Hoppa yfir valmynd
3. desember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 85/2020 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 85/2020

 

Frístundabyggð: Bann við lausagöngu katta.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2020, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, hér eftir nefnt gagnaðili.   

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 24. ágúst 2020, og athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 7. september 2020, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 3. desember 2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðendur eru eigendur frístundahúss á lóð […] með fastanúmer lóðar […] í landi D, E. Ágreiningur er um ákvörðun gagnaðila um að banna lausagöngu katta í frístundabyggðinni.

Krafa álitsbeiðenda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðili hafi ekki heimild að lögum til að banna lausagöngu katta með breytingu á lögum hans þannig að bindandi sé fyrir félagsmenn.

Til vara krefjast álitsbeiðendur viðurkenningar á því að gagnaðili hafi ekki heimild að lögum til að banna lausagöngu katta með breytingum á lögum félagsins þannig að bindandi sé fyrir félagsmenn sem voru eigendur lóða þegar nefndar breytingar voru samþykktar.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðendur hafi keypt eign sína í ágúst 2018 og flutt inn ári síðar. Þau búi þar allt árið. Þegar eignin hafi verið keypt hafi fasteignasalinn staðfest að engar hömlur væru á lausagöngu katta í sveitarfélaginu eða af hálfu frístundahúsafélagsins. Fasteignasalinn sé einn af eigendum lóða að D og meðlimur félagsins. Á þessum tíma hafi álitsbeiðendur verið forráðamenn þriggja katta. Skömmu eftir að þau hafi flutt inn hafi eigandi frístundahúss í nágrenni við hús þeirra komið að máli við þau og lýst þeirri skoðun sinni að lausaganga katta væri óheimil.

Til að draga úr hugsanlegum óþægindum nágranna álitsbeiðenda vegna kattanna hafi þau gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Kettirnir séu geldir og hafi fyrir vikið minni löngun til að veiða
  • Kettirnir séu örmerktir
  • Kettirnir séu ormahreinsaðir árlega
  • Útivistartími kattanna sé takmarkaður við 12 á hádegi og 19 um varptímann
  • Kettirnir séu með fuglaverndarkraga frá miðjum maí út ágúst en slíkir kragar minnki veiðar um 87% samkvæmt rannsóknum
  • Kettirnir séu með bjöllur á ól
  • Klær á framloppum séu klipptar á meðan varp sé í hámarki (geti ekki klifrað í trjám)
  • Kettirnir séu með GPS ól en hún sýni að kettirnir dvelji á litlum hluta hverfisins og um 90% þess tíma sem þeir séu úti séu þeir á lóð álitsbeiðenda, sem sé rúmlega 6.000 fermetrar, og einni lóð til allra hliða
  • Kettirnir séu vel nærðir og hafi fyrir vikið minni löngun til veiða

Kettirnir séu 10 ára gamlir en kettir á þessum aldri hafi almennt lítinn áhuga á veiðum.

Á framhaldsaðalfundi gagnaðila 24. júní 2020 hafi verið samþykkt með 16 atvæðum af 22 viðstöddum félagsmönnum að bæta við grein 5 A í lög félagsins. Greinin hljóði svo: Lausaganga dýra, katta, hunda og annarra gæludýra, er með öllu óheimil. Stjórn gagnaðila hafi hvorki sent félagsmönnum fundargerð né tilkynningu um lagabreytingar.

Álitsbeiðendur hafi haft umráð katta um langa hríð. Kattahald sé þeim tilfinningalega mikilvægt og sé óaðskiljanlegur hluti af þeirra heimili sem njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands. Friðhelgi einkalífsins megi einungis skerða með sérstakri lagaheimild beri brýna nauðsyn til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrár.

Umrætt ákvæði í lögum gagnaðila feli í sér inngrip í friðhelgi heimilis þeirra. Kettirnir hafi alltaf verið útikettir og ekki sé mögulegt á þessum tíma ævi þeirra að loka þá inni. Samkvæmt 5. mgr. 24. gr. reglugerðar um velferð dýra, nr. 80/2016, sé óheimilt að tjóðra ketti „nema í undantekningartilvikum og þá einungis í brjósthól, undir eftirliti og í skamma stund“. Óraunhæft sé að girða lóð álitsbeiðenda þannig að kettir komist ekki út af lóðinni en lóðin sé eins og áður hafi sagt 6.000 fermetrar. Bann við lausagangi katta jafngildi því í raun banni við kattahaldi álitsbeiðenda.

Af ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar leiði að heimildir laga til að setja reglur um gæludýrahald, sem feli í sér inngrip í friðhelgi heimilis, þurfi að vera skýrar og þær reglur sem settar séu á grundvelli þeirra heimilda þurfi að vera nauðsynlegar vegna réttinda annarra. Þá sé falið í þessum áskilnaði krafa um meðalhóf, þ.e. að reglur sem feli í sér inngrip megi ekki ganga lengra en nauðsynlegt sé til að ná því lögmæta markmiði sem stefnt sé að.

Þótt bann við lausagöngu katta í tilviki álitsbeiðenda teljist ekki inngrip í friðhelgi heimilis þurfi félagsskapur af þeim toga sem gagnaðili sé að hafa skýra lagaheimild til að setja reglur um svo persónuleg málefni félagsmanna svo sem kattahald álitsbeiðenda. Slík heimild sé ekki fyrir hendi.

Heimildir til þess að setja reglur um gæludýrahald, þar með talið bann eða takmörkun þess, sé fyrst og fremst í höndum sveitarfélaga, sbr. meðal annars 1. tölul. 1. mgr. 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá sé húsfélögum með sérstakri lagaheimild gefið vald til að setja reglur um dýrahald, sbr. 33. gr. a-d laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Engin slík heimild sé í lögum, nr. 75/2008.

Í 19. gr. laga nr. 75/2008 sé fjallað um hlutverk frístundahúsafélags. Að mati álitsbeiðenda feli 6. tölul. ákvæðisins ekki í sér heimild til að setja reglur um gæludýrahald, hvort sem um sé að ræða almennt eða eins og aðstæðum sé háttað í tilviki álitsbeiðenda. Í þessu sambandi sé vakin athygli á því að á sama fundi og umræddri 5. gr. A hafi verið bætt við lög gagnaðila hafi einnig verið bætt við sérstakri heimild til að setja almennar samskipta- og umgengnisreglur. Samskipta- og umgengnisreglur gagnaðila hafi einnig verið samþykktar á fundinum og fjalli þær um akstur torfærutækja, meðferð elds, fjarstýrð loftför og innihalda einnig almennar reglur um umgengni, hávaða, útilýsingu og fleira. Það sé því ljóst að á þessum tíma hafi það verið skilningur gagnaðila að heimild 6. tölul. 19. gr. laga nr. 75/2008 til að setja „almennar samskipta- og umgengnisreglur“ taki ekki til banns á lausagöngu katta, enda sé bannið ekki byggt á því ákvæði.

Í ljósi þess að skýra heimild þurfi til að banna lausagöngu katta sé það því hafið yfir vafa að heimild gagnaðila til að setja reglur sem banni lausagöngu katta sé ekki að finna í lögum um frístundabyggð.

Þá sé einnig vakin athygli á því að tilgangur gagnaðila sé, samkvæmt 2. gr. laga hans, „að gæta hagsmuna félaga, koma fram fyrir þeirra hönd sameiginlega og annast sameiginlegar framkvæmdir á sameign D.“ Ekkert í tilgangi gagnaðila leggi grunn að heimild hans til að banna lausagöngu katta.

Þá feli fortakslaust bann á lausagöngu katta í sér brot á meðalhófsreglu. Markmið gagnaðila með banninu virðist vera að takmarka umferð dýra um lóðir þeirra sem ekki vilji slíka umferð, en 16 af 38 eigendum hafi greitt tillögunni atkvæði sitt. Eins og áður hafi verið rakið hafi álitsbeiðendur gripið til umfangsmikilla aðgerða til að takmarka för katta sinna inn á lóðir nágranna. Í langflestum tilfella dugi þær aðgerðir til að koma í veg fyrir för kattanna inn á lóðir nágranna. Ekkert bendi til annars en að ágangur dýra inn á lóðir nágranna sé fyrst og fremst af hálfu villtra dýra svo sem ránfugla sem ráðist á fuglalíf, villikatta og katta úr nágrenninu utan D. Bann gagnaðila við lausagöngu katta gangi því alltof langt gagnvart álitsbeiðendum og sé ekki líklegt til að ná markmiði sínu vegna ágangs villts dýralífs, sem sé einmitt hluti af því að búa utan þéttbýlis og þáttur í þeim lífsgæðum sem flestir sem dvelji eða búi á svæðum eins og D sækist eftir. Nær væri að setja hófstilltar reglur um kattahald, svo sem skyldu til að örmerkja og ormahreinsa ketti, hafa þá með bjöllu og fuglaverndarkraga á varptíma, svo dæmi séu nefnd. Lagaheimild til setningar slíkra reglna sé aftur á móti hjá sveitarfélaginu en ekki gagnaðila.

Til stuðnings varakröfu sinni sé til þess vísað að álitsbeiðendur hafi verið í góðri trú um að geta búið á heimili sínu í D með kettina. Á þeim tíma sem þau hafi keypt húsið hafi engar reglur verið í gildi sem hafi takmarkað frelsi þeirra til að halda ketti, umfram almennar reglur laga um reglugerða um velferð dýra. Þetta atriði hafi verið sérstaklega kannað hjá fasteignasala og hjá sveitarfélaginu. Þá hafi engar þinglýstar kvaðir varðandi dýrahald verið á eigninni. Álitsbeiðendur hafi lagt út í verulegan kostnað við að stækka, lagfæra og endurbyggja heimili sitt, lagt hitaveitu og staðið í ýmsum framkvæmdum tengdum gróðurvernd og ræktun. Neyðist þau til að flytja muni það hafa verulegt fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir þau og verulegt umrót fyrir allt þeirra líf.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að félagið hafi verið stofnað árið 1996. Álitsbeiðendur hafi fest kaup á sumarbústað sínum árið 2018 og í kjölfarið gerst félagsmenn í gagnaðila. Þau hafi flutt inn í sumarbústaðinn árið 2019 og haldi þar þrjá ketti. Í kjölfar þess hafi aðrir sumarbústaðaeigendur í landinu orðið varir við að kettirnir gengu lausir um sumarbústaðalandið sem sé afar óheppileg þar sem þeir spilli fuglavarpi á svæðinu.

Tillaga um að banna lausagöngu dýra, katta, hunda og annarra gæludýra hafi verið lögð fyrir stjórnarfund gagnaðila 24. júní 2020. Tillagan hafi verið samþykkt og ákvæðinu bætt inn í lög gagnaðila, sbr. ákvæði 5. gr. A. Við sama tækifæri hafi verið samþykkt tillaga um að bæta inn í lögin ákvæði 5. gr. B, en samkvæmt því setji félagið samskipta- og umgengnisreglur fyrir félagssvæðið. Í samskipta- og umgengnisreglum gagnaðila segi meðal annars að vernda skuli fuglalíf á svæðinu, að ökumenn og umráðamenn torfærutækja skuli fara um svæðið með tillitssemi, að huga skuli að gróðri á lóðum félagsmanna með tilliti til brunahættu og að drónum skuli ekki flogið nær byggingum en 50 metra, nema með leyfi umráðenda.

Fundurinn hafi verið boðaður með lögmætum hætti og tillagan verið tilkynnt í tæka tíð fyrir fundinn samkvæmt lögum félagsins, sbr. 6. gr. laganna. Gagnaðili sé réttur aðili að lögum til að setja félagsmönnum almennar samskipta- og umgengnisreglur innan frístundabyggðarinnar

Gagnaðili sé rekinn samkvæmt lagaskyldu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008. Samkvæmt 19. gr. laganna sé hlutverk hans að taka ákvarðanir, meðal annars um almennar samskipta- og umgengnisreglur innan frístundabyggðarinnar, sbr. 6. tölul. ákvæðisins. Það falli því undir lögbundnar skyldur gagnaðila að fjalla um umgengni innan frístundabyggðarinnar og setja félagsmönnum og öðrum reglur þar að lútandi. Samkvæmt þessu hljóti reglur sem gagnaðili setji að gilda innan frístundabyggðarinnar, svo framarlega sem þær séu settar með lögmætum hætti.

