Mál nr. 290/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 290/2016
Fimmtudaginn 10. nóvember 2016
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 29. júlí 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2016, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 56. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta frá og með 1. febrúar 2015 og var umsókn hans samþykkt þann 12. mars 2015. Þann 14. júlí 2015 var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði vegna höfnunar á atvinnutilboði en þann 19. ágúst 2015 var kærandi afskráður af atvinnuleysisskrá. Kærandi sótti aftur um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 7. júní 2016. Meðfylgjandi umsókninni var vinnuveitandavottorð þar sem fram kemur að kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna mikilla fjarvista og veikinda án skýringa. Þann 22. júní 2016 bárust skýringar frá kæranda vegna uppsagnarinnar ásamt læknisvottorði um starfshæfni. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2016, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur væri 75%. Með vísan til starfsloka hans í síðasta starfi væri réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 61. gr. laga 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. september 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. september 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 20. september 2016 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að hin kærða ákvörðun sé óskiljanleg. Kærandi bendir á að hann hafi sent Vinnumálastofnun skýringar og gögn en stofnunin hafi ekki tekið mark á því.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á, sbr. 1. mgr. 54. gr. laganna. Ágreiningur málsins snúist um það hvort kærandi hafi verið valdur að eigin uppsögn og hvort forsendur ráðningarsambandsins hafi verið brostnar.
Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerðinni sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Orðalagið gildar ástæður hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið talin falla þar undir. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Vinnumálastofnun tekur fram að samkvæmt uppsagnarbréfi hafi kæranda verið sagt upp störfum sökum mikilla fjarvista án skýringa sem og vegna veikinda sem hann hafi hvorki veitt skýringar á né réttlætt með læknisvottorði. Á vinnuveitendavottorði komi enn fremur fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna óeðlilega mikilla fjarvista og tilkynninga um veikindi án nokkurra skýringa, hann hafi ekki mætt til vinnu og ekki tilkynnt um forföll eða svarað í síma þegar reynt hafi verið að ná í hann. Þá hafi hann sýnt lítil eða engin viðbrögð þegar hann hafi verið beðinn um að ræða málin. Loks hafi kærandi hafnað því að vinna þann uppsagnarfrest sem honum hafi verið boðinn af hálfu vinnuveitanda. Ein af meginskyldum launþega sé að vinna þau störf sem hann sé ráðinn til á þeim tíma sem samið sé um. Í málinu beri að líta til þess að kærandi tilkynnti ekki vinnuveitanda um fjarveru sína og hafi ekki gefið viðhlítandi skýringar á veikindum sínum þrátt fyrir beiðni þar um. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að kæranda hafi mátt vera ljóst að honum yrði sagt upp störfum ef hann mætti ekki til vinnu á umsömdum ráðningartíma. Að mati stofnunarinnar réttlæti skýringar kæranda ekki að hann hafi hætt að mæta til vinnu án þess að tilkynna yfirmanni um það. Þegar vinnustaður og heimili atvinnuleitanda sé innan höfuðborgarsvæðisins sé með engu móti hægt að fallast á að það sé réttlætanleg skýring að vegalengd á milli staða sé of löng. Þá verði ekki fallist á að kærandi geti einskorðað atvinnuleit sína við einstök bæjarfélög. Kærandi hafi gengið sjálfviljugur í ráðningarsamband þar sem aðstæður og vegalengd hafi verið þær sömu í upphafi og í lok ráðningarsambandsins og því séu forsendur þess ekki brostnar að þessu leyti. Þá hafi kærandi hvorki haft uppi skýringar á fjarvistum sínum né sinnt óskum vinnuveitanda um skýringar þegar óskað hafi verið eftir því. Kæranda hljóti því að hafa verið ljóst að með fjarvistum sínum og samskiptaskorti myndi ráðningarsambandinu vera slitið. Kærandi hafi þannig sjálfur borið ábyrgð á uppsögninni í skilningi laga nr. 54/2006. Þar sem kærandi hafi áður fengið viðurlög í formi tveggja mánaða biðtíma, á sama bótatímabili, sé um ítrekun að ræða og því beri kæranda að sæta þriggja mánaða biðtíma, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hann hafi sjálfur átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Í uppsagnarbréfi fyrrum vinnuveitanda kæranda, dags. 31. maí 2016, kemur fram að ástæður uppsagnarinnar séu miklar fjarvistir án skýringa og veikindi sem hafi ekki verið skýrð eða réttlætt með læknisvottorði. Í vottorði vinnuveitanda, dags. 15. júní 2016, kemur enn fremur fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna óeðlilega mikilla fjarvista og tilkynninga um veikindi án nokkurra skýringa. Þá hafi kærandi ekki svarað símtölum og sýnt lítil sem engin viðbrögð þegar hann hafi verið beðinn um að ræða málin. Í skýringarbréfi kæranda kemur fram að eftir 15 ár á næturvöktum hafi starfið verið orðið of erfitt og heilsa hans versnað. Þá væri vinnustaðurinn langt frá heimili hans og strætó ekki byrjaður að ganga þegar hann ætti að vera mættur til vinnu. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að skýringar kæranda réttlæti ekki að hann hafi hætt að mæta til vinnu án þess að tilkynna vinnuveitanda um það.
Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði vegna atvika sem umsækjandi á sjálfur sök á. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna fjarvista án skýringa. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefði kæranda mátt vera ljóst að fjarvistir án skýringa myndu hafa þær afleiðingar að ráðningarsambandinu yrði líklega slitið. Úrskurðarnefndin tekur undir með Vinnumálastofnun að skýringar kæranda réttlæti ekki að hann hafi hætt að mæta til vinnu án viðeigandi ráðstafana. Að því virtu bar kæranda að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Sá sem áður hefur sætt biðtíma skv. 54. eða 55. gr. eða viðurlögum skv. 57.–59. gr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og sagt því starfi upp er hann gegndi síðast án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku seinni umsóknar um atvinnuleysisbætur enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hið sama á við um þann sem hefur misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.“
Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 7. júní 2016, verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði. Að því virtu hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar kærandi skráði sig atvinnulausan að nýju.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á bið í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 56. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2016, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson