Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna falið að fjalla um heimilisofbeldi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að fela verkefnisstjórn um heilsufar kvenna að skoða sérstaklega nokkra þætti er varða heilbrigðisþjónustu við konur sem eru fórnarlömb heimilisofbeldis og vinna að úrbótum. Í bréfi ráðherra til Jónínu Bjartmarz, alþingismanns og formanns verkefnisstjórnar segir: “Í fyrsta lagi felur ráðherra verkefnisstjórninni að skoða leiðir til að auka fræðslu til heilbrigðisstétta á þessu sviði í samráði við forsvarsmenn heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana. Í öðru lagi að skoða leiðir til að bæta skráningu upplýsinga um heimilisofbeldi í sjúkraskrár og í þriðja lagi að kanna hvort gerð klínískra leiðbeininga sé æskileg leið til að styðja við starfsfólk í heilbrigðisþjónustu sem í starfi sínu þarf að fást við erfið mál af þessu tagi, efla þekkingu fagfólks og almennings og bæta þannig þjónustu og stuðning við þolendur heimilisofbeldis. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra telur æskilegt að ýta undir gagnrýna umræðu í samfélaginu um heimilisofbeldi sem heilbrigðisvandamál með forvarnir að markmiði. Æskilegt er að verkefnisstjórn um heilsufar kvenna leiti samstarfs við Lýðheilsustöð til að fjalla um möguleika á forvörnum á þessu sviði og hafi jafnframt samráð við þá fjölmörgu aðila sem láta sig málefnið varða.”