Alnæmisfaraldurinn ógnar þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Árangurinn í baráttunni við alnæmisfaraldurinn hefur verið markverður, en ekki fullnægjandi. Þetta sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á alnæmisráðstefnu samtakanna sem lýkur í New York í dag og vísaði í þessu sambandi til þess að nokkrum þjóðum heims hefur tekist að ná tökum á útbreiðslu sjúkdómsins þótt faraldurinn breiddist út um álfur heims með ógnarhraða. Kom fram á ráðstefnunni að alnæmisfaraldurinn væri ein megin skýringin á því að menn drægju nú í efa að þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna næðust 2015 eins og menn höfðu einsett sér. Um 12 af hundraði smitaðra í fátækari löndum heims fá meðferð sem mögulegt er að veita. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem sækir ráðstefnuna fyrir hönd Íslands ásamt þeim Davíð Á. Gunnarssyni, ráðuneytisstjóra, og Haraldi Briem, sóttvarnalækni, tók þátt í hringborðsumræðum í gær. Þar var viðfangsefnið að ræða forvarnir, mannréttindi, meðferð, umönnun og stuðning við smitaða. Sérstakt umfjöllunarefni var staða barna sem orðin eru foreldralaus vegna alnæmisfaraldursins, en þeim fjölgar ört.