Gagnaðili telji að ákvæði sem banni lausagöngu dýra, svo sem hunda og katta, falli hiklaust undir þær reglur sem honum sé falið að setja, sbr. 6. tölul. 19. gr. laga nr. 75/2008. Það sé ekkert í lögunum sjálfum sem takmarki efni almennra samskipta- og umgengnisreglna, svo sem að það falli ekki undir almennar umgengnisreglur að takmarka lausagöngu dýra. Það verði ekki gagnályktað frá ákvæðum 33. gr. a-d laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, um að gagnaðili hafi ekki þessa heimild. Þá verði heldur ekki séð að gagnaðila hafi skort heimild til að banna lausagöngu katta með ákvæði í lögum félagsins, frekar að ákvæðið komi fram í sérstökum samskipta- og umgengnireglum, eins og álitsbeiðendur haldi fram. Fyrir vikið verði ekki séð að hægt sé að fallast á kröfu þeirra í málinu.

Samkvæmt 9. tölul. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2008 skuli aðalfundur félags í frístundabyggð fjalla um efni sem tiltekin séu í fundarboði. Stjórn félagsins geti boðað til funda eins oft og þurfa þyki, sbr. 23. gr. laganna, en aðalfund skuli boða með minnst tveggja vikna fyrirvara, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna. Í fundarboði skuli greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skuli geta þeirra mála sem eigi að ræða og meginefni tillagna sem leggja eigi fyrir fundinn.

Stjórn gagnaðila hafi boðað til aukaaðalfundar með fundarboði 10. júní 2020. Fundarboðið hafi verið sent félagsmönnum með tölvupósti. Í fundarboðinu hafi komið fram dagskrá fundar, þar með talið að kosið yrði um lagabreytingar, og hafi tillögur meirihluta stjórnar að lagabreytingum verið sendar með því.

Samkvæmt 7. gr. laga gagnaðila verði lögum hans aðeins breytt á aðalfundi og með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Þegar kosið hafi verið um lagabreytingatillöguna 24. júní 2020 hafi 16 af 22 viðstöddum félagsmönnum kosið með tillögunni. Hún hafi því verið samþykkt með meira en 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Með vísan til framangreinds sé ljóst að boðað hafi verið til aðalfundar gagnaðila 24. júní 2020 með lögmætum hætti, tillaga til lagabreytinga hafi verið kynnt með lögmætum fyrirvara og samþykkt með réttmætum hætti. Samþykkt lög bindi félagsmenn gagnaðila, þar með talið álitsbeiðendur í þessu máli.

Álitsbeiðendur haldi því fram að gagnaðili hafi skert friðhelgi heimilis þeirra með því að banna lausagöngu katta í frístundabyggðinni. Þessari fullyrðingu sé mótmælt.

Í fyrsta lagi verði ekki séð að gæludýrahald falli undir friðhelgi heimilis samkvæmt stjórnarskrá eða 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Tengslum manna við gæludýr þeirra verði ekki jafnað til fjölskyldutengsla. Þá væri í öllu falli heimilt að takmarka þann rétt vegna réttinda annarra, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. nóvember 2015 í máli nr. E-20/2015.

Bann við lausagöngu katta feli ekki í sér bann við kattahaldi eins og álitsbeiðendur haldi fram. Þvert á móti sé þeim áfram heimilt að halda ketti á heimili sínu, svo framarlega sem gætt sé að því að þeir gangi ekki lausir.

Gagnaðili mótmælir því jafnframt að hann hafi ekki heimild að lögum til að takmarka lausagöngu katta. Þvert á móti hafi hann sérstaka heimild í lögum til þess að setja umgengnisreglur í frístundabyggð, sbr. 6. tölul. 19. gr. laga nr. 75/2008.

Hugsanlega væri mögulegt að færa rétt álitsbeiðenda til að halda gæludýr undir friðhelgi eignarréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár, og sbr. fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-20/2015, en það hafi þó ekki verið gert í álitsbeiðni. Allt að einu væri gagnaðila heimilt að setja umræddu kattahaldi hæfilegar skorður með almennum lögum um frístundabyggðina eins og gert hafi verið.

Álitsbeiðendur haldi því fram að það samræmist ekki tilgangi gagnaðila að banna lausagöngu katta. Þessu sé sérstaklega mótmælt. Þvert á móti séu það sameiginlegir hagsmunir umráðamanna lóða í frístundabyggðinni að fuglalífi sé ekki spillt. Eðlilegar takmarkanir á lausagangi dýra þjóni þessum hagsmunum.

Því sé mótmælt að bann við lausagöngu dýra feli í sér brot gegn meðalhófsreglu. Þvert á móti gangi bannið hæfilega langt þar sem það heimili áfram eigendum gæludýra að halda dýrin, svo framarlega sem þau gangi ekki laus.

