Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Munum eftir sumaráhrifunum!

Sumarfrí nemenda geta valdið afturför í námi því fyrri þekking og færni gleymist sé henni ekki haldið við. Þetta eru svokölluð sumaráhrif. Hvað lestrarfærni varðar getur slík afturför numið einum til þremur mánuðum. Hjá barni í 6. bekk sem ekki les yfir sumartímann getur uppsöfnuð afturför því numið einu og hálfu skólaári. Yngstu lesendurnir, nemendur í 1.-4. bekk, eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sumaráhrifum en börn sem glíma við lestrarerfiðleika, búa við litla lestrarmenningu heima fyrir eða eiga annað móðurmál en íslensku, eru einnig í áhættuhópi.

Hið jákvæða er að það þarf ekki mikið til að krakkar viðhaldi færni sinni eða taki framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir afturför nægir að lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn. Best er þó að lesa í 15 mínútur á hverjum degi og velja þá hæfilega krefjandi lesefni á áhugasviði viðkomandi. Skemmtilegar bækur og hæfilega flóknir textar eru besta hvatningin fyrir unga lesendur. Hver einasti texti er tækifæri, hvort sem hann er í bók, á blaði eða á skjá.

Við vekjum athygli á Sumarlæsisdagatalinu sem inniheldur hvetjandi hugmyndir um sumarlestur ungra lesenda. Dagatalið er einnig aðgengilegt á ensku og pólsku, og óútfyllt svo hver og einn geti skrifað inn sínar hugmyndir eða markmið.

Á bókasöfnum landsins má finna spennandi og áhugavert efni fyrir alla aldurshópa. Bókasafnskort eru ókeypis fyrir lesendur yngri en 17 ára.

Á vef Menntamálastofnunar og KrakkaRÚV má líka nálgast skemmtileg myndbönd og fróðleik um sumarlestur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta