Fréttapistill vikunnar 21. - 27. maí.
Fyrsti ársfundur Lýðheilsustöðvar - úthlutun úr Forvarnarsjóði.
Lýðheilsustöð gerði á ársfundi sínum í morgun grein fyrir starfseminni fyrsta starfsár stöðvarinnar. Lögð var fram ársskýrsla á fundinum og þar var einnig kynnt hverjir hrepptu styrki úr Forvarnasjóði. Um 80 manns sóttu ársfundinn og flutti Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ávarp fyrir hönd ráðherra sem var utanbæjar. Anna Elísabet Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, gerði grein fyrir starfsemi stöðvarinnar og kynnt voru sérstaklega þrjú verkefni Lýðheilsustöðvar: MUNNÍS – tannheilsa, sem Hólmfríður Guðmundsdóttir, yfirverkefnisstjóri tannverndar, kynnti, Næring – málefni í brennidepli sem Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar, kynnti, og Geðrækt – „Það er engin heilsa án geðheilsu“ sem Guðrún Guðmundsdóttir verkefnisstjóri, kynnti. Á ársfundinum fóru fram úthlutanir úr Forvarnarsjóði og var rúmum 45 milljónum króna úthlutað til fjölbreyttra verkefna.
Meira um ársfundinn: http://www.lydheilsustod.is/frettir/afstofnuninni/nr/1071
Rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustunni
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sótti í vikunni ráðstefnu evrópskra heilbrigðismálaráðherra um rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustunni. Ráðstefnan var í Tromsö, haldin af norskum heilbrigðisyfirvöldum í samvinnu við luxemborgsk. Um þrjátíu heilbrigðismálaráðherrar sóttu ráðstefnuna. Til umræðu var stefnumótun Evrópusambandsins á sviði rafrænnar heilbrigðisþjónustu sem samþykkt var í fyrra (Action Plan for a European e-Health Area). Hún hefur að markmiði að auka öryggi sjúklinga, bæta þjónustu við almenning, auk skilvirkni og staðla þjónustuna sem veitt er á þessu sviði í Evrópu. Fram kom að bæði þjóðir Evrópu og á vettvangi Evrópusambandsins hafa rafræn samskipti á vettvangi heilbrigðisþjónustu verið sett á oddinn hvort sem um er að ræða rafræna sjúkraskrá, nettengingu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og miðlun gagna, eða fjarlækningar svo dæmi séu tekin. Fjölmargir sérfræðingar héldu fyrirlestra á ráðstefnunni og fyrirtæki sýndu rafrænar lausnir á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustu sem menn nýta sér víða um heim.
Rekstrarafkoma FSA umtalsvert betri 2004 en árið áður
Ársskýrsla Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) fyrir árið 2004 liggur nú fyrir. Þar kemur fram að rekstrarafkoma sjúkrahússins batnaði til muna á árinu og að í heild var afkoma sjúkrahússins um 40 milljónum króna hagstæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Gjöld umfram fjárveitingar og sértekjur námu 2 milljónum króna sem er 0,1% frávik miðað við fjárlög.
Nánar...
Ný heimasíða Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur tekið í notkun nýja heimasíðu: www.hsu.is. Á heimasíðunni verða hagnýtar upplýsingar fyrir alla, sem þurfa á þjónustu stofnunarinnar að halda, auk upplýsinga um starfsemina. Upplýsingar eru um tímapantanir á öllum heilsugæslustöðvum á Suðurlandi, sem eru 8 talsins.
www.hsu.is
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
27. maí, 2005.