Sérhæfð meðferðardeild tekin til starfa á Kleppi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, kynnti sér í morgun starfsemi nýrrar sérhæfðrar meðferðardeildar sem tekin er til starfa á Kleppi. Á deildinni er ætlunin að veita þeim sjúklingum þjónustu sem þurfa á langtíma innlögn og sérhæfðri meðferð að halda og hefur ekki verið hægt að veita meðferðina á öðrum deildum eða sviðum geðsviðs LSH. Gert er ráð fyrir að innlagnartími geti verið þrír til tólf mánuðir. Auk sérhæfðu meðferðardeildarinnar hefur verið komið á fót þverfaglegu vettvangsteymi á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúsi við göngudeildina á Kleppi. Markmiðið með þessu teymi er að auka þjónustuna við þá sjúklinga sem virðist eiga erfitt með að nýta sér þá þjónustu sem til þessa hefur verið í boði fyrir langveika geðsjúka. Hlutverk teymisins er að stýra og skipuleggja þessa þjónustu. Í ávarpi sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hélt í heimsókn sinni sagði hann að sérhæfða meðferðardeildin markaði nokkur tímamót í geðheilbrigðisþjónustu og sama mætti segja um vettvangsteymið, sem svo væri nefnt.
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segist binda miklar vonir við þjónustuna sem geðsvið LSH ætlar að veita á Kleppi: “Sem heilbrigðismálaráðherra bind ég miklar vonir við þá starfsemi sem hér er hafin. Undanfarin misseri höfum við af fremsta megni leitast við að setja geðheilbrigðismálin í forgang og einkum og sér í lagi þá þætti þar sem þörfin hefur reynst knýjandi. Það er skylda okkar sem samfélags að veita öfluga þjónustu á þessu sviði og það er skylda okkar gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga að veita þeim eins góða þjónustu og völ er á. Bæði vettvangsteymið og sérhæfða deildin er liður í að styrkja getu geðheilbrigðisþjónustunnar til að takast á við verkefni sem eru mjög vandasöm. Í mörgum tilvikum erum við að tala um erfiðustu verkefnin sem við fáumst við á heilbrigðissviði. Hér eru að verða nokkur tímamót í þjónustunni við geðsjúka, eins og ég sagði í upphafi máls míns. Ég óska ykkur velgengni í störfum ykkar.”