Ríkið sýknað í tóbaksmáli
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu tveggja erlendra tóbaksfyrirtækja, British American Tobacco Nordic og British American Investment, en þau létu reyna á lögmæti ákvæða í 7. grein laga um tóbaksvarnir. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu meðal annars, að lagagreinin bryti hvorki í bága við stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu. Héraðsdómur Reykjavíkur komst sömuleiðis að þeirri niðurstöðu, að þegar horft væri til vísindalegrar þekkingar á skaðsemi tóbaksneyslu á heilsu manna, fjölda sjúkdóma og dauðsfalla vegna reykinga, verði að telja takmarkanirnar sem felast í 6. mgr. 7. gr. tóbaksvarnalaga réttlætanlegar og að þær samrýmist þeim þremur þáttum meðalhófsreglu sem tóbaksfyrirtækin töldu þær brjóta gegn.