Nýmæli í niðurgreiðslum vegna tannlæknakostnaðar
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur sett reglugerð um þátttöku hin opinbera í kostnaði við tannlækningar. Reglugerðin er sett í framhaldi af lagabreytingu sem Alþingi samþykkti í maí. Í reglugerðinni felst að Tryggingastofnun ríkisins verður nú heimilt að greiða kostnað aldraðra og öryrkja með 75% örorkumat á bilinu 40 til 80 þúsund krónur á hverju almanaksári vegna fastra tanngerva. Þetta er nýmæli þar sem fram að þessu hefur ekki verið heimilt að greiða niður kostnað vegna fastra tanngerva. Auk þessarar breytingar verður TR nú heimilt að greiða niður tannlæknakostnað til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar sýkinga í tönnum og tannvegi á heilsu ónæmisbældra sjúklinga. Niðurgreiðslan tekur einkum til sjúklinga með hvítblæði eða krabbamein á höfuð- eða hálssvæði, væntanlegra líffæraþega, sjúklinga sem þurfa mergskipti og annarra sambærilegra sjúklinga. Reglugerðin tekur gildi við birtingu.