Hoppa yfir valmynd
6. júní 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustunni

Rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustunni (eHealth2005)

Evrópsk ráðherraráðstefna um rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustunni var haldin í Tromsö í Noregi fyrir skemmstu. Á ráðstefnunni (e. Health 2005) beindu Norðmenn, sem skipulögðu hana í samvinnu við Luxemborgara, sjónum sínum að rafrænum samskiptum og lýðheilsu. Spurt var hvernig greiða mætti götu borgaranna sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar, hvernig mætti auka öryggi sjúklinga með hjálp upplýsingatækninnar og hvernig auka mætti afköstin í heilbrigðisþjónustunni með hjálp nýrrar samskiptatækni.

Ráðstefna þessi markaði nokkur tímamót að því leyti að þarna koma glöggt fram að umræðan um rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustunni sem fram undir þetta hefur fyrst og fremst verið af tæknilegum toga er nú orðin pólitískari í þeim skilningi að stjórnmálamenn hafa sett málið á dagskrá og sjúklinginn sem miðpunkt.

Þetta er í samræmi við það sem gerst hefur hér á landi með endurnýjun stefnumótunar í upplýsingamálum til ársins 2007. Samkvæmt þeirri áætlun er við það miðað á heilbrigðissviði, að heilbrigðisnet tengi saman allar heilbrigðisstofnanir, að rafræn sjúkraskrá verði að veruleika, að samskipti heilbrigðisstarfsmanna og Tryggingastofnunar verði rafræn að fullu og að upplýsingatækni geti nýst öllum borgurum landsins í samskiptum við heilbrigðiskerfið. Hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagt áherslu á að þróun rafrænna lausna í heilbrigðisþjónustunni verði hraðað.

Norðmenn kynntu sérstaklega fjarlækningar í tengslum við ráðstefnuna, en Norðmenn hafa komið á fót sérstakri fjarlækningamiðstöð í Tromsö. Hefur reynslan fjarlækningum í hinum dreifðari byggðum Noregs verið sú að það er einfaldara fyrir sjúka að ná sambandi við lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn, menn hafa minna fyrir því að komast í samband við sérfræðilækna og það hefur reynst einfaldara að meta þörf sjúklinga fyrir sérstaka meðferð með því að nýta fjarlækningar. Er þessi tegund heilbrigðisþjónustu þróuð orðin til dæmis á milli sjúkrahússins í Longyearbyen á Svalbarða og sjúkrahússins í Tromsö fyrir utan samskiptin sem sjúkir geta nú haft frá heimilum sínum beint til lækna.

Á ráðstefnunni kom meðal annars fram að Norðmenn hafa tengt saman öll sjúkrahús og flestar heilbrigðisstofnanir aðrar, að þeir hyggjast stíga stór skref fram á við í þróun rafrænnar sjúkraskrár og að þeir hyggjast á næsta ári taka í notkun nýtt sjúkrahús í Niðarósi þar sem samskipti verða rafræn og þráðlaus. Þarna kom líka fram að heilbrigðisyfirvöld í Austurríki hafa látið útbúa rafræna heilsu-og tryggingakort fyrir landsmenn sína og að Evrópusambandið hygðist á næstu árum setja rafræn samskipti í heilbrigðisþjónustu aðildarlandanna á oddinn. Athygli vöktu þau fjölmörgu smáfyrirtæki og meðalstóru sem bjóða nú upp á fjölbreyttar lausnir á þessu sviði. Þá kom einnig fram að símafyrirtæki, eins og Telenor leggja á það nokkra áherslu að hanna samskiptalausnir á þessu sviði.

Nánar um eHealth2005 í Tromsö: http://www.ehealth2005.no/index.php?cat=37953a



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta