Nýjar WHO reglur til að hindra útbreiðslu sjúkdóma
Reglugerðin hefur það að markmiði að hindra alþjóðlega útbreiðslu smitsjúkdóma og sjúkdóma af völdum eitur- og geislavirkra efna án þess að valda ónauðsynlegri röskun á umferð manna um heiminn og í viðskiptum. Reglugerðin tekur formlega gildi í heiminum tveimur árum eftir samþykkt hennar. Nýmæli í henni byggjast á reynslunni sem menn hafa af þróun mála á liðnum þremur áratugum. Þörfin á nýjum alþjóðlegum reglum og samstilltum viðbrögðum á heimsvísu varð þjóðum heims ljós þegar bráðalungnabólgan (HABL) reið yfir 2003 og fuglainflúensan hófst í Asíu 2004. Sú reglugerð sem gilt hefur tók einungis til kóleru, svarta dauða og gulusóttar en tók áður einnig til bólusóttar, rykkjasóttar og taugaveiki. Nýju reglurnar taka hins vegar til allra sótta sem breiðst geta út og ógnað þjóðum heims. Endurskoðun alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar hefur staðið yfir árum saman. Erfiðar samningaviðræður fulltrúa ríkjanna 192 sem aðild eiga að WHO hafa staðið yfir frá nóvember 2004 um nýju reglugerðina. Fulltrúar Íslands í þeim samningum voru Haraldur Briem sóttvarnalæknir og Sólveig Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Nánari upplýsingar um alþjóðaheilbrigðisreglugerðina er að finna á vefsíðu WHO: http://www.who.int/csr/ihr/en/index.html