Með lagabreytingunni séu álitsbeiðendur ekki neyddir til að flytjast búferlum, en samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2008 sé óheimilt að halda frístundahús sem lögheimili. Aftur á móti séu álitsbeiðendur einfaldlega beðnir um að fylgja lögum sem stjórn gagnaðila hafi sett, til jafns við aðra eigendur og vegfarendur í landinu.

Í athugasemdum álitsbeiðenda er vikið að dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-20/2015 og bent á að hann eigi ekki við, enda sé þar fjallað bann eða takmörkun við innflutningi dýra sem sé ákveðið með lögum, takmörkun sé nauðsynleg og byggð á málefnalegum grunni. Sama megi segja um meginregluna um bann við gæludýrahaldi í fjölbýlishúsum sem einnig sé skýr í lögum um fjöleignarhús og byggi á málefnalegum forsendum sem tengist nánu sambýli manna á þröngt afmörkuðu svæði. Í ákvæðum fjöleignarhúsalaga séu einnig ákvæði sem lúti að undantekningum frá þeirri skyldu að fá leyfi annarra eigenda fjöleignarhússins, allt til að tryggja að bannið gangi ekki of langt og til að jafnvægi sé fundið á milli hagsmuna eigenda. Engin slík ákvæði séu til staðar þegar komi að grundvelli banns gagnaðila við lausagöngu katta í landi sumarbústaða í dreifbýli. Þá væri vandséð að grundvöllur fyrir slíku banni í dreifbýli, væri hann til staðar, teldist málefnalegur, enda um hálfvillta náttúru að ræða þar sem áhrif villts dýralífs sé allsráðandi og vel aldir heimiliskettir með fuglakraga, í bjöllu, með klipptar klær og verulega skertan útivistartíma yfir sumarið, valdi engum óþægindum og skaða. Óljós lagaheimild um setningu umgengnis- og samskiptareglna sé því engan veginn sá skýri lagagrundvöllur sem áskilinn sé til takmarkana á gæludýrahaldi álitsbeiðenda. Til þess sé inngripið of mikið og ákvæðið of óskýrt.

Því séu ítrekuð þau sjónarmið að inngrip af því tagi sem umrætt ákvæði feli í sér séu því aðeins heimil að þau byggi á skýrri lagaheimild, að sú lagaheimild sé nauðsynleg í þágu lögmætra markmiða og að henni sé beitt í samræmi við reglur um meðalhóf.

Þá sé á það bent að álitsbeiðendum sé skylt að lögum að vera aðilar að gagnaðila og leggi áherslu á að slík skylduaðild takmarki frelsi félagsskaparins til að ákveða reglur að hentisemi; félagsskapurinn sé bundinn af lögmætisreglunni sem geri þær kröfur að ákvarðanir og aðgerðir gagnaðila sem feli í sér inngrip í réttindi félagsmanna verði að eiga traust stoð í lögum. Það sé því ekki nóg að reglurnar séu settar með lögmætum hætti eins og gagnaðili hafi vísað til, inntak þeirra fyrirmæla sem í þeim felist þurfi einnig að vera lögmætt.

Þótt ekki hafi verið óskað álits á því hvort ákvörðun um lagabreytingu hafi verið tekin á löglegan hátt sé með því ekki fallist á að svo hafi verið. Ákvörðunin hafi til dæmis ekki verið tilkynnt neinum formlega, engin skrá hafi verið haldin yfir þá sem hafi mætt eða fengið atkvæðaseðla, ekki hafi verið fylgst með því að atkvæðaseðlar væru eingöngu afhentir þeim sem hafi átt rétt á þeim eða þeir sem hafi átt rétt á seðlum hafi aðeins fengið einn seðil fyrir hverja lóð og enginn hafi kvittað fyrir móttöku atkvæðaseðils. Þá hafi tillögu um að atkvæði yrðu greidd sérstaklega um hverja breytingu á samþykktum gagnaðila ekki verið sinnt, en tillaga stjórnar hafi falið í sér tvær breytingar á samþykktunum. Þá megi einnig gera athugasemd við að ákvörðun þessi hafi verið tekin á framhaldsaðalfundi sem  hafi verið sérstaklega vel sóttur af þeim sem hafi verið á móti kattahaldi, í stað þess að afgreiða málið á aðalfundi eins og 7. gr. samþykkta félagsins mæli fyrir um. Fjölmargir annmarkar á málsmeðferð hafi því verið á þessari ákvörðun gagnaðila sem ættu að leiða til þess að hún teljist ólögmæt.

