bárust frá kæranda þann 24. janúar s.á. kemur m.a. fram að kærandi hafi ekki tök á að fá skírteinið sent hingað til lands. Það sé á heimili foreldra hans í Pakistan en þau séu ólæs og hann eigi engan annan að sem geti sent skírteinið. Þá kemur fram að kærandi haldi, m.a. í ljósi þess að Facebook síðu [...] hafi verið lokað, að samtökin hafi hætt starfsemi eftir ofangreinda árás.
Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi aftur spurður hvort hann gæti framvísað umræddu skírteini eða öðrum gögnum til stuðnings málsástæðum hans. Kærandi bar því við, líkt og hann gerði í viðtali hjá Útlendingastofnun og ofangreindum svörum til kærunefndar, að hann gæti ekki framvísað skírteininu, sem væri heima hjá foreldrum hans í Pakistan, sökum ólæsis þeirra. Þá kvaðst hann ekki geta framvísað öðrum gögnum til stuðnings frásögn sinni, svo sem ljósmyndum af sér í starfi hjá [...], þar sem hann hafi glatað símanum sínum á flótta frá heimaríki.
Að mati kærunefndar er ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að hann afli trúverðugra gagna er leggi nægilegan grunn að málsástæðum hans. Kærandi hefur ekki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, lagt fram eða vísað til gagna eða upplýsinga sem renna stoðum undir frásögn hans um starfsemi [...] í bænum [...], [...] sýslu, í Khyber Pakthunkhwa héraði og störf kæranda fyrir samtökin þar. Þá fær frásögn kæranda af ofangreindri árás ekki stoð í gögnum málsins um skráðar árásir í [...] sýslu árið 2018 og hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að hún hafi átt sér stað. Með hliðsjón af framangreindu er það því mat kærunefndar að frásögn kæranda af málsatvikum sem hann kveður að leitt hafi til flótta hans frá heimaríki sé ótrúverðug og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt framansögðu verður því ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu TTP eða svæðisbundinna hópa Talibana. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.
Hvað varðar vísun kæranda til ákvarðana Útlendingastofnunar sem hann telur sambærilegar sínu máli þá tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd, m.a. með vísan til niðurstöðu framangreinds trúverðugleikamats, að málsatvik og aðstæður aðila þeirra mála séu ekki sambærilegar þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Þrátt fyrir átök í Khyber Pakhtunkhwa, héraði sem kærandi kveður vera heimahérað sitt, undanfarin ár er það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í héraðinu séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Pakistan eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfyllir heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa verið með verki í síðu vegna nýrnasteina en vera heilsuhraustur að öðru leyti. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, að teknu tilliti til mats á trúverðugleika frásagnar kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 11. september 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 8. apríl 2020, eru liðnir tæpir 19 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi framvísaði pakistönsku persónuskilríki þegar hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Líkt og að ofan er rakið var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem væru til þess fallin að sanna á honum deili og væri auðkenni hans því óljóst. Þann 1. apríl 2020 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá lögreglu varðandi persónuskilríki kæranda, þ. á m. hvort lögregla hefði haldlagt það. Í svari lögreglu, þann sama dag, kom fram að kærandi hefði framvísað skilríkinu við umsókn en það hafi ekki verið haldlagt. Lögregla haldleggi eingöngu skilríki sem umsækjandi getur ferðast á sem og skilríki sem sýna dvalarleyfi í öðru Schengen ríki ef slíkt er til staðar. Undantekning á þessu væru mál hjá lögreglunni sem hæfust sem sakamál en ekki umsókn um alþjóðlega vernd, en slíkt eigi ekki við í tilfelli kæranda. Í kjölfarið skoraði kærunefnd á kæranda að leggja fram skilríkin, með tölvupósti kærunefndar dags. 1. apríl 2020. Veittur var frestur til 7. apríl sl. Í svari sem barst kærunefnd, þann sama dag, frá talsmanni kæranda kemur fram að ljóst sé að skilríkið sé glatað og það finnist hvergi. Kærandi vilji ekkert frekar en að geta lagt fram vottorðið enda sé hann fullmeðvitaður um mikilvægi þess. Það sé hins vegar ekki mögulegt. Að mati kæranda geti yfirvöld ekki látið þessi mannlegu mistök, sama hvers þau séu, koma niður á kæranda. Þá er í svari kæranda vísað til 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga en þar sé mælt fyrir um að heimilt sé að víkja frá skilyrðum 3. mgr., og þar með 2. mgr., t.d. ef ekki sé mögulegt fyrir útlendinga, sem að öðru leyti sé samvinnuþýður, að afla gagna frá heimalandi sínu, t.d. um það hver hann sé. Kærandi hafi verið samvinnuþýður við vinnslu málsins og illmögulegt sé fyrir hann að afla nýrra skilríkja að svo stöddu. Því telji kærandi að b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skuli ekki standa því í vegi að kærandi fái útgefið dvalarleyfi í samræmi við ákvæðið.
Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru rakin nokkur viðbótarskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er 4. mgr. 74. gr. skýrð þannig að hún geti átt við „ef ekki er mögulegt fyrir útlending, sem að öðru leyti er samvinnuþýður, að afla gagna frá heimalandi sínu, t.d. um það hver hann er.“ Skilyrði laganna um að ekki megi leika vafi á því hver umsækjandi sé er hins vegar ekki í 3. mgr. laganna; það ákvæði er í 2. mgr. Af þessu má skilja að höfundar athugasemdanna hafi átt von á því að undanþágan í 4. mgr. 74. gr. hafi einnig átt að eiga við um auðkenni umsækjenda. Í frumvarpi til laga um útlendinga sem lagt var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi þess (þingskjal 917, 541. mál) er ákvæði sambærilegt 2. mgr. 74. gr. núgildandi laga. Í því ákvæði, sem var í 87. gr. þess frumvarps, er heimild til að víkja frá skilyrðum sem eru sambærileg þeim sem koma fram í 2. mgr. 74. gr. núgildandi laga um útlendinga. Það ákvæði frumvarpsins átti hins vegar ekki við um viðbótarskilyrðin sem telja má sambærileg við 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er þess einnig að geta að í 2. mgr. 77. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um bráðabirgðadvalarleyfi, er heimild til að víkja frá tilteknum skilyrðum 1. mgr. 77. gr. sem að mestu eru sambærileg þeim sem fram koma í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu má draga þá ályktun að mistök kunna að hafa verið gerð við setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 og að undanþáguheimildin í 4. mgr. 74. gr. hafi átt að ná til 2. mgr. greinarinnar. Engu að síður verður ekki litið fram hjá því að texti laganna er skýr um það að undanþáguheimildin nær eingöngu til 3. mgr. og engin heimild er til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að skilríki kæranda, sem hann lagði fram við umsókn, er ekki í höndum stjórnvalda. Að mati kærunefndar standi það kæranda nær að leggja það fram við meðferð málsins, eða sýna fram á hver hann sé, með gögnum. Kærandi hefur ekki gert það þrátt fyrir að hafa verið leiðbeint um það af hálfu kærunefndar. Engin skilríki eða önnur gögn liggja fyrir hjá kærunefnd sem eru til þess fallin að varpa ljósi á hver kærandi sé og verður ekki fallist á það með kæranda að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að litið verði framhjá þeirri staðreynd. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sannað á sér deili, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga og 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga og 37. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.
Í ljósi framangreinds er það því mat kærunefndar að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. séu því ekki fyrir hendi í máli kæranda, en kærunefnd telji vafa leika á því hver hann sé. Það er því niðurstaða kærunefndar að kæranda verði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 11. september 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi COVID-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott.
Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Áslaug Magnúsdóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Árni Helgason