Hoppa yfir valmynd
8. október 2018 Matvælaráðuneytið

Frumvarp um fiskeldi

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi. Frumvarpinu er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar.

Samkvæmt gildandi lögum er rekstrarleyfi Matvælastofnunar skilyrði fyrir starfrækslu fiskeldisstöðva, sbr. 1. mgr. 4. gr. a. laga um fiskeldi. Samkvæmt 21. gr. c. sömu laga skal Matvælastofnun stöðva starfsemi fiskeldisstöðvar sem rekin er án þess að rekstrarleyfi sé í gildi.

Réttaráhrif þess að rekstrarleyfi er fellt úr gildi, m.a. með nýlegum úrskurðum úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála, eru því þau að Matvælastofnun ber að stöðva þá starfsemi sem byggjast á leyfum sem úrskurðirnir lutu að. Ákvæðið í 21. gr. c. er fortakslaust. Tilgangur þess virðist, m.a. með hliðsjón af orðalagi þess, fyrst og fremst sá að tryggja Matvælastofnun örugg stjórntæki til viðbragða ef fiskeldisstöð yrði sett á fót án þess að leyfa fyrir starfsemi hennar hefði verið aflað. Hin fortakslausa regla í 21. gr. c. á hins vegar ekki vel við ef rekstrarleyfi fellur úr gildi m.a. vegna annmarka á stjórnsýslu leyfisútgáfunnar. Í slíkum tilvikum standa þvert á móti sterk rök til þess, m.a. sjónarmið um meðalhóf og um að komist sé hjá óafturkræfri og hugsanlega óþarfri sóun verðmæta, að stjórnvöldum sé með lögum veitt svigrúm til að meta þá hagsmuni sem um ræðir og m.a. hvaða úrræði eru best til þess fallin að ná fram réttri niðurstöðu máls að lögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að í þeim tilvikum er rekstrarleyfi er fellt úr gildi geti ráðherra að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða. Þá kemur fram í frumvarpinu að ráðherra geti sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo tilgangur leyfisins náist, m.a. um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða ef um meðferð máls fyrir dómstólum er að ræða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta