Ráðherrafundur í Þórshöfn í Færeyjum
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, situr í dag og á morgun árlegan fund norrænna heilbrigðis-og félagsmálaráðherra sem haldinn er í Þórshöfn í Færeyjum. Á dagskrá fundarins eru tvö megin málefni til umræðu. Í fyrsta lagi starfsemi frjálsra félagasamtaka á sviði velferðarmála á Norðurlöndum og frjálst framtak einstaklinga, félagasamtaka og stofnana sem starfandi eru á þessu sviði. Í öðru lagi ræða ráðherrarnir framtíð samvinnu Norðurlandanna á sviði heilbrigðis- og félagsmála. Auk þessa ræða norrænu ráðherrarnir áfengisstefnu Norðurlandanna, norræna viðbragðsáætlun á sviði smitsjúkdóma og nánari samvinnu á þessu sviði, og gæði á heilbrigðissviði Norðurlandanna.