Gagnaðili vísi til reglugerðar um sumarbústaðalönd á F til stuðnings því að lausaganga dýra sé bönnuð víðar. Það skjal sé augljóslega ekki sambærilegt við lög gagnaðila. Hin svokallað reglugerð virðist fela í sér samning erfinga G sem hafi skyldað þá til að setja ákvæði í alla samninga sem þeir geri um sölu eða afnot af skikum á landinu F um að lausaganga hunda og notkun skotvopna væri óheimil. Nýting skika sem séu keyptir eða leigðir undir sumarbústaðalóðir eigi því að takmarkast af þessum kvöðum, sem yrðu þá skuldbindandi á grundvelli samninga við kaupendur eða leigjendur. Viðsemjendur erfingjanna geti þannig ráðið hvort þeir gangi að þessum skilmálum eða leiti annað eftir sumarbústaðalóðum. Engar slíkar kvaðir hafi verið á landinu sem álitsbeiðendur hafi keypt, lausaganga katta hafi og sé ekki bönnuð í sveitarfélaginu og ekkert hafi bent til þess að gagnaðili hygðist setja slíkar takmarkanir. Grundvöllur banns við lausagöngu hunda að F sé því allt annar og aðstæður þar á engan hátt sambærilegar aðstæðum þess ágreinings sem mál þetta snúist um. Reglugerð erfingjanna um kaup eða leigusamninga, sem innihaldi þær kvaðir sem reglugerðin hafi tilskilið, sé því engan veginn sambærileg þeim tilraunum gagnaðila til að takmarka afnotarétt álitsbeiðenda á eign þeirra og möguleika þeirra til að halda ketti á heimili sínu og landi.

Því sé alfarið hafnað að kettir álitsbeiðenda hafi haft neikvæð áhrif á fuglalíf á svæðinu, en fuglalíf á lóð þeirra sé í miklum blóma. Eins og fram hafi komið í álitsbeiðni bendi ekkert til annars en að ágangur dýra inn á lóðir nágranna stafi fyrst og fremst frá villtum dýrum, svo sem ránfuglum og villiköttum, sem ráðist á fuglalíf. Það sé vel þekkt í dreifbýli og sveitum að vel aldir heimiliskettir fæli í burtu villiketti, minka og nagdýr. Þeir gætu því dregið úr neikvæðum þáttum villtrar náttúru á svæðinu.

Gagnaðili hafi vakið athygli á því að réttur álitsbeiðenda til að halda gæludýr sem gangi laus utanhúss gæti byggst á friðhelgi eignarréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrá. Álitsbeiðendur taki undir þessar hugleiðingar og þakki ábendinguna en hafi ekki talið ástæðu til að benda séstaklega á þetta atriði. Málsforræðisregla einkamálaréttarfars gildi ekki í stjórnsýslumálum og mun álit kærunefndar einnig líta til þessa atriðis, án tillits til þess hvort sérstaklega sé til þess vísað.

Í tengslum við varakröfu álitsbeiðenda hafi gagnaðili lýst yfir þeirri afstöðu sinni að yfirlýsingar um verulegt fjárhagstjón sé ekki stutt gögnum. Af því tilefni leggi álitsbeiðendur fram reikninga fyrir flestum þeim breytingum sem þau hafi staðið fyrir til að aðlaga húsið að þörfum þeirra og framtíðaráætlunum. Ljóst sé að aðeins brot af þeim kostnaði, ef eitthvað, fáist til baka selji þau húsið og flytji á brott. Þau byggi enn á því að ef sú óvinátta, sem gæludýrum þeirra hafi verið sýnd með umræddri breytingu á samþykktum gagnaðila sé bindandi gagnvart þeim, sé áframhaldandi dvöl þeirra þar illmöguleg.

Gagnaðili hafi gefið til kynna að það skipti máli að álitsbeiðendur eigi ekki lögheimili á heimili sínu í D. Gagnaðili vísi jafnframt ranglega til 2. tölul. 2. mgr. laga nr. 75/2008 sem heimild fyrir banni gegn því að eiga lögheimili í frístundahúsi. Kjarni málsins sé þó sá að álitsbeiðendur haldi hvergi annars staðar heimili en í húsi sínu í D. Þar séu þau með fasta búsetu, þar dveljist þau að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og þar sé svefnstaður þeirra þegar þau séu ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, svo að notað sé orðalag 2. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Formleg skráning skipti engu máli í þessu sambandi.

Reglugerðin um landið F sýni hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að bann við gæludýrahaldi verði bindandi fyrir eigendur frísundahúsa. Þar hafi allir eigendur landsins samþykkt að selja eða leigja skika úr landinu með kvöð um bann við lausagöngu hunda. Slík kvöð upplýsi væntanlega kaupendur um þær takmarkanir sem séu á eignarhali skika á svæðinu. Ekkert slíkt hafi verið til staðar í tilviki álitsbeiðenda; þau hafi keypt húsið í góðri trú um að þar gætu þau haft ketti óáreitt. Ólíkt því sem þeir sem hafi keypt skika af erfingjum G hafi búið við, hafi álitsbeiðendur enga ástæðu haft til að óttast að nýting eignar þeirra væri eða yrði með þeim takmörkunum sem gagnaðili hafi nú reynt að setja. Reglugerðin styðji við varakröfu álitsbeiðenda um að jafnvel þótt gagnaðili gæti takmarkað gæludýrahald bindi það ekki þá sem þegar hafi keypt eign á svæðinu. 

III. Forsendur

Í 19. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, er kveðið á um hvað felist í hlutverki félags í frístundabyggð og segir þar í 6. tölul. að þar undir falli að setja almennar samskipta- og umgengnisreglur innan frístundabyggðarinnar.

Á framhaldsaðalfundi gagnaðila, sem haldinn var 24. júní 2020, voru samþykktar breytingar á lögum um sumarbústaðalandið D þar sem bætt var við ákvæði 5. gr. A en þar segir að lausaganga dýra, katta, hunda og annarra gæludýra sé með öllu óheimil. Samkvæmt gögnum málsins greiddu 16 félagsmenn gagnaðila atkvæði með ákvæðinu af 22 viðstöddum en í heildina hafa 38 atkvæðisrétt. Til fundarins var boðað með tölvupósti 10. júní 2020 og voru tillögur að lagabreytingunni kynntar með fundarboðinu.

Þá segir í 1. gr. samskipta- og umgengnisreglna gagnaðila, dags. 9. júní 2020, að meðal annars skuli vernda fuglalíf. Gagnaðili vísar til þess að lausaganga katta spilli fuglavarpi á svæðinu án þess að styðja þá fullyrðingu gögnum. Þá benda álitsbeiðendur á að villt dýr, svo sem ránfuglar og villikettir, séu á svæðinu.

Til álita kemur í máli þessu hvort heimild gagnaðila til að takmarka lausagöngu katta í frístundabyggðinni rúmist innan 6. tölul. 19. gr. laga, nr. 75/2008. Álitsbeiðendur benda meðal annars á að heimildir til þess að setja reglur um gæludýr, þar með talið um bann eða takmörkun þeirra, sé fyrst og fremst í höndum sveitarfélaga.

Kærunefnd telur að ákvörðun framhaldsaðalfundar um að banna lausagöngu katta á frístundasvæðinu gangi lengra en gera megi ráð fyrir að rúmist í almennum samskipta- og umgengnisreglum innan frístundabyggða, auk þess sem umdeild regla var ekki tekin upp í umgengnisreglur heldur lög gagnaðila. Kærunefnd telur að eigi að takmarka hagnýtingu félagsmanna á séreign sinni með svo íþyngjandi hætti þurfi samþykki allra félagsmanna til að koma. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd að ákvörðun framhaldsaðalfundar hér um sé ólögmæt og álitsbeiðendur séu ekki bundnir af henni.

Kærunefnd bendir á að skyldu félagsmenn allir taka ákvörðun um að banna lausagöngu katta í frístundabyggðinni yrði að þinglýsa slíkri kvöð ætti hún að gilda gagnvart grandlausum síðari eigendum frístundahúsa í byggðinni.

 

 


IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að ákvörðun framhaldsaðalfundar gagnaðila 24. júní 2020 um að banna lausagöngu katta í frístundabyggðinni sé ólögmæt.

 

Reykjavík, 3. desember 2020